Stórsókn í menntamálum
'}}

Birna Bragadóttir frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­mál­anna á næstu miss­er­um verður að ráðast í stór­felld­ar um­bæt­ur á mennta­kerf­inu, ekki síst á grunn­skól­un­um. Það hlýt­ur að valda okk­ur öll­um mikl­um áhyggj­um hvað náms­ár­ang­ur grunn­skóla­barna hef­ur versnað mikið á skömm­um tíma.

Þrátt fyr­ir að Íslend­ing­ar verji hlut­falls­lega meiri fjár­mun­um til grunn­skól­ans en flest­ar aðrar þjóðir erum við samt eft­ir­bát­ar þeirra flestra þegar kem­ur að náms­ár­angri.

Við get­um ekki sætt okk­ur við að ein­ung­is helm­ing­ur drengja og þriðjung­ur stúlkna sem út­skrif­ast úr grunn­skóla, eft­ir tíu ára skyldu­nám, hafi ekki náð grunn­færni í lesskiln­ingi.

Slíkt er ekki ásætt­an­legt fyr­ir skatt­greiðend­ur, sem fjár­magna skól­ana, og held­ur ekki fyr­ir for­eldra sem eiga að geta treyst því að börn­um þeirra sé boðið upp á ásætt­an­lega mennt­un. Verst er þetta ástand þó fyr­ir börn­in sjálf og þeirra framtíð.

Stór­felld­ar um­bæt­ur á mennta­kerf­inu þola enga bið. Það er ekki hægt að bjóða börn­un­um upp á þetta ástand. Þau verða að geta lesið sér til gagns. Það er til lít­ils, svo dæmi sé tekið, að verja millj­örðum króna til ný­sköp­un­ar ef börn­in okk­ar, sem eiga að taka við kefl­inu í framtíðinni, út­skrif­ast illa læs og skrif­andi úr grunn­skóla.

Til­lög­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur nú blásið til stór­sókn­ar í mennta­mál­um í aðdrag­anda kom­andi kosn­inga. Fram­bjóðend­ur flokks­ins kynntu á dög­un­um 21 til­lögu að um­bót­um á mennta­kerf­inu.

Meðal þeirra brýnu aðgerða sem við telj­um nauðsyn­legt að ráðist verði í án taf­ar eru þess­ar:

– Við vilj­um fylgj­ast bet­ur með lestr­arkunn­áttu barna og bæta stöðumat á fram­vindu lestr­ar­kennslu þannig að það veiti nauðsyn­leg­ar upp­lýs­ing­ar um lestr­ar­hæfni hvers barns á hverj­um tíma. Með því verður hægt að hjálpa þeim börn­um sem eiga í lestr­ar­vanda og draga úr brott­falli þeirra úr skóla.

– Við vilj­um að skrifuð verði ný aðal­nám­skrá þar sem þekk­ing­ar­viðmið og beit­ing þeirra eru skýr. Nám­skrá­in þarf að vera aðgengi­leg­ur leiðar­vís­ir fyr­ir skóla­stjórn­end­ur og kenn­ara, en líka auðskil­in fyr­ir nem­end­ur og for­eldra þeirra. Það er hún ekki í dag.

– Við vilj­um taka upp ein­kunna­kerfi eða náms­mat sem kenn­ar­ar, for­eldr­ar og nem­end­ur skilja. Skilj­an­legt ein­kunna­kerfi er for­senda þess að for­eldr­ar og kenn­ar­ar geti áttað sig á náms­ár­angri barn­anna og veitt þeim stuðning ef til­efni er til. Nú­ver­andi náms­mat, sem bygg­ist á lita- eða bók­stafa­kerf­um, er ekki skilj­an­legt.

– Við vilj­um taka aft­ur upp sam­ræmd próf. Þau varpa ljósi á hvernig nem­end­um hef­ur tek­ist að til­einka sér flesta þætti aðal­nám­skrár. Próf­in eru hvetj­andi, bæði fyr­ir skól­ana og nem­end­ur, og stuðla að jafn­ræði og gagn­sæi.

– Til þess að börn­in geti ein­beitt sér að nám­inu þurfa þau að losna und­an áreiti snjallsíma. Snjallsím­ar draga úr fé­lags­færni og ýta und­ir ein­mana­leika, dep­urð og kvíða. Áreiti frá sím­um ger­ir kenn­ur­um erfiðara fyr­ir að sinna störf­um sín­um. Þess vegna vilj­um við að grunn­skól­inn sé síma­laus.

– Við vilj­um stór­bæta og þróa ný og betri náms­gögn. Betri náms­gögn leiða til betri ár­ang­urs og auðvelda kenn­ur­um að ein­beita sér að kennslu.

– Við vilj­um auka val­frelsi barna og for­eldra í mennta­kerf­inu og nýta kosti einkafram­taks­ins sam­hliða op­in­ber­um rekstri. Slíkt val­frelsi er ekki síður já­kvætt fyr­ir kenn­ara, enda fjölg­ar það starfs­mögu­leik­um þeirra og veit­ir skóla­stjórn­end­um tæki­færi til að umb­una kenn­ur­um í sam­ræmi við ár­ang­ur þeirra í starfi.

– Við vilj­um end­ur­skil­greina hug­mynd­ina um skóla án aðgrein­ing­ar og með því tryggja að all­ir þeir nem­end­ur sem þurfa auk­inn stuðning í skól­an­um fái hann.

Aðgerðir án taf­ar

Þess­ar um­bóta­til­lög­ur eru aðeins hluti þeirra sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn legg­ur fram í mennta­mál­um fyr­ir þess­ar kosn­ing­ar.

Nauðsyn­legt er að þeim verði komið til fram­kvæmda án taf­ar til þess að mennta­kerfið okk­ar skili ásætt­an­leg­um ár­angri og veiti börn­un­um okk­ar þá grunn­mennt­un sem þau eiga skilið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2024.