Ívar Karl Hafliðason er fæddur þann 14. september árið 1981. Ívar Karl er uppalinn á Héraði og Breiðdalsvík en hann flutti 16 ára gamall norður á Akureyri þar sem hann lauk prófi frá Menntaskólanum á Akureyri af eðlisfræðibraut. Árið 2004 flutti hann aftur heim og fór að vinna hjá byggingarfyrirtæki við nýbyggingar á Egilsstöðum. Eftir að hafa komið að byggingu á annan tug íbúða fór Ívar Karl í fjarnám frá Háskólanum á Akureyri um leið og hægðist á í byggingargeiranum árið 2009. Ívar Karl lauk B.Sc. prófi í umhverfis- og orkufærði árið 2013 og á nú og rekur Austurbygg Verktakar ehf. sem hefur þegar afhent fjögurra íbúða raðhús á Egilsstöðum og er með annað raðhús í byggingu.
Ívar Karl er giftur Rögnu Fanneyju sem starfar sem aðstoðarþjóðgarðsvörður á Austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og saman eiga þau þrjú börn. Ingu Sól ellefu ára, Hafþór Loga átta ára og Fannar Helga fjögurra ára. Fjölskyldan hefur gaman af því að ferðast saman bæði innan- og utanlands auk þess sem ferðir í sveitasæluna eru alltaf vinsælar.
Ívar Karl er mikill keppnismaður og spilaði fótbolta með bæði Hetti og Huginn og körfubolta með Hetti á árum áður og tekur annað slagið fram skóna en svo virðist sem líkaminn fylgi ekki alveg huganum lengur.
Áhugamálin snúast mikið um útiveru og veiði. Haustin eru undirlögð af hreindýraveiðum en Ívar Karl er leiðsögumaður með hreindýraveiðum. Veturnir eru tími sleða- og jeppaferða en að ferðast um fjöllin hér fyrir austan að vetri á sleða í góðu veðri er óviðjafnanlegt.
Ívar Karl kom inn í sveitarstjórnarmál fyrir síðustu kosningar og skipaði þá 8. sæti og hefur setið í atvinnu- og menningarmálanefnd bæði sem aðalmaður og varmaður auk þess að vera varamaður í stjórn Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Hann lætur sig varða framkvæmdir, atvinnu-, skipulags- og umhverfismál auk íþróttastarfi.
Ívar Karl skipar 9. sæti á lista okkar sjálfstæðismanna í nýju sameinuðu sveitarfélagi.