Sigurður Ágúst Sigurðsson formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður:
Á annað þúsund einstaklingar í hópi eldri borgara á Íslandi búa við slæm kjör og í raun mætti segja að hluti þessi hóps byggi við fátæktarmörk. Það er óboðleg staða í því velferðarsamfélagi sem við búum í. Við eigum að gera betur.
Á laugardag verður gengið til kosninga. Stefna Sjálfstæðisflokksins í málefnum aldraðra er skýr. Við ætlum m.a. að:
Hækka frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna í 350 þúsund krónur á mánuði.
Hækka frítekjumark fjármagnstekna í 500 þúsund krónur og hætta að skattleggja verðbólgu.
Helminga erfðafjárskatt og fjórfalda frítekjumarkið í 20 milljónir.
Efsta þrep skattkerfisins miðist við tvöfaldar meðaltekjur.
Afnema stimpilgjöld vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði.
Gera starfslok sveigjanleg þannig að þau miðist við áhuga og færni en ekki aldur.
Ljóst er að bæta þarf lífskjör þeirra sem aðeins fá greiddan grunnlífeyri frá TR og miðað verði við lægstu laun Starfsgreinasambands Ísland sem eru í dag 425 þúsund krónur. Viðmið TR er hins vegar aðeins 330 þúsund krónur. Þarna munar um 90 þúsund krónum og eykst í 102 þúsund í byrjun næsta árs. Skerðingar TR varðandi tekjur umfram grunnlífeyri eru 45 aurar á móti einni aflaðri krónu. Þetta ber að fella út.
Þetta hafa verið baráttumál FEB (Félags eldri borgara í Reykjavík) en þar gegni ég formennsku samhliða því að sitja á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður.
Höldum áfram. Við verðskuldum öll að búa við öryggi og almennileg lífsgæði, ekki síst þegar við erum komin á efri ár. Styðjum við fólk á elsta aldursskeiði og gerum því mögulegt að hjálpa sér sjálft. Ég bið um ykkar stuðning á laugardag og vona að þið setjið x við D.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2024.