Verðbólga í frjálsu falli
'}}

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra:

Síðustu mánuði hef­ur verðbólga verið í frjálsu falli. Hún var 8% fyr­ir ári, 6,4% í júlí og 5,1% í októ­ber. Í dag birt­ast verðbólgu­töl­ur fyr­ir nóv­em­ber og eru spár sam­hljóða um að verðbólg­an sé enn á niður­leið. Gert er ráð fyr­ir að verðlag lækki milli mánaða og ræt­ist spárn­ar hef­ur verðlag hækkað um inn­an við 1% á hálfu ári. Þetta eru mik­il­væg­ar frétt­ir fyr­ir kaup­mátt lands­manna og þá sem eru með verðtryggð lán.

Óháð ein­staka verðbólgu­mæl­ing­um, sem stund­um eru sveiflu­kennd­ar, bend­ir allt til þess að verðbólg­an sé á niður­leið og verði kom­in ná­lægt verðbólgu­mark­miði snemma á næsta ári. Verðbólgu­vænt­ing­ar gefa slíkt til kynna og þær hafa farið hríðlækk­andi í ár. Árang­ur aðhalds í rík­is­fjár­mál­um og ábyrgra kjara­samn­inga á vinnu­markaði er hér að skila markverðum ár­angri. Verk­efnið síðustu miss­eri hef­ur verið að vinna bug á verðbólg­unni svo svig­rúm mynd­ist til vaxta­lækk­ana og það er að tak­ast. Áætl­un­in er að ganga upp.

Aðhald Seðlabank­ans er líka mjög þétt um þess­ar mund­ir en með minnk­andi verðbólgu skap­ast for­send­ur fyr­ir slök­un þess. Ef við höld­um áfram á réttri leið bend­ir allt til þess að enn stærra vaxta­lækk­un­ar­skref verði stigið þegar pen­inga­stefnu­nefnd hitt­ist næst eft­ir ára­mót. Árið 2025 gæti orðið ár vaxta­lækk­ana. Stund­um er sagt að stjórn­mála­menn eigi að fara var­lega í slík­ar yf­ir­lýs­ing­ar, en horf­urn­ar eru ein­fald­lega skýr­ar og já­kvæðar.

Rang­ar ákv­arðanir geta hins veg­ar hæg­lega stýrt okk­ur af leið. Í Bretlandi eru skatta­hækk­an­ir að hægja á vaxta­lækk­un­um og á evru­svæðinu var­ar evr­ópski seðlabank­inn við nýrri skuldakreppu. Á sama tíma vilja flokk­ar sem bein­lín­is byggja á skatta­hækk­un­um og ESB-aðild kom­ast til valda á Íslandi. Um helg­ina renn­ur upp ög­ur­stund og val­kost­irn­ir gætu vart verið skýr­ari. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur reynslu og stefnu sem skila mun áfram­hald­andi ár­angri fyr­ir okk­ur öll.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2024.