4. sæti Jakob Sigurðsson

Jakob Sigurðsson er fæddur þann 2. ágúst 1959 og er þriðji í röð fjögurra systkina. Hann hefur nær alla tíð átt heima í Njarðvík við Borgarfjörð eystra. Jakob nam bifvélavirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og vann í framhaldi af því í eitt ár á Bílaverkstæði Sambandsins að Höfðabakka 9 í Reykjavík.

Jakob vann ungur á vertíðum, fyrst hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, til sjós á Breiðdalsvík, í Keflavík og Höfn í Hornafirði þar sem hann var vélstjóri. Jakob gerðist snemma einyrki en hann eignaðist sinn fyrsta vörubíl árið 1982. Síðar fór hann í verktakabransann og var þá með fleiri tæki, allt til ársins 2004. Þá tóku alfarið við áætlunarferðir Jakobs og Margrétar sem hófust árið 1996.

Jakob sótti sér kvonfang upp á Jökuldal, Margréti I. Benediktsdóttur Hjarðar (f.1963) frá Hjarðargrund. Í byrjun árs 1985 ákvað nýja parið að fara saman á vertíð á Hornafjörð þar sem þau voru fram á vor, Jakob sem vélstjóri eins og áður hefur komið fram og Margrét vann hjá KASK við fiskvinnslu. Meðan þau dvöldu á Höfn bjuggu þau að Hlíðartúni 39. Í nóvember 1985 ákváð þau að hefja búskap og fluttu til Borgarfjarðar, þau höfðu árs viðkomu í Fellabæ 1989-1990 en ákváðu að byggja sér hús í Njarðvík sem þau fluttu inn í árið 1991. Jakob og Margrét búa enn í húsinu sínu sem fékk nafnið Hlíðartún.

Jakob og Margrét komu alla tíð að búskapnum með foreldrum Jakobs, árið 2003 keyptu þau hlut í búinu. Eftir fráfall Sigurðar ( 2008 ) keyptu þau búið og hafa rekið sauðfjárbú síðan ásamt nautaeldi. Einnig reka þau hjón ferðaþjónustu að Borg í Njarðvík þar sem foreldrar Jakobs bjuggu.

Jakob og Margrét eiga fjögur börn. Guðfinna (f.1987) býr á Akureyri og vinnur á leikskólanum Kiðagili. Hún hefur lokið B.A. prófi í félagsráðgjöf frá HÍ. Anna Margrét (f.1990) býr einnig á Akureyri og starfar hjá Saga Travel GeoIceland. Hún hefur lokið B.A. prófi í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. Sigurður (f.1994) er í flugvirkjanámi við Tækniskólann í Reykjavík. Bóas (f.2000) lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum í desember 2019. Hann býr á Egilsstöðum, spilar körfubolta með Hetti og vinnur í Nettó.

Jakob kom fyrst inn í hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps sem aðalmaður árið 1998 og hefur verið oddviti frá árinu 2006. Jakob hefur setið í verkefnastjórn vegna sameiningar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar og situr nú í undirbúningsstjórn. Jakob hefur verið hlynntur sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga frá byrjun og mun vinna af heilum hug að því að sameiningin takist sem best.

Jakob skipar 4. sæti á lista okkar sjálfstæðismanna í nýju sameinuðu sveitarfélagi.