17. júní – Dagur þjóðarinnar

17. júní 2025

'}}

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins:

Þjóðhátíðardagur Íslendinga er dagur sem snertir streng í hjarta okkar allra. Þetta er dagurinn sem minnir okkur á hver við erum, hvað við höfum áorkað, og hvert við stefnum. Þann 17. júní 1944 tókum við afdrifaríka ákvörðun. Við stofnuðum lýðveldi. Við lýstum yfir fullu sjálfstæði, og í því fólst sterkyfirlýsing: Við treystum okkur sjálf. Við ráðum eigin framtíð.

Sú ákvörðun markaði ekki upphaf þjóðarinnar, en það var fögur staðfesting á vilja landsmanna. Að við værum reiðubúin að axla ábyrgð og taka ákvarðanir í okkar eigin nafni. Það er kjarninn í því að vera sjálfstæð þjóð. Að treysta hvoru öðru, leggja saman krafta okkar og taka ábyrgð á því samfélagi sem við viljum byggja.

Í dag, rúmum átta áratugum síðar, eigum við mörgu að fagna. Við höfum byggt upp samfélag þar sem frelsi, jafnrétti og mannréttindi eru ekki bara hugsjónir á blaði, heldur sjálfsagðar staðreyndir í daglegu lífi.

Saga Íslands er ekki saga ríkidæmis og stöðugleika heldur þrautseigju, elju og framtakssemi. Þessi þjóð hefur byggt sig upp úr erfiðleikum með því að treysta á eigin mátt, styðja hvert annað og nýta þau tækifæri sem gefist hafa.

Lýðræði er ekki sjálfgefið. Það er ekki sjálfstætt fyrirbæri sem heldur sér uppi án þess að við hlúum að því. Það krefst þátttöku, samræðu og ábyrgðar. Það krefst þess að við tökum afstöðu, gefum okkur tíma og látum rödd okkar heyrast, ekki bara á kjördag, heldur í hversdeginum. Þegar við tölum saman, mótum stefnu, greiðum atkvæði, ræðum málin heima og á vinnustað, þá erum við að rækta lýðræðið.

Á 17. júní er okkur falið að minna hvert annað á þetta. Að rifja upp að lýðræðið byrjar ekki hjá einhverjum öðrum, heldur hjá okkur sjálfum. Við erum ekki aðeins arftakar sögunnar, heldur ábyrgir þátttakendur í framhaldinu. Það er á herðum okkar að standa vörð um þau gildi sem við höfum byggt samfélagið okkar á: frelsi, mannréttindi, samstöðu og réttlæti.

Ég er sjálf alin upp við þá hugmynd að ekkert komi af sjálfu sér. Að velferð, réttlæti og lýðræði séu ávöxtur samstöðu og ábyrgðar. Þann lærdóm hef ég borið með mér í gegnum lífið og inn í stjórnmálin. Því það sem gerir Ísland sterkt er ekki stærð okkar, heldur fólkið okkar. Dugnaðurinn, hugkvæmnin og samkenndin sem býr í hverju einasta sveitarfélagi, hverju heimili, hverjum einstaklingi.

Við höfum ekki alltaf átt auðvelt. En við höfum staðið saman í gegnum áföll og mótlæti. Við höfum sýnt að við gefumst ekki upp. Við lærum, vöxum og tökum höndum saman – og það skiptir máli nú, þegar heimurinn breytist hratt. Í þeirri óvissu sem ríkir í alþjóðamálum felst einmitt tilefni til að horfa inn á við og styrkja það sem við eigum sameiginlegt. Að hlúa að lýðræðinu okkar. Að standa vörð um frelsið. Að trúa á framtíðina.

Við Íslendingar höfum aldrei látið aðra skrifa söguna fyrir okkur. Við gerum það sjálf. Og í dag skrifum við áfram söuna– saman. Með bjartsýni, ábyrgð og óbilandi trú á þjóðina okkar.

Til hamingju með daginn, kæru Íslendingar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. júní 2025