Málefni útlendinga

Innflytjendur

Bjóðum þau velkomin: Taka ætti vel á móti þeim sem vilja koma hingað til lands til að lifa og starfa. Mikilvægt er að tryggja öryggi erlends verkafólks og virða réttindi þeirra. Innflytjendur auðga bæði menningu og efnahag. Leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur fengið starf hér á landi og er með hreint sakarvottorð, að koma hingað og starfa. Ísland ætti að sýna frumkvæði í því að bjóða fleiri kvótaflóttamönnum hingað.

Verndarkerfið: Slá þarf skjaldborg utan um verndarkerfið og félagslega innviði í landinu. Á fáum árum hefur umsækjendum um vernd fjölgað verulega en hlutfallslega sækja mun fleiri um vernd hérlendis en í nágrannalöndum. Þessi þróun hefur leitt til mikils álags á félagslega innviði sem eru komnir að þolmörkum. Aðkallandi er að bregðast við með breytingum á útlendingalöggjöfinni. Í því sambandi er nauðsynlegt að samræma útlendingalöggjöfina við löggjöf nágrannalanda, með tilliti til málsmeðferðar og þjónustu við þá sem sækja um vernd. Útlendingalöggjöfin þarf á hverjum tíma að byggja á mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi þar sem smæð þjóðarinnar er viðurkennd.

Byggt á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.