Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Forsætisráðherra ferðaðist um með myndarlega sleggju og ætlaði að berja niður verðbólguna sem var þá á hraðri niðurleið. Því miður hefur þó ekkert gengið að berja niður verðbólguna sem er mikið áhyggjuefni fyrir heimilin í landinu.
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026 til 2030 kennir ýmissa grasa. Skattahækkanir eru boðaðar á víð og dreif samhliða æði óljósum og bitlausum hagræðingaraðgerðum. Sama hve miklu púðri er varið í útlistanir á því hvernig háleitum markmiðum ríkisstjórnarinnar um hallalausan ríkisrekstur, minni verðbólgu og lækkun vaxta verður náð. Segja má að sú vegferð sé á huldu og óljós með öllu.
Þrátt fyrir meintan vilja stjórnarliða til að berja niður vextina hefur ríkisstjórnin ákveðið að slaka á í baráttunni við verðbólguna. Seðlabankinn er látinn svitna enn frekar, á sama tíma og verðbólga mælist mánuð eftir mánuð í kringum 4%. Ákveðið hefur verið að losa um takið á buddunni. Kosningaloforðin sem auka eiga vinsældir ríkisstjórnarinnar eru enda mörg hver kostnaðarsöm og meintar hagræðingaraðgerðir duga skammt. Ríkisstjórnin stefnir á minna aðhald í ríkisrekstri en síðasta ríkisstjórn hafði lagt upp með. Sem er bæði óskynsamlegt og óskiljanlegt til að mynda í því ljósi að ríkisstjórnin tók við mjög góðu búi þótt hún keppist við að halda öðru fram. Það sést svart á hvítu á uppfærðu tekjumati upp á 50 milljarða fyrir árið 2025.
Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar virðast hafa glatað vaxtalækkunarsleggjunni á leið sinni í ráðuneytin en í forsvari fyrir téða ríkisstjórn eru meðal annarra tveir hagfræðingar. Það vekur því sannarlega sérstaka furðu að ríkisstjórnin kjósi að fara þá leið sem boðuð hefur verið. Í stað þess að leggjast á sveif með peningastefnunni í baráttunni við verðbólguna vinnur ríkisstjórnin gegn lækkun vaxta með auknum ríkisumsvifum. Í stað þess að halda áfram á braut verðstöðugleika og lægri vaxta sem mörkuð var af síðustu ríkisstjórn hefur núverandi ríkisstjórn kosið veg skjótfengnari vinsælda.
Afleiðingar þessa losaraháttar með ríkisbudduna verða okkur mögulega ljósar á miðvikudaginn þegar peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnir næstu vaxtaákvörðun sína. Sama hver ákvörðun Seðlabankans verður hlýtur þróunin þessa síðustu mánuði að vera ríkisstjórninni mikil vonbrigði í ljósi fyrri yfirlýsinga og sleggjusveiflna.
Fögur fyrirheit ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar hafa hvert af öðru fokið út í veður og vind. Vaxtalækkunarsleggjunni góðu er ekki sveiflað af neinum krafti um þessar mundir og nær væri að segja að hún hafi verið lögð á hilluna. Allt er jú falt fyrir rétt verð og hefur friður á ríkisstjórnarheimilinu verið keyptur dýru verði. Það eru heimilin í landinu sem sitja uppi með reikninginn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. maí 2025.