Hagsældin er ekki sjálfgefin
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Um miðjan átt­unda ára­tug­inn kynnti ung­ur verk­fræðing­ur, sem þá var starfsmaður mynda­véla­fram­leiðand­ans Kodak, nýja upp­finn­ingu fyr­ir yf­ir­mönn­um sín­um. Upp­finn­ing­in fólst í mynda­vél þar sem hægt var að taka mynd­ir sem síðan mátti skoða í tölvu – sta­f­ræn mynda­vél. Stjórn­end­ur Kodak gáfu lítið fyr­ir þessa upp­finn­ingu og gengu meira að segja svo langt að biðja þró­un­art­eymi sín um að setja all­ar slík­ar hug­mynd­ir ofan í skúffu.

Í dag, tæp­um 50 árum síðar, vit­um við hvernig saga sta­f­rænu mynda­vél­ar­inn­ar hef­ur þró­ast og enn er verið að skrifa þá sögu. Kodak varð aldrei þátt­tak­andi í því kapp­hlaupi og varð gjaldþrota árið 2012 en var end­ur­reist að hluta ári síðar.

Hrun Kodak á sér marg­ar skýr­ing­ar og enn eru menn að reyna að greina hvernig það kom til. Það er rétt að hafa í huga að Kodak hagnaðist á þess­um tíma um­tals­vert á sölu á film­um. Svo virðist sem stjórn­end­ur fé­lags­ins hafi látið það mikla tekjuflæði villa sér sýn og ekki horft til þess að ein­hvern dag­inn myndi þró­un­in verða með öðrum hætti. Viðskipt­in gengu vel og menn sáu ekki ástæðu til að hrófla við því.

Kodak er svo sem ekki eina risa­fyr­ir­tækið sem hef­ur fallið. Nokia var eitt sinn stærsti farsíma­fram­leiðandi heims, Blockbuster var lang­stærsta víd­eó­leig­an og Comp­aq var einn stærsti tölvu­fram­leiðand­inn, svo nokk­ur séu nefnd. Öll eiga þau það sam­eig­in­legt að hafa tekið rang­ar ákv­arðanir þegar kom að því að tak­ast á við framtíðina.

Það eru þó ekki bara stór­fyr­ir­tæki sem geta fallið á röng­um ákv­arðana­tök­um, held­ur eru líka til dæmi af ríkj­um sem eitt sinn nutu mik­ill­ar hag­sæld­ar en gera það ekki leng­ur. Venesúela er mögu­lega það dæmi sem við horf­um helst til, land sem byggði auðæfi sín á nýt­ingu nátt­úru­auðlinda en varð sósí­al­ism­an­um að bráð með til­heyr­andi öm­ur­leg­heit­um fyr­ir íbúa. Það mætti einnig taka dæmi af Íran, hvar íbú­ar bjuggu áður við frelsi og vel­meg­un en búa nú við kúg­un rík­is­ins.

Hér á Íslandi hef­ur okk­ur auðnast að nýta auðlind­ir okk­ar og leggja þannig grunn­inn að einu mesta vel­meg­un­ar­sam­fé­lagi heims. Það sem skipt­ir þó líka máli er að við höf­um varið rétt­ar­ríkið, virt eign­ar­rétt­inn, stundað alþjóðaviðskipti og verið óhrædd við að taka djarf­ar ákv­arðanir til að tak­ast á við framtíðina.

Ekk­ert af þessu er sjálf­gefið og vel­gengn­in er ekki sjálf­krafa var­an­leg, rétt eins og þau fyr­ir­tæki og þau ríki sem hér hafa verið nefnd hafa fengið að kynn­ast. Það er hægt að glutra þessu niður með röng­um ákvörðunum – og þá sér­stak­lega þegar vel geng­ur. Þetta þarf næsta rík­is­stjórn, hvernig sem hún verður sam­sett, að hafa í huga.

Það þarf Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn líka að gera. Nýta þessi mögu­legu tíma­mót vand­lega og taka rétt­ar ákv­arðanir þegar kem­ur að því að tak­ast á við framtíðina.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. desember 2024.