Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra:
Síðustu mánuði hefur verðbólga verið í frjálsu falli. Hún var 8% fyrir ári, 6,4% í júlí og 5,1% í október. Í dag birtast verðbólgutölur fyrir nóvember og eru spár samhljóða um að verðbólgan sé enn á niðurleið. Gert er ráð fyrir að verðlag lækki milli mánaða og rætist spárnar hefur verðlag hækkað um innan við 1% á hálfu ári. Þetta eru mikilvægar fréttir fyrir kaupmátt landsmanna og þá sem eru með verðtryggð lán.
Óháð einstaka verðbólgumælingum, sem stundum eru sveiflukenndar, bendir allt til þess að verðbólgan sé á niðurleið og verði komin nálægt verðbólgumarkmiði snemma á næsta ári. Verðbólguvæntingar gefa slíkt til kynna og þær hafa farið hríðlækkandi í ár. Árangur aðhalds í ríkisfjármálum og ábyrgra kjarasamninga á vinnumarkaði er hér að skila markverðum árangri. Verkefnið síðustu misseri hefur verið að vinna bug á verðbólgunni svo svigrúm myndist til vaxtalækkana og það er að takast. Áætlunin er að ganga upp.
Aðhald Seðlabankans er líka mjög þétt um þessar mundir en með minnkandi verðbólgu skapast forsendur fyrir slökun þess. Ef við höldum áfram á réttri leið bendir allt til þess að enn stærra vaxtalækkunarskref verði stigið þegar peningastefnunefnd hittist næst eftir áramót. Árið 2025 gæti orðið ár vaxtalækkana. Stundum er sagt að stjórnmálamenn eigi að fara varlega í slíkar yfirlýsingar, en horfurnar eru einfaldlega skýrar og jákvæðar.
Rangar ákvarðanir geta hins vegar hæglega stýrt okkur af leið. Í Bretlandi eru skattahækkanir að hægja á vaxtalækkunum og á evrusvæðinu varar evrópski seðlabankinn við nýrri skuldakreppu. Á sama tíma vilja flokkar sem beinlínis byggja á skattahækkunum og ESB-aðild komast til valda á Íslandi. Um helgina rennur upp ögurstund og valkostirnir gætu vart verið skýrari. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynslu og stefnu sem skila mun áframhaldandi árangri fyrir okkur öll.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2024.