Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs:
Stjórnmálamenn stíga margir hverjir fram þessa dagana með háleitar hugmyndir um aukin útgjöld til alls kyns verkefna, útgjöld sem á að fjármagna úr vösum skattgreiðenda með einum eða öðrum hætti. Við skulum muna að það er pólitísk ákvörðun að ætla heimilum og fyrirtækjum að greiða hærri skatta.
Húsnæðismál hafa verið fyrirferðarmikil í umræðu undanfarnar vikur. Það kemur ekki á óvart enda eitt stærsta hagsmunamál heimila að til sé húsnæði sem mætir þeirra þörfum. Sá framboðsskortur sem ríkt hefur á höfuðborgarsvæðinu svo árum skiptir kemur fram í hækkandi húsnæðisverði, aukinni verðbólgu og hærri vöxtum – allt á kostnað heimilanna.
Það gleymist stundum í umræðunni að hækkandi húsnæðisverð felur alla jafna í sér hærri fasteignagjöld. Með einföldum hætti má segja að mörg sveitarfélög hafi í gegnum hækkandi húsnæðisverð fengið nokkuð frítt spil í skattahækkunum á liðnum árum. Fasteignagjöld hafa hækkað samhliða hækkandi fasteignaverði og fært mörgum sveitarfélögum umtalsverðar tekjur. Það á þó ekki við í Kópavogi, því við teljum þá leið ekki sanngjarna gagnvart bæjarbúum enda hefur sú þjónusta sem fasteignagjöldin standa undir ekkert með fasteignaverð að gera.
Við, sem skipum meirihluta í Kópavogi, höfum lækkað fasteignaskatta á hverju ári sem og önnur fasteignagjöld. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir að fasteignaskattar lækki áfram. Þessar skattalækkanir koma til móts við hækkandi fasteignaverð sem ella hefði skilað bæjarsjóði enn hærri skattheimtu, en situr nú eftir hjá íbúum og fyrirtækjum. Fasteignaskattar í Kópavogi eru í dag meðal þeirra lægstu á landsvísu og fasteignagjöld hafa ekki hækkað að raunvirði undanfarin ár. Við samanburð á fasteignagjöldum og fasteignamati sem Byggðastofnun birti fyrir árið 2024 sést glöggt að fasteignagjöld í Kópavogi eru þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu.1
Skýrar áherslur
Íbúar gera kröfur til pólitískra fulltrúa um að fara vel með skattfé þeirra, forgangsraða verkefnum í þágu grunnþjónustu og ráðast í breytingar til að stuðla að enn betri þjónustu. Með slíkt í huga höfum við ráðist í markvissar hagræðingaraðgerðir undanfarin ár þvert á svið bæjarins, samhliða því sem við höfum lækkað kostnað í pólitískum nefndum og ráðum með því að fækka fundum. Slíkar aðgerðir hafa skilað umtalsverðum sparnaði. Á næsta ári ætlar Kópavogsbær að stíga markviss skref í innleiðingu á gervigreind með það að markmiði að auka þjónustu við bæjarbúa, skilvirkni í stjórnsýslunni og bæta ákvarðanatöku. Þar liggja mikil tækifæri til sóknar, en rannsóknir sýna að 30% af vinnutíma opinberra starfsmanna má sjálfvirknivæða með tilkomu gervigreindar. Til að setja hlutina í samhengi jafngildir 30% sparnaður í vinnustundum 10 milljörðum króna fyrir Kópavogsbæ. Við þurfum stöðugt að leita leiða til að fara betur með fjármuni skattgreiðenda.
Líkt og síðustu ár endurspeglast þessar áherslur í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar þar sem hagsmunir bæjarbúa eru í forgangi, skattar lækkaðir og þjónustan efld.
1https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/samanburdur-fasteignagjalda-heimila-arid-2024
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2024.