Horfin sleggja

23. maí 2025

'}}

Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

For­sæt­is­ráðherra ferðaðist um með mynd­ar­lega sleggju og ætlaði að berja niður verðbólg­una sem var þá á hraðri niður­leið. Því miður hef­ur þó ekk­ert gengið að berja niður verðbólg­una sem er mikið áhyggju­efni fyr­ir heim­il­in í land­inu.

Í fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir árin 2026 til 2030 kenn­ir ým­issa grasa. Skatta­hækk­an­ir eru boðaðar á víð og dreif sam­hliða æði óljós­um og bit­laus­um hagræðing­araðgerðum. Sama hve miklu púðri er varið í út­list­an­ir á því hvernig há­leit­um mark­miðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar um halla­laus­an rík­is­rekst­ur, minni verðbólgu og lækk­un vaxta verður náð. Segja má að sú veg­ferð sé á huldu og óljós með öllu.

Þrátt fyr­ir meint­an vilja stjórn­ar­liða til að berja niður vext­ina hef­ur rík­is­stjórn­in ákveðið að slaka á í bar­átt­unni við verðbólg­una. Seðlabank­inn er lát­inn svitna enn frek­ar, á sama tíma og verðbólga mæl­ist mánuð eft­ir mánuð í kring­um 4%. Ákveðið hef­ur verið að losa um takið á budd­unni. Kosn­ingalof­orðin sem auka eiga vin­sæld­ir rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru enda mörg hver kostnaðar­söm og meint­ar hagræðing­araðgerðir duga skammt. Rík­is­stjórn­in stefn­ir á minna aðhald í rík­is­rekstri en síðasta rík­is­stjórn hafði lagt upp með. Sem er bæði óskyn­sam­legt og óskilj­an­legt til að mynda í því ljósi að rík­is­stjórn­in tók við mjög góðu búi þótt hún kepp­ist við að halda öðru fram. Það sést svart á hvítu á upp­færðu tekjumati upp á 50 millj­arða fyr­ir árið 2025.

For­svars­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar virðast hafa glatað vaxta­lækk­un­ar­s­leggj­unni á leið sinni í ráðuneyt­in en í for­svari fyr­ir téða rík­is­stjórn eru meðal annarra tveir hag­fræðing­ar. Það vek­ur því sann­ar­lega sér­staka furðu að rík­is­stjórn­in kjósi að fara þá leið sem boðuð hef­ur verið. Í stað þess að leggj­ast á sveif með pen­inga­stefn­unni í bar­átt­unni við verðbólg­una vinn­ur rík­is­stjórn­in gegn lækk­un vaxta með aukn­um rík­is­um­svif­um. Í stað þess að halda áfram á braut verðstöðug­leika og lægri vaxta sem mörkuð var af síðustu rík­is­stjórn hef­ur nú­ver­andi rík­is­stjórn kosið veg skjót­fengn­ari vin­sælda.

Af­leiðing­ar þessa los­ara­hátt­ar með rík­is­budd­una verða okk­ur mögu­lega ljós­ar á miðviku­dag­inn þegar pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands til­kynn­ir næstu vaxta­ákvörðun sína. Sama hver ákvörðun Seðlabank­ans verður hlýt­ur þró­un­in þessa síðustu mánuði að vera rík­is­stjórn­inni mik­il von­brigði í ljósi fyrri yf­ir­lýs­inga og sleggju­sveiflna.

Fög­ur fyr­ir­heit rík­is­stjórn­ar­flokk­anna fyr­ir kosn­ing­ar hafa hvert af öðru fokið út í veður og vind. Vaxta­lækk­un­ar­s­leggj­unni góðu er ekki sveiflað af nein­um krafti um þess­ar mund­ir og nær væri að segja að hún hafi verið lögð á hill­una. Allt er jú falt fyr­ir rétt verð og hef­ur friður á rík­is­stjórn­ar­heim­il­inu verið keypt­ur dýru verði. Það eru heim­il­in í land­inu sem sitja uppi með reikn­ing­inn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. maí 2025.