Málefni útlendinga

Innflytjendur 

Innflytjendur auðga bæði menningu og efnahag. Auðvelda ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem getur fengið starf hér á landi, að koma hingað og starfa. Stytta þarf og einfalda alla ferla og kerfi er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð, raunsæi og mannúð.

– Úr stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi 2021

  • Einfalda þarf ferli við veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan EES
  • Taka þarf vel á móti þeim sem leita hælis á Íslandi
  • Taka þarf búsetuúrræði og menntun barna á flótta ásamt annarri aðlögun að íslensku samfélagi fastari tökum
  • Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð og raunsæi

Taka þarf vel á móti þeim sem leita hælis á Íslandi og eiga rétt á að komast í skjól. Nýta þarf mannauð, þekkingu og reynslu innflytjenda sem vilja búa og starfa hér á landi. Þannig er samkeppnishæfni landsins betur tryggð. Einfalda þarf ferli við veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins og tryggja greiðari leið þeirra sem vilja leita nýrra tækifæra og betra lífs á Íslandi. Fjölbreyttara samfélag kallar á fjölbreyttari valkosti fyrir alla.

Ekki má láta átölulaust að hingað komi fólk frá öruggum ríkjum í þeim tilgangi að misnota réttindi fólks sem er á flótta frá  raunverulegri neyð. Mikill árangur hefur náðst við styttingu málsmeðferðartíma umsókna um alþjóðlega vernd að undanförnu og við að hraða brottför þeirra sem sækja um vernd að tilhæfulausu.

Miklar réttarbætur hafa verið gerðar hér á landi í þágu útlendinga, bæði þeirra sem leita alþjóðlegrar verndar og kvótaflóttamanna sem og annarra útlendinga. Við móttöku flóttamanna og innflytjenda verður einnig að gera þá kröfu að innviðir samfélagsins svo sem heilbrigðis- og félagsþjónusta séu viðunandi svo veita megi þeim sem hingað leita úr erfiðum aðstæðum þá aðstoð sem þarf. Taka þarf búsetuúrræði og menntun barna á flótta ásamt annarri aðlögun að íslensku samfélagi fastari tökum. Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð og raunsæi.

Byggir á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018