Teitur Björn Einarsson

Ég sækist eftir 1. sæti í prófkjöri í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi, Komandi alþingiskosningar þurfa að snúast um framtíðina; hvernig lífskjör allra landsmanna verði bætt, hvernig skilyrði til atvinnuuppbyggingar verði tryggð og hvaða tækifæri bjóðast ungu fólki til að velja sér menntun, búsetu, starfsvettvang og tómstundir. Ég er reiðu­bú­inn að axla þá ábyrgð sem fylgir því að leiða list­a sjálfstæðismanna og vil leggja mitt af mörkum við þá mikilvægu vinnu sem framundan er á næsta kjör­tíma­bili.

    • Sækist eftir 1. sæti í Norðvesturkjördæmi
    • Starfsheiti: Aðstoðarmaður fjármálaráðherra
    • Vefsíða: http://teiturbjorn.is

Svigrúm til athafna og nýsköpunar
Sóknarfæri til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar eru til staðar í Norðvesturkjördæmi en halda verður vel á spöðum og nýta þau tækifæri sem gefast.
Mikilvægt er að fólk að hafi svigrúm til athafna þannig það fái raunverulega notið afrakstur erfiðis síns og hafi fjármagn til frekari uppbyggingar og framkvæmda. Fólk býr til verðmæti. Hið opinbera skattleggur afraksturinn
Íþyngjandi inngrip og óhófleg gjaldtaka hins opinbera má ekki vera til þess að fæla fólk frá því að leita nýrra tækifæra og byggja upp bæði rótgrónar atvinnugreinar í kjördæminu, eins og sjávarútveg, landbúnað og orkufrekan iðnað sem og nýja atvinnuhætti eins og í ferðaþjónustu og hugverkageiranum. Oft á tíðum er hið opinbera nefnilega hluti vandans en ekki lausnin.Efling almannaþjónustu og uppbygging innviða
Hið opinbera hefur hlutverki að gegna við eflingu almannaþjónustu og uppbyggingu félagsinnviða. Kjörnir fulltrúar verða að tryggja að allir landsmenn hafi jafnan aðgang, óháð búsetu, að þeirri almannaþjónustu sem hinu opinbera ber að veita fyrir þá skatta sem íbúar á landinu öllu greiða.
Jákvæður viðsnúningur í ríkisfjármálum á undanförnum árum og stöðugleiki í efnahagslífinu er mikilvæg forsenda þess að nú er hægt að styrkja stoðir almannaþjónustu fyrir byggðir landsins og hlúa betur að þeim sem minna mega sín.
Í Norðvesturkjördæmi þarf að tryggja betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu og jöfn tækifæri til menntunar samhliða nauðsynlegri uppbyggingu mikilvæga félagsinnviði á sviði samgangna, raforkumála og fjarskiptamála. Þannig bætum við lífskjör og öryggi íbúa og tryggjum að skilyrðin fyrir atvinnuuppbyggingu séu til staðar.

Menntun er forsenda framfara
Ungt fólk sækist í sífellt auknum mæli eftir tækifærum til að öðlast nýja þekkingu og betri færni og velur sér starfsvettvang þar sem eftirspurn atvinnulífsins er eftir slíkum kröftum og búsetu þar sem fjölbreytt samfélagsgæði eru trygg.
Háskólinn á Bifröst, rannsóknarsetur Háskóla Ísland á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og Landbúnaðarskólinn á Hvanneyri eru dæmi um þýðingarmikilar stofnanir sem stuðla að aukinni menntun og rannsóknum og efla tengsl nærsamfélaga sinna við atvinnulíf og nýsköpun fyrir ungt fólk.
Til að bæta búsetu- og atvinnuskilyrði er lykilatriði að efla skólastarf, auka gæði menntunar og tryggja nálægð atvinnulífs við rannsóknar- og þekkingarsamfélagið um land allt. Skólar á öllum fræðslustigum; leik- og grunnskólar, framhaldsskólar sem og háskólar, eru þannig mikilvægar grunnstoðir í hverju samfélagi og hlúa verður að þeim.