Vegna fréttaflutnings um greiðslu framlags til Sjálfstæðisflokksins á árinu 2022 samkvæmt lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka er rétt að hafa í huga að breytingar á lögunum tóku gildi 1. janúar 2022. Eitt markmiða laganna er að auka gagnsæi í íslenskum stjórnmálum. Með breytingunum var bætt við því skilyrði úthlutunar til stjórnmálasamtaka, samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni, að samtökin séu skráð á stjórnmálasamtakaskrá hjá ríkisskattstjóra. Hann fer með eftirlit með því að skilyrði úthlutunar séu uppfyllt og veitir fresti til að bæta úr því sem áfátt er.
Eyðublað ríkisskattstjóra vegna skráningarinnar var ekki tilbúið fyrr en 12. janúar 2022. Gerð var krafa um að tilkynningunni fylgdu nánar tiltekin gögn en um var að ræða talsverðar breytingar frá fyrri upplýsingaskyldum stjórnmálasamtaka samkvæmt lögunum. Ekki var kveðið á um að hin nýja skráning þyrfti að fara fram innan ákveðins tíma. Af eðli fjárlaga leiðir að það þurfti að vera innan ársins sem fjárheimildin nær yfir.
Í beinu framhaldi hófst Sjálfstæðisflokkurinn handa við að uppfylla kröfur vegna skráningarinnar, svo sem að taka saman yfirlit yfir allar einingar sem starfa innan flokksins og skilgreiningar á hlutverki hverrar þeirra. Þær eru vel á annað hundrað og því um töluvert umfangsmikið verk að ræða. Auk þess var unnið að nauðsynlegum breytingum á samþykktum flokksins sem leiddi af kröfum í hinum breyttu lögum. Skráningunni var skilað til Skattsins 8. apríl 2022.
Úthlutun á framlagi úr ríkissjóði er háð því stjórnmálasamtökin hafi skilað og fengið birtan ársreikning hjá Ríkisendurskoðun og að viðkomandi stjórnmálasamtök séu skráð sem slík hjá Skattinum. Sjálfstæðisflokkurinn lítur svo á að hann hafi uppfyllt þau skilyrði með vísan til þess sem að framan greinir og innan þeirra tímamarka sem leiða má af lögum. Var þeirri skráningu skilað til Skattsins með þeim hætti sem að framan greinir án þess að við það væru gerðar athugasemdir af hans hálfu.