Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra:
Við vitum að Samfylkingin hefur ekki góða sögu að segja þegar kemur að meðferð á fjármunum skattgreiðenda. Rekstur Reykjavíkurborgar hefur verið rjúkandi rúst undir forystu Samfylkingarinnar og fyrirrennara hennar – sem haldið hafa um stjórnartauma borgarsjóðs meira og minna síðustu þrjá áratugina. Það er því ákveðin kaldhæðni fólgin í því að Samfylkingin skuli veifa fingri framan í aðra þegar kemur að umræðum um opinberan rekstur.
Samfylkingin heldur því fram að verðbólgan og vaxtastig séu afrakstur stefnu Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum. Verðbólguþróun á Íslandi hefur þó fylgt þróun annarra landa, líka landa þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið við völd.
Án húsnæðisliðar stendur 12 mánaða verðbólga nú í 2,8% og það er ljóst að húsnæðisliðurinn viðheldur verðbólgunni – sem leiðir til hærra vaxtastigs. Við þeim vanda eru ekki til skyndilausnir, en bæði ríkisvaldið og sveitarfélög bera sína ábyrgð.
Stærsta hagsmunamál ungs fólks
Uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur ekki dugað til að mæta eftirspurn. Ein helsta skýring þess er sú að Reykjavík hefur haldið íbúðamarkaði í gíslingu með takmörkuðu lóðaframboði og einstrengingslegri og kostnaðarsamri þéttingarstefnu. Þá eru forsendur þess svæðisskipulags sem ákvarðar vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins löngu brostnar.
Óskandi væri að forystufólk Samfylkingarinnar, Viðreisnar og hinna stjórnarflokkanna í borginni áttuðu sig á þessari stöðu og stuðlaði að meira framboði húsnæðis – í stað þess að berjast gegn aukinni íbúðauppbyggingu utan þéttingarreita. Slíkt væri til þess fallið að hægja á eða stöðva verðhækkun fasteigna og þar með verka til lækkunar á verðbólgu og vöxtum.
Það liggur fyrir að uppbyggingin í Reykjavík hefur verið langt undir væntingum og langt frá þörfum markaðarins. Ef Reykjavíkurborg hefði byggt jafn ört og nágrannasveitarfélög undanfarinn áratug hefðu byggst upp 6.000 fleiri íbúðir í Reykjavík en raun ber vitni.
Við þurfum að byggja meira og útvíkka vaxtamörk höfuðborgarsvæðisins. Það mun koma hreyfingu á markaðinn og gera íbúðakaup ungs fólks viðráðanleg. Þetta er eitt stærsta hagsmunamál ungs fólks sem hefur hug á því að koma þaki yfir höfuðið og stofna fjölskyldu. Með því að ýta undir séreignastefnuna viljum við styðja við ungt fólk, og það gerum við með því að byggja meira og hraðar en gert hefur verið á undanförnum árum.
Ekki þörf á hækkun skatta
Hver er efnahagsvandinn utan skorts á íbúðarhúsnæði? Það þarf að loka fjárlagahallanum, en vandinn liggur ekki á tekjuhliðinni. Tekjur hins opinbera eru nú þegar 43,5% af landsframleiðslu. Samkvæmt útspilum Samfylkingarinnar ætti það að vera 1,75% hærra. Þeir skattar sem íbúar landsins reiddu af hendi væru þannig komnir yfir 45% af allri verðmætasköpun í landinu. Það sætir furðu hversu fáir stjórnmálamenn virðast sjá tækifæri til að nýta betur þá 1.900 milljarða sem hið opinbera hefur yfir að ráða. Slíkt metnaðarleysi væri aldrei látið líðast í neinu einkafyrirtæki.
Sjálfstæðisflokkurinn vill gera mun betur með þá fjármuni sem skattgreiðendur reiða þegar af hendi. Frekari skattahækkanir eru hvorki nauðsynlegar né forsvaranlegar.
Samfylkingin segist þó ekki ætla að hækka skatta á venjulegt fólk, vinnandi fólk. Það er þó einmitt venjulegt vinnandi fólk sem Samfylkingin hyggst skattleggja. Einyrkjar, eigendur smáfyrirtækja og eldra fólk sem hefur náð að spara fyrir efri árin eru aðeins nokkur dæmi um „vannýtta tekjustofna“ Samfylkingarinnar. Einyrkjar, sem njóta ekki sömu réttinda og almennt launafólk þegar kemur að veikindum, mótframlagi í lífeyrissjóð eða orlofi. Þetta eru hin „breiðu bök“ að mati Samfylkingarinnar.
Verðmætasköpunin
Tækifærin eru óþrjótandi og efnahagsstefna stjórnvalda skiptir máli. Hlutverk stjórnmálamanna er að styðja við þá sem leggja allt í sölurnar til að hefja áhættusaman, krefjandi og atvinnuskapandi rekstur, ekki leggja stein í götu þeirra með aukinni skattheimtu. Samfylkingin segist ætla að stuðla að aukinni verðmætasköpun. Það verður varla gert með aukinni skattheimtu á einyrkja, fjármagn til fjárfestinga eða álögum á mikilvægustu útflutningsgreinar landsins.
Í þessari nálgun kristallast grundvallarmunur Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisstefnan er byggð á trú á einstaklingnum og því loforði að hann fái að uppskera á sínum forsendum. Hún kjarnast í því að þeir sem þora að virkja krafta sína í þágu verðmætasköpunar fái að gera það óáreittir. Ríkið á ekki að miðstýra verðmætasköpun í landinu því hún byggist á krafti sem aðeins frjálst framtak getur beislað. Þannig uppsker heildin alltaf að lokum.
Plan Sjálfstæðisflokksins er skýrt, hefur staðið fyrir sínu í næstum heila öld og er grunnurinn að efnahagslegri hagsæld þjóðarinnar og heitir sjálfstæðisstefnan. Stefnan er andhverfa plans Samfylkingarinnar. Í stað þess að hækka skatta og auka ríkisútgjöld ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að lækka skatta og draga úr ríkisumsvifum. Fyrir venjulegt vinnandi fólk.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. nóvember 2024.