Njáll Trausti Friðbertsson

Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri, bæjarfulltrúi á Akureyri og annar
formanna Hjartans í Vatnsmýrinni, gefur kost á sér í 2. sæti í röðun kjördæmisráðs
Sjálfstæðisflokksins í NA- kjördæmi sem fram fer þann 3. september nk.

Njáll er fæddur í Reykjavík 31. desember 1969 og ólst upp á Seltjarnarnesi. Hann
útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík 1990 og árið 1992
lauk hann námi í flugumferðarstjórn og útskrifast þá sem flugumferðarstjóri. Árið 2004
útskrifast Njáll Trausti svo sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri, með
áherslu á ferðaþjónustuna. Veturinn 1987-1988 var Njáll skiptinemi í Delaware í
Bandaríkjunum.

Njáll flytur til Akureyrar 1991 og byrjar sem nemi hjá Flugmálastjórn Íslands í
flugturninum og hóf svo störf sem flugumferðarstjóri hjá ISAVIA á sama stað 1992.
Hann hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum á Akureyri árið 2010. Á undanförnum árum
hefur Njáll verið ötull baráttumaður fyrir flugvellinum í Vatnsmýrinni og stóð ásamt
fleirum að stofnun Hjartans í Vatnsmýri, sem safnaði 70.000 undirskriftum til
stuðnings Reykjavíkurflugvelli árið 2013.

Njáll hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum og situr meðal annars í stjórn Góðvina
Háskólans á Akureyri, hann hefur verið virkur þátttakandi í starfi Round Table um
árabil og sinnt þar ýmsum trúnaðarstörfum, t.d. sem landsforseti Round Table á
Íslandi. Hann hefur setið í stjórn Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi undanfarin ár.
Njáll Trausti hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar og hefur sl. fjögur ár
setið í Umhverfis- og samgöngunefnd Sjálfstæðisflokkins.

Njáll Trausti hefur setið í Framkvæmdaráði Akureyrarbæjar frá 2010 sem og í stjórn
Fasteigna Akureyrar. Þá hefur hann setið í stjórn Norðurorku frá 2010 og einnig í
stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.
Njáll Trausti er kvæntur Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi og eiga þau
tvo syni; Stefán Trausta fæddan 1996 og Patrek Atla fæddan 2001. Stefán Trausti er
í sambúð með Karenu Hrönn og saman eiga þau dótturina Elenu sem er 10 mánaða

  • Sækist eftir 2. sæti í Norðausturkjördæmi
  • Starfsheiti: Flugumferðarstjóri og bæjarfulltrúi

Stefnumál

Njáll Trausti hefur lengi haft brennandi áhuga á landsmálunum líkt og á bæjarmálum
sem ýtir undir þingframboðs hans. Hann lítur á það sem spennandi áskorun að fara á
þing og halda þannig áfram baráttu sinni fyrir ýmsum af þeim málum sem hann hefur
lagt kapp á undanfarin ár eða allt frá því að hann hóf afskipti af pólitík. Þessi mál eru
til dæmis á sviði samgöngumála, málefnum sjúkraflugsins, byggða- og atvinnumála.

Njáll Trausti hefur sem annar formanna Hjartans í Vatnsmýrinni barist fyrir því af
mikilli eljusemi að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram óskertur í Vatnsmýri svo tryggja
megi öryggi landsmanna með greiðu aðgengi að Landspítala með sjúkraflugi.

Ferðaþjónusta, heilbrigðismál og umhverfismál eins og til dæmis skógrækt og
orkuskipti í samgöngum eru Njáli líka ofarlega í huga. Hann telur mikilvægt að tryggja
raforkuflutninga með nýrri byggðarlínu hringinn í kringum landið í sem mestri sátt við
náttúruna.

Njáll hefur lengi haft áhuga á samgöngumálum og telur að bættar samgöngur hvort
sem er í lofti, láði eða legi teljist algjör undirstaða þess að byggð í landinu dafni og
verði blómleg. Búseta á landsbyggðinni þarf að vera eftirsóknanlegur kostur.

Eitt af stóru verkefnunum á næstu árum er að skapa forsendur fyrir bættri dreifingu
erlendra ferðamanna um allt land og yfir allt almanaksárið. Allt Ísland – allt árið. Njáll
Trausti telur að beint millilandaflug um alþjóðaflugvellina tvo, Akureyrar- og
Egilsstaðaflugvöll sé gríðarlega mikilvægt mál í þeirri viðleitni að opna fleiri gáttir inn í
landið. Hann telur einnig mikilvægt að leita allra leiða við að lækka fargjöld í
innanlandsfluginu þannig að almenningur eigi hægara um vik að nýta sér það. Sú leið
þekkist erlendis frá.

Lokaorð

Njáll telur það nauðsynlegt að þau mál sem hann hefur sett á oddinn fái öflugan og
ástríðufullan málsvara hinna dreifðu byggða á þing. Hann óskar því eftir stuðningi
þínum í 2. sæti í kosningunum n.k. laugardag. Hann hefur gjarnan fengið orð á sig
fyrir að kynna sér vandlega öll þau mál sem hann fjallar um og fylgja þeim vel eftir.
Nái hann brautargengi heitir hann því að vinna með þeim hætti og vinna ötullega að
bættum hag allra landsmanna.