Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra skipar 2. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi:
Umræða um stjórnmál virðist byggjast á þeirri forsendu að það séu nánast engin vandamál sem stjórnmálamenn geti ekki leyst. Alls konar hlutir eru settir í samhengi við aðgerðir stjórnmálamanna sem við nánari skoðun eru ekki svo mikið á þeirra valdsviði.
Þetta er ákveðin hugsanavilla sem gerir lýðræðið flókið. Áhrif stjórnmálamanna á hvað gerist til skamms tíma eru oft frekar lítil. En til langs tíma skiptir samfélagsgerðin gríðarlega miklu máli, og þar skipta áhrif stjórnmálanna miklu. Kosningaloforð snúast um að leysa aðsteðjandi vanda. En það sem markar velgengni samfélaga er miklu dýpra.
Þau sem kosin verða til þingsetu næsta laugardag munu taka við ábyrgð á íslensku samfélagi á örlagatímum. Hraðar og ískyggilegar vendingar á alþjóðavettvangi geta í einni sviphendingu kollvarpað ýmsum af þeim forsendum sem liggja til grundvallar okkar framúrskarandi góða samfélagi. Einnig blasir við að áhrif öldrunar þjóðarinnar vaxa frá ári til árs, þannig að færri vinnandi hendur verða til þess að standa undir verðmætasköpun og þjónustu. Þessu til viðbótar er hin gríðarlega hraða þróun í tækni og gervigreind sem hefur nú þegar gjörbreytt hversdagslífi okkar allra, til bæði góðs og ills, og enginn veit hvert stefnir.
Þetta eru alvarleg viðfangsefni. Kannski alvarlegri en þjóðin hefur staðið frammi fyrir um langt árabil og þau kalla á að alvörugefið fólk sé við stjórnvöl landsmálanna. Það er hins vegar til marks um mikla nærsýni að halda að Ísland sé á einhvern hátt ólíkt öðrum vestrænum ríkjum hvað þetta varðar. Þvert á móti; sömu vandamál blasa við úti um allt í kringum okkur.
Í góðri stöðu fyrir framtíðina
En það er þó sá munur á Íslandi og flestum ríkjum í kringum okkur að við erum um þessar mundir í ákaflega góðri aðstöðu til þess að mæta framtíðinni. Skiptir þar ekki minnstu máli fyrirhyggja í skipulagi lífeyrismála og góð skuldastaða ríkissjóðs.
Málefni eins og þau tvö ofantöldu eru langtímamál, en eðli kosningabaráttu er áhersla á eitthvað sem er nýskeð eða bráðan vanda sem þarf að leysa. Það er skiljanlegt, en það eru yfirleitt ekki kosningamálin sem ráða mestu um langtímaárangur þjóðarinnar heldur mun djúpstæðari eiginleikar. Við getum kallað það menningu, hugarfar, hefðir og venjur.
Það hvernig svona hugarfar, eða menning, verður ráðandi í samfélaginu er langtímamál og skiptir miklu meira máli til lengri tíma heldur en einstaka ákvarðanir eða deilumál í dægurþrasi pólitíkurinnar. Þegar við þurfum að taka ákvarðanir eða setja lög um þetta og hitt ættum við ekki bara að vera að hugsa um áhrifin til skamms tíma heldur hvernig þau geta haft áhrif á menningu þjóðarinnar. Þetta er hugarfar sem er orðið erfiðara að viðhalda í samfélagi þar sem reglusetning, eftirlit og skriffinnska eru allsráðandi. Fólk getur jafnvel orðið smeykt við að bregðast við, sækja fram, láta reyna á nýjar hugmyndir, finna lausnir, prófa sig áfram.
Viljum við samfélag þar sem sjálfsbjargarviðleitni er ríkjandi?
Viljum við samfélag þar sem frumkvæði er verðlaunað?
Viljum við samfélag þar sem fólk þorir að skora ríkjandi viðhorf á hólm?
Ef svör kjósenda við þessum spurningum eru já, já og já – þá er ekki nokkur vafi á því að Sjálfstæðisflokkurinn er rétti valkosturinn.
En þetta eru ekki spurningar sem eru algengar í kosningabaráttu. Þó ráða svörin við þeim einna mestu um hvernig og hvort okkur mun takast að viðhalda þeirri ótrúlegu stöðu sem Ísland hefur, að geta boðið upp á þau framúrskarandi lífskjör sem við höfum náð að gera.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum frá stofnun hans fyrir 95 árum. Óumdeilt er að Íslendingar hafa á þeim tíma mótað eitt glæsilegasta velferðarsamfélag veraldar. Við, sem erum í forystu Sjálfstæðisflokksins, getum ekki leyft okkur að spila með þá arfleifð til þess að skora ódýr stig í loforðakapphlaupi eða popúlisma. Þegar á móti blæs í skoðanakönnunum verður það verkefni okkar að breyta vindáttinni, ekki að haga seglum eftir vindi.
Mikilvægasta kosningaloforðið
Stjórnmálamenn þurfa að vita hvert þeir stefna til lengri tíma. Ef við vitum ekki hvernig við viljum sjá samfélagið þróast á löngum tíma þá eru öll viðbrögð okkar við nýjum vandamálum handahófskennd. Þetta þýðir að það er ekki bara mikilvægt að geta svarað því hvernig eigi að svara aðkallandi viðfangsefnum heldur þurfa landsmenn að geta treyst því að stjórnmálamenn og flokkar hafi burði, þekkingu og reynslu til þess að takast á við óvissu. Og hafi kjark til að taka umdeildar ákvarðanir, jafnvel þótt maður sjái vel að það séu ekki vinsælar ákvarðanir til skamms tíma.
Mikilvægasta kosningaloforðið sem Sjálfstæðisflokkurinn, og ég persónulega, gefur kjósendum snýr því ekki aðeins að tilteknum málaflokkum, heldur einfaldlega því að vinna af yfirvegun og alvöru að stjórn landsmála á grundvelli traustra gilda sem þjónað hafa þjóðinni vel og munu gera áfram.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 24. nóvember 2024.