„Það kom skýrt fram á fundinum að öryggi Evrópu er samofið öryggi Úkraínu og því hvernig þeim reiðir af í baráttunni við innrásarher Rússlands. Það þarf að skoða stuðninginn við varnarbaráttu þeirra í þessu ljósi og horfa til þess hvaða fordæmi við setjum til framtíðar,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sem sótti fund leiðtoga Sameiginlegu viðbragssveitarinnar (JEF) í vikunni.
Á fundinum var rætt um þróun öryggismála í Evrópu, aukið samstarf JEF-ríkjanna og varnarstuðning við Úkraínu.
Volodímir Selenskí forseti Úkraínu ávarpaði fundargesti í gegnum fjarfundabúnað þar sem stríðið í Úkraínu var til umræðu og hvernig hægt væri með skilvirkum hætti að tryggja innleiðingu og eftirlit á þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi.
Leiðtogarnir voru sammála um að halda áfram að efla varnir, viðbragðsgetu og samstarf ríkjanna á sviði varnarmála.
Sjá nánar tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins hér.