Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksinns í Reykjavík norður:
Í dag ganga Íslendingar að kjörborðinu og taka ákvörðun um hverjum er best treystandi til að móta framtíð landsins og fara með stjórnartaumana næstu fjögur árin. Enginn skortur hefur verið á flóknum úrlausnarefnum á undanförnum árum og nægir þar að nefna heimsfaraldur og eldana á Reykjanesskaga. Þessum áföllum hafa fylgt áskoranir í efnahagsmálum sem við Sjálfstæðismenn höfum mætt af fullum þunga. Árangur ábyrgrar efnahagsstjórnar sést vel nú þegar verðbólga lækkar hratt og vaxtalækkunarferli er hafið. Stefna Sjálfstæðisflokksins grundvallast einmitt á stöðugleika með skýrri framtíðarsýn fyrir alla sem landið byggja.
Við búum við velsæld og erum rík af auðlindum. Hagsæld okkar í framtíðinni mun byggjast á traustri hagstjórn, tryggum landamærum og skynsamlegri nýtingu auðlinda. Ég fullyrði að enginn flokkur hefur skýrari stefnu í þeim efnum en Sjálfstæðisflokkurinn.
Góð kosning Sjálfstæðisflokksins í dag tryggir landsmönnum framtíð sem reist er á sjálfstæði landsins og þjóðarstolti samhliða tryggum viðskiptasamningum sem veita íslenskum vörum aðgang að mörkuðum um allan heim.
Ég skora á þig kjósandi góður að velja einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi, trygg landamæri, skynsama auðlindanýtingu og öryggisnet fyrir þá sem þurfa á því að halda. Það gerir þú með því að setja x við D í dag.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2024.