Bjarni sló tóninn í troðfullum sal í Garðabæ
'}}

Troðfullt var út úr dyrum í húsnæði Fjölbrautaskóla Garðabæjar á kosningahátíð Sjálfstæðisflokksins í gær. Þar sló Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra tóninn fyrir lokametra kosningabaráttunar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðiflokksins og utanríkisráðherra opnaði fundinn - sjá hér. Á sjötta hundrað manns mættu til fundarins og var stemningin einstaklega góð í hópnum auk þess sem nokkur hundruð fylgdust með fundinum í beinu streymi.

„Þessar kosningar eru rosalega stórar og mikilvægar. Við erum eftir tíu daga að fara að fjárfesta í hvernig Ísland við viljum sjá næstu fjögur árin. Það er til mikils að vinna. Valkosturinn að við séum með þrotað Reykjavíkurmódel þar sem að það bíó er fært yfir á landsmálin er eitthvað sem enginn hér vill sjá og vonandi ekki margir þarna úti,“ sagði Þórdís Kolbrún í opnunarávarpi sínu. Sagði hún hugmyndafræðilegar línur í þessum kosningum skýrar.

Sagði hún ljóst að það verði allt annars háttar ríkisstjórn í landinu, vonandi borgaralega sinnuð sem gangi í takt.

Vaxtamálin alvöru stjórnmál

Bjarni ræddi vaxtalækkun Seðlabankans í gær og sagði gærdaginn góðan dag. Vextir haldi áfram að lækka. Nefndi hann að vaxtalækkunin í gær þýddi fyrir heimili með 40 milljón króna óverðtryggt lán um 190 þúsund minni greiðslubyrði á ári. Þegar vextir hafi lækkað um 1,5% í viðbót þýði það 560 þúsund króna minni greiðslubyrði og svo koll af kolli.

„Þegar verkefninu er lokið sem við höfum setti sjónir á getum við gert ráð fyrir því að greiðslubyrðin hafi minnkað um á aðra milljón,“ sagði Bjarni.

Sagði hann þetta alvöru mál, alvöru stjórnmál. Þá sagði hann stjórnmálaumræðuna stundum hverfast um hluti sem á endanum skipti ekki nokkru máli.

„Það er forgangsmál hjá okkar að verðbólga verður að lækka og vextir verða að koma niður. Það er að raungerast og við ætlum að fylgja því eftir af fullum krafti. Það má segja að verðbólgan miðað við þær mælingar sem við sjáum í dag að hún er eiginlega í frjálsu falli. Spár gera ráð fyrir að hún verði komin nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans snemma á næsta ári,“ sagði hann.

Þá nefndi hann að spár Seðlabankans séu um prósenti lægri en hún hafi áður verið. Það séu verulega góð tíðindi og forsmekkur að því sem koma skal.

„Þetta er að takast samhliða litlu atvinnuleysi á Íslandi. Það er allt annað en það sem á við á evrusvæðinu. Þar hefur atvinnuleysi sérstaklega hjá ungu fólki verið mikið vandamál um langan tíma. Evrópski eðlabankinn hefur verið að tala um áhyggjur sínar á skuldakreppunni. Það verður vandamál í Evrópu ef ekki tekst að tökum á  þeim miklu opinberu skuldum sem menn eru að glíma við þar. Það er raunverulega verið að tala um skuldakreppu. Í þessu gamla draumalandi sumra gamalla vina okkar sem nú eru í Viðreisn,“ sagði Bjarni.

Við höfum endurheimt þjóðarframleiðsluna eftir faraldur

Á sama tíma sýni greiningar að efnahagsbatinn á Íslandi hafi verið í algjörum sérflokki.

„Við höfum séð meiri fjárfestingu heldur en við gerðum ráð fyrir, hún hefur tekið verulega við sér. Við höfum séð kaupmátt vaxa á Íslandi 11 ár í röð. Þessu er ekki fyrir að fara í löndunum í kringum okkur og inn á evrusvæðinu. Við erum búin að endurheimta þjóðarframleiðsluna eins og við spáðum henni inn í framtíðina áður en Covid skall á. Það mikla áfall hefur ekki stoppað okkur vegna þess að við fengum viðspyrnu. Menn eru enn að reyna að endurheimta þjóðarframleiðsluna í löndunum í kringum okkur,“ sagði Bjarni.

Sagði hann að þrátt fyrir að augljóst væri hvernig við hefðum náð okkur miklu betur á strik og vaxið sem hagkerfi miklu hraðar en ESB og Bandaríkin undanfarin tíu ár værum við aftur farin að heyra í Evrópulestinni.

„Það er aftur farið að láta skína í að það geti verið góð hugmynd að dusta rykið af Evrópustefnunni og stefna á viðræður við Evrópusambandið. Hvað ætli sú stefna eigi að heita: „Kíkjum í pakkann aftur“. Það er búið að skoða þetta ár. Það hefur engin EFTA þjóð verið jafn lengi í viðræðum við Evrópusambandið eins og Ísland reyndi að vera. Allar aðrar þjóðir voru búnar að klára það mál. Það er tómt mál að tala um einhverjar atkvæðagreiðslur ef það er ekki skýr meirihluti á þinginu fyrir inngöngu í Evrópusambandið,“ sagði hann.

Sagði hann að þeir sem ekki ætli að eyða tímanum í það þurfi að fá sterka ksoningu, fjölda þingmanna og skýra rödd í þinginu.

„Við vitum alveg hvað ESB-pakkinn hefur að geyma. Það þarf ekki að kíkja í hann aftur. Þar eru lægri laun, meira atvinnuleysi, minni nýsköpun, færri tækifæri og við skulum ekki leyfa þeim að draga upp einhverja nýja mynd af þessu eins og það sé eitthvað sem við vitum ekki hvað hefur að geyma. Einhvers konar Evrópusambandið.ai útfærslu sem hvergi er til,“ sagði Bjarni.

Lægri sköttum fylgja meiri umsvif

Bjarni ræddi fjölmargt annað í sinni ræðu s.s. útvíkkun og framlengingu séreignarúrræðisins sem hafi hjálpað tugum þúsunda íslenskra fjölskyldna að eignast eigið heimili. Afnám stimpilgjalda sem væri úreltur skattur og þröskuldur inn á húsnæðismarkað.

Sagði hann sjálfstæðismenn ætla að halda áfram að létta álögur upp eftir æviskeiðinu, hækka frítekjumark ellilífeyris vegna atvinnutekna, gera starfslok sveigjanlegri, koma almennilegri hreyfingu á uppbyggingu hjúkrunarheimila í samstarfi við þá sem kunna best. Þá nefndi hann að lækka erfðafjárskatt um helming og fjórföldun frítekjumarka í 20 milljónir.

„Þegar þessi mál eru rædd spyrja sig sumir; hvernig er hægt að bæta áfram afkomu ríkisins og lækka skatta? Svarið blasir við, þó vinstrimenn skilji það aldrei og muni aldrei skilja; Lægri sköttum fylgja meiri umsvif, fleiri tækifæri, fjölbreyttari atvinnustarfsemi og þar með meiri skatttekjur,“ sagði hann.

Þá nefndi Bjarni mikilvægi þess að treysta landamærin enn frekar og sagði það ekki síst ástæðuna fyrir því að hann hafi slitið stjórnarsamstarfi.

Ræðuna í heild sinni má finna á upptökunni hér fyrir neðan:

Opnunarræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra má sjá hér að neðan: