Guðrún Hafsteinsdóttir og Vilhjálmur Árnason:
Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að styðja við garðyrkju á Íslandi og tryggja raforkuöryggi fyrir heimili og minni fyrirtæki. Með öflugri stefnu okkar í orkumálum höfum við lagt grunninn að sjálfbærri innlendri framleiðslu og samkeppnishæfu rekstrarumhverfi fyrir garðyrkjubændur.
Raforkuöryggi sem grunnur að stöðugleika
Orkustefna Sjálfstæðisflokksins, sem nær til ársins 2050, leggur ríka áherslu á orkuöryggi og að tryggja að almenningur og minni fyrirtæki njóti forgangs ef til skömmtunar kemur. Með frumvarpi sem lagt var fram á síðasta ári höfum við stígið skref í að binda forgang í lög fyrir heimilin, mikilvæga samfélagsinnviði og minni fyrirtæki. Það er grundvallaratriði til að tryggja orkuöryggi, tryggja stöðugleika í orkukerfinu og koma í veg fyrir óhóflega hækkun á raforkuverði, sem hefur bein áhrif á garðyrkju og aðra matvælaframleiðslu.
Stuðningur við garðyrkjubændur
Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig unnið markvisst að því að tryggja niðurgreiðslu á flutningskostnaði raforku til garðyrkjubænda, þannig að niðurgreiðsluhlutfallið sé 95% samkvæmt samkomulagi við Bændasamtökin. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að viðhalda þessu samkomulagi og tryggja bændum stöðugleika í rekstri. Þetta stuðlar að auknu framboði á innlendum grænmetisvörum sem tryggir bæði hag almennings sem og matvælaöryggi.
Nýsköpun og samkeppni í þágu garðyrkjunnar
Mikilvægt er að styrkja stoðir íslensks efnahagslífs og skapa heilbrigðan samkeppnismarkað. Ein áskorun í starfsumhverfi garðyrkjubænda snýr að markaði fyrir kolsýru en þar eru spennandi tækifæri til framþróunar. Sjálfstæðisflokkurinn vill efla samkeppni á þessum markaði sem getur orðið til þess að lækka kostnað bænda og stuðla að sjálfbærari framleiðslu.
Framtíðin er græn og sjálfbær
Það blasa við áskoranir í garðyrkju vegna breytinga á regluverki, svo sem vegna banns á kvikasilfurslömpum árið 2027. Tæknileg lagabreyting sem hefur umtalsverð áhrif á rekstrarumhverfi garðyrkjubænda. Mikilvægt er að mæta þeirri stöðu sem leiðir af slíkum breytingum sem kallar á fjárfestingar til uppfærslu á lýsingu í gróðurhúsum. Slík tækniþróun, ásamt árangursríkum jarðhitaleitarverkefnum, styrkir innviði garðyrkju og tryggir hagkvæmari rekstur til framtíðar.
Sjálfstæðisflokkurinn er staðfastur í að styðja íslenska garðyrkjubændur. Með sterkum innviðum og skýrri stefnu tryggjum við sjálfbærni, matvælaöryggi og grænni framtíð fyrir Ísland.
Guðrún er dómsmálaráherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Vilhjálmur er ritari Sjálfstæðisflokksins, alþingismaður og skipar 2. sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi.
Greinin birtist á visir.is 28. nóvember 2024.