Norska leiðin

19. maí 2025

'}}

Guðmund­ur Hauk­ur Jak­obs­son oddviti Sjálfstæðisflokksins í Húnabyggð:

Nú er Alþingi und­ir­lagt af umræðum um veiðigjöld, rík­is­stjórn­in ætl­ar að leiðrétta veiðigjöld­in með norskri nálg­un og er það at­hygl­is­vert og skipt­ar skoðanir eins og glöggt má sjá þessa dag­ana. Þessa stóru leiðrétt­ingu er verið að keyra áfram svo hún nái fram að ganga sem allra fyrst, fyr­ir rík­iskass­ann og þjóðina að sjálf­sögðu.

En mun þessi rík­is­stjórn verða sam­kvæm sjálfri sér á næstu miss­er­um? Það eru nefni­lega fleiri leiðrétt­ing­ar í far­vatn­inu, fleiri norsk­ar leiðir, en það ligg­ur ekki eins mikið á þeim þar sem þær breyta á ann­an hátt fyr­ir rík­iskass­ann og sveit­ar­fé­lög­in á Íslandi. Þessi breyt­ing lýt­ur að af­námi und­anþágu fast­eigna­mats­skyldu mann­virkja til orku­fram­leiðslu. Sú breyt­ing mun þýða að um ein­hvern tíma munu arðgreiðslur Lands­virkj­un­ar til rík­is­ins minnka svo ein­hverju nemi, það er óhent­ugt.

Fast­eigna­skatt­ur er einn af þrem­ur tekju­stofn­um sveit­ar­fé­laga ásamt út­svari og greiðslum úr Jöfn­un­ar­sjóði. Við þessa und­anþágu verða sveit­ar­fé­lög af mikl­um tekj­um. Sam­kvæmt skýrsl­unni „Skatt­ar á orku­fyr­ir­tæki“, sem unn­in var af Há­skól­an­um á Bif­röst og kom út í mars 2023, greiddu orku­fyr­ir­tæki um 7,5 millj­arða í fast­eigna­skatt og tekju­skatt að meðaltali á ár­un­um 2018 til 2021. Af þeim tekj­um fékk rík­is­sjóður rétt tæp 79% og sveit­ar­fé­lög­in um 21%. Árið 2022 voru þessi hlut­föll 13% sveit­ar­fé­lög (1,83 ma. kr. í fast­eigna­skatt) og 87% rík­is­sjóður (12,2 ma. kr. í tekju­skatt). Í skýrsl­unni kom jafn­framt fram, að ef norsk­um regl­um yrði beitt á ís­lensk fyr­ir­tæki myndi skatt­byrði þeirra þre­fald­ast. Þar af myndi rík­is­sjóður fá 36% meiri skatt­tekj­ur, en sveit­ar­fé­lög ríf­lega 800% meira, eða um 13,5 ma. ISK á ári. Fjallað hef­ur verið um málið í þrem­ur starfs­hóp­um og var niðurstaða fjár­málaráðuneyt­is­ins eft­ir vinnu þriðja starfs­hóps­ins að af­nema skyldi und­anþágu á fast­eigna­mats­skyldu strax og sér­stakt skattþrep lög­fest vegna virkj­un­ar­mann­virkja.

Nú er staðan sú að beðið er eft­ir áforma­skjali næstu leiðrétt­ing­ar, átti fyrst að koma í tíð síðustu rík­is­stjórn­ar og svo núna fyr­ir páska, hvernig mun það líta út? Verður bú­inn til nýr skatt­stofn sem mun hygla vind­myllu­byggj­end­um um allt land og ívilna þeim um­fram önn­ur fyr­ir­tæki í land­inu? Hversu dýr­keypt verður það fyr­ir sveit­ar­fé­lög­in í land­inu? Verður nýi Land­spít­al­inn í Reykja­vík sett­ur í sama skattþrep, hann kost­ar bara rúma 200 millj­arða?

En málið er að þessi leiðrétt­ing mun hafa áhrif á vænt­an­lega öll sveit­ar­fé­lög, mikl­ir fjár­mun­ir munu skila sér inn á sveit­ar­stjórn­arstigið, ekki veit­ir af. Það vant­ar mikla fjár­muni inn í sveit­ar­fé­lög­in víða og hér er um að ræða leiðrétt­ingu sem mun færa aukna fjár­muni frá arðgreiðslum í að borga lög­bundna skatta þar sem nærsam­fé­lög allra virkj­ana munu njóta rétt­mætra tekna sem og sveit­ar­fé­lög um allt land.

Und­ir­ritaður treyst­ir því að rík­is­stjórn­in ætli sér ekki að mis­muna fyr­ir­tækj­um á Íslandi en fari svo að norsku for­dæmi verði fylgt þá þýðir það nýj­an skatt­stofn með 0,7% álagn­ing­ar­hlut­falli á orku­mann­virki. Ef ætl­un­in er að fara ennþá neðar en það er ljóst að það á að hygla ábata­söm­ustu og ör­ugg­ustu at­vinnu­grein á ís­landi um­fram önn­ur fyr­ir­tæki. Hverj­ir eru það sem eiga þessi vind­myllu­verk­efni, eru það kannski Norðmenn sem þurfa ekki norska leið eins og ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2025.