Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Enn eykst áætlaður kostnaður við fyrirhugaða Fossvogsbrú. Áætlaður heildarkostnaður við brúarsmíðina hefur margfaldast frá upphaflegri áætlun og verður endanlegur kostnaður varla undir ellefu milljörðum króna.
Þegar tilboð voru opnuð í sjálfa brúarsmíðina um sl. mánaðamót kom í ljós að lægsta boð nemur 7.899 milljónum króna eða um 33% yfir kostnaðaráætlun. Reikna má með að annar kostnaður við brúna, t.d. við landfyllingar, nemi samanlagt a.m.k. þremur milljörðum króna.
Erfitt er að áætla endanlegan kostnað við brúna þar sem um mjög dýrt og sérhæft mannvirki er að ræða. Kostnaðurinn virðist ekki skipta máli eins og við fleiri opinberar framkvæmdir. Skattgreiðendur borga brúsann.
Heildarkostnaður við Fosssvogsbrú hefur lengi verið hulinn þoku og hafa kostnaðaráætlanir verið stórlega vanmetnar. Þegar leitað var eftir upplýsingum um kostnað við brúna árið 2022 mætti maður mikilli tregðu í kerfinu. Í árslok fékk ég það svar í borgarkerfinu að kostnaður við brúna næmi 2.250 milljónum króna þótt augljóst væri að sú tala væri röng og a.m.k. úrelt. Sú spurning vaknar hvort lágum kostnaðartölum hafi vísvitandi verið haldið að kjörnum fulltrúum til þess að afla stuðnings þeirra við þetta dýra verkefni og koma því þannig yfir á herðar skattgreiðenda. Og að slíkt hafi verið gert í þeirri von að þegar almenningur áttaði sig loks á hinum raunverulega kostnaði við verkefnið, væri orðið of seint að hætta við það.
Takmarkaður tilgangur
Áformað er að Fossvogsbrú verði 270 metra löng stálbrú, sem tengja á saman tvö jaðarsvæði: Kársnes og Nauthólsvík. Brúin mun hafa mjög takmarkaðan almennan tilgang. Ekki er gert ráð fyrir bílum á brúnni heldur einungis gangandi og hjólandi umferð, auk borgarlínuvagna. Brúin mun hafa lítil áhrif til styttingar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, fyrir utan þá sem eru einungis á ferð milli þessara jaðarsvæða.
Flest bendir til þess að Fossvogsbrú verði óarðbær og hafi neikvætt núvirði eins og borgarlínuverkefnið í heild sinni. Margar aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru arðbærari og miklu þarfari. Þá sætir furðu að rándýr nýframkvæmd sem þessi sé í forgangi þegar bundið slitlag á þjóðvegum landsins liggur undir skemmdum og eyðileggingu vegna ónógs viðhalds.
Ástæða til endurskoðunar
Áður var fullyrt að vegna mikils sjóálags þyrfti að nota ryðfrítt stál í Fossvogsbrú og spara þannig viðhaldskostnað. Hætt var við notkun ryðfría stálsins með einu pennastriki, að því er virðist til að lækka kostnaðaráætlun um 1.400 milljónir króna. Sú spurning vaknar óhjákvæmiega hvort þannig hafi viðhaldskostnaður brúarinnar verið aukinn til framtíðar.
Vegna stökkbreyttra kostnaðaráætlana Fossvogsbrúar ætti að endurskoða verkefnið í heild sinni og meta hvort það sé í raun ellefu milljarða króna virði. Hægt væri að stórbæta strætótengingar milli Nauthólsvíkur (Háskólans í Reykjavík) og Kópavogs með miklu minni tilkostnaði. Til dæmis með því að lagfæra gamlan veg í sunnanverðri Öskjuhlíð og gera hann að svokallaðri strætógötu, sem einungis strætisvagnar fengju að aka eftir. Slík lausn væri miklu hagkvæmari og fljótlegri en ellefu milljarða króna brúargerð.
Grunnþjónustu í stað gæluverkefna
Ríkisstjórnin stefnir að því að binda enda á hallarekstur ríkissjóðs árið 2027. Það háleita markmið næst ekki nema ríkisstjórnin vinni einarðlega að hagræðingu og endurskoði öll útgjöld með markvissum hætti. Þar liggur beint við að hverfa frá hugmyndum um dýr og óarðbær gæluverkefni eins og Fossvogsbrú. Borgarlínuverkefnið mun ekki kosta undir 150 milljörðum króna í heild sinni og þeir fjármunir eru ekki til. Ljóst er að hægt er að ná flestum ef ekki öllum markmiðum borgarlínu með fljótlegri og margfalt ódýrari hætti með metnaðarfullum umbótum á núverandi strætisvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Nær væri að efla það kerfi en að bæta öðru við með óvissum kostnaði og árangri.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. október 2025.

