Venjulegt vinnandi fólk
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra:

Við vit­um að Sam­fylk­ing­in hef­ur ekki góða sögu að segja þegar kem­ur að meðferð á fjár­mun­um skatt­greiðenda. Rekst­ur Reykja­vík­ur­borg­ar hef­ur verið rjúk­andi rúst und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og fyr­ir­renn­ara henn­ar – sem haldið hafa um stjórn­artauma borg­ar­sjóðs meira og minna síðustu þrjá ára­tug­ina. Það er því ákveðin kald­hæðni fólg­in í því að Sam­fylk­ing­in skuli veifa fingri fram­an í aðra þegar kem­ur að umræðum um op­in­ber­an rekst­ur.

Sam­fylk­ing­in held­ur því fram að verðbólg­an og vaxta­stig séu afrakst­ur stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins í efna­hags­mál­um. Verðbólguþróun á Íslandi hef­ur þó fylgt þróun annarra landa, líka landa þar sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur ekki verið við völd.

Án hús­næðisliðar stend­ur 12 mánaða verðbólga nú í 2,8% og það er ljóst að hús­næðisliður­inn viðheld­ur verðbólg­unni – sem leiðir til hærra vaxta­stigs. Við þeim vanda eru ekki til skyndi­lausn­ir, en bæði rík­is­valdið og sveit­ar­fé­lög bera sína ábyrgð.

Stærsta hags­muna­mál ungs fólks

Upp­bygg­ing íbúðar­hús­næðis hef­ur ekki dugað til að mæta eft­ir­spurn. Ein helsta skýr­ing þess er sú að Reykja­vík hef­ur haldið íbúðamarkaði í gísl­ingu með tak­mörkuðu lóðafram­boði og ein­streng­ings­legri og kostnaðarsamri þétt­ing­ar­stefnu. Þá eru for­send­ur þess svæðis­skipu­lags sem ákv­arðar vaxt­ar­mörk höfuðborg­ar­svæðis­ins löngu brostn­ar.

Óskandi væri að for­ystu­fólk Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Viðreisn­ar og hinna stjórn­ar­flokk­anna í borg­inni áttuðu sig á þess­ari stöðu og stuðlaði að meira fram­boði hús­næðis – í stað þess að berj­ast gegn auk­inni íbúðaupp­bygg­ingu utan þétt­ing­ar­reita. Slíkt væri til þess fallið að hægja á eða stöðva verðhækk­un fast­eigna og þar með verka til lækk­un­ar á verðbólgu og vöxt­um.

Það ligg­ur fyr­ir að upp­bygg­ing­in í Reykja­vík hef­ur verið langt und­ir vænt­ing­um og langt frá þörf­um markaðar­ins. Ef Reykja­vík­ur­borg hefði byggt jafn ört og ná­granna­sveit­ar­fé­lög und­an­far­inn ára­tug hefðu byggst upp 6.000 fleiri íbúðir í Reykja­vík en raun ber vitni.

Við þurf­um að byggja meira og út­víkka vaxta­mörk höfuðborg­ar­svæðis­ins. Það mun koma hreyf­ingu á markaðinn og gera íbúðakaup ungs fólks viðráðan­leg. Þetta er eitt stærsta hags­muna­mál ungs fólks sem hef­ur hug á því að koma þaki yfir höfuðið og stofna fjöl­skyldu. Með því að ýta und­ir sér­eigna­stefn­una vilj­um við styðja við ungt fólk, og það ger­um við með því að byggja meira og hraðar en gert hef­ur verið á und­an­förn­um árum.

Ekki þörf á hækk­un skatta

Hver er efna­hags­vand­inn utan skorts á íbúðar­hús­næði? Það þarf að loka fjár­laga­hall­an­um, en vand­inn ligg­ur ekki á tekju­hliðinni. Tekj­ur hins op­in­bera eru nú þegar 43,5% af lands­fram­leiðslu. Sam­kvæmt út­spil­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar ætti það að vera 1,75% hærra. Þeir skatt­ar sem íbú­ar lands­ins reiddu af hendi væru þannig komn­ir yfir 45% af allri verðmæta­sköp­un í land­inu. Það sæt­ir furðu hversu fáir stjórn­mála­menn virðast sjá tæki­færi til að nýta bet­ur þá 1.900 millj­arða sem hið op­in­bera hef­ur yfir að ráða. Slíkt metnaðarleysi væri aldrei látið líðast í neinu einka­fyr­ir­tæki.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vill gera mun bet­ur með þá fjár­muni sem skatt­greiðend­ur reiða þegar af hendi. Frek­ari skatta­hækk­an­ir eru hvorki nauðsyn­leg­ar né for­svar­an­leg­ar.

Sam­fylk­ing­in seg­ist þó ekki ætla að hækka skatta á venju­legt fólk, vinn­andi fólk. Það er þó ein­mitt venju­legt vinn­andi fólk sem Sam­fylk­ing­in hyggst skatt­leggja. Ein­yrkj­ar, eig­end­ur smá­fyr­ir­tækja og eldra fólk sem hef­ur náð að spara fyr­ir efri árin eru aðeins nokk­ur dæmi um „vannýtta tekju­stofna“ Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Ein­yrkj­ar, sem njóta ekki sömu rétt­inda og al­mennt launa­fólk þegar kem­ur að veik­ind­um, mót­fram­lagi í líf­eyr­is­sjóð eða or­lofi. Þetta eru hin „breiðu bök“ að mati Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Verðmæta­sköp­un­in

Tæki­fær­in eru óþrjót­andi og efna­hags­stefna stjórn­valda skipt­ir máli. Hlut­verk stjórn­mála­manna er að styðja við þá sem leggja allt í söl­urn­ar til að hefja áhættu­sam­an, krefj­andi og at­vinnu­skap­andi rekst­ur, ekki leggja stein í götu þeirra með auk­inni skatt­heimtu. Sam­fylk­ing­in seg­ist ætla að stuðla að auk­inni verðmæta­sköp­un. Það verður varla gert með auk­inni skatt­heimtu á ein­yrkja, fjár­magn til fjár­fest­inga eða álög­um á mik­il­væg­ustu út­flutn­ings­grein­ar lands­ins.

Í þess­ari nálg­un krist­all­ast grund­vall­armun­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Sjálf­stæðis­stefn­an er byggð á trú á ein­stak­lingn­um og því lof­orði að hann fái að upp­skera á sín­um for­send­um. Hún kjarn­ast í því að þeir sem þora að virkja krafta sína í þágu verðmæta­sköp­un­ar fái að gera það óáreitt­ir. Ríkið á ekki að miðstýra verðmæta­sköp­un í land­inu því hún bygg­ist á krafti sem aðeins frjálst fram­tak get­ur beislað. Þannig upp­sker heild­in alltaf að lok­um.

Plan Sjálf­stæðis­flokks­ins er skýrt, hef­ur staðið fyr­ir sínu í næst­um heila öld og er grunn­ur­inn að efna­hags­legri hag­sæld þjóðar­inn­ar og heit­ir sjálf­stæðis­stefn­an. Stefn­an er and­hverfa plans Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Í stað þess að hækka skatta og auka rík­is­út­gjöld ætl­ar Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn að lækka skatta og draga úr rík­is­um­svif­um. Fyr­ir venju­legt vinn­andi fólk.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. nóvember 2024.