Birna Bragadóttir frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á næstu misserum verður að ráðast í stórfelldar umbætur á menntakerfinu, ekki síst á grunnskólunum. Það hlýtur að valda okkur öllum miklum áhyggjum hvað námsárangur grunnskólabarna hefur versnað mikið á skömmum tíma.
Þrátt fyrir að Íslendingar verji hlutfallslega meiri fjármunum til grunnskólans en flestar aðrar þjóðir erum við samt eftirbátar þeirra flestra þegar kemur að námsárangri.
Við getum ekki sætt okkur við að einungis helmingur drengja og þriðjungur stúlkna sem útskrifast úr grunnskóla, eftir tíu ára skyldunám, hafi ekki náð grunnfærni í lesskilningi.
Slíkt er ekki ásættanlegt fyrir skattgreiðendur, sem fjármagna skólana, og heldur ekki fyrir foreldra sem eiga að geta treyst því að börnum þeirra sé boðið upp á ásættanlega menntun. Verst er þetta ástand þó fyrir börnin sjálf og þeirra framtíð.
Stórfelldar umbætur á menntakerfinu þola enga bið. Það er ekki hægt að bjóða börnunum upp á þetta ástand. Þau verða að geta lesið sér til gagns. Það er til lítils, svo dæmi sé tekið, að verja milljörðum króna til nýsköpunar ef börnin okkar, sem eiga að taka við keflinu í framtíðinni, útskrifast illa læs og skrifandi úr grunnskóla.
Tillögur Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú blásið til stórsóknar í menntamálum í aðdraganda komandi kosninga. Frambjóðendur flokksins kynntu á dögunum 21 tillögu að umbótum á menntakerfinu.
Meðal þeirra brýnu aðgerða sem við teljum nauðsynlegt að ráðist verði í án tafar eru þessar:
– Við viljum fylgjast betur með lestrarkunnáttu barna og bæta stöðumat á framvindu lestrarkennslu þannig að það veiti nauðsynlegar upplýsingar um lestrarhæfni hvers barns á hverjum tíma. Með því verður hægt að hjálpa þeim börnum sem eiga í lestrarvanda og draga úr brottfalli þeirra úr skóla.
– Við viljum að skrifuð verði ný aðalnámskrá þar sem þekkingarviðmið og beiting þeirra eru skýr. Námskráin þarf að vera aðgengilegur leiðarvísir fyrir skólastjórnendur og kennara, en líka auðskilin fyrir nemendur og foreldra þeirra. Það er hún ekki í dag.
– Við viljum taka upp einkunnakerfi eða námsmat sem kennarar, foreldrar og nemendur skilja. Skiljanlegt einkunnakerfi er forsenda þess að foreldrar og kennarar geti áttað sig á námsárangri barnanna og veitt þeim stuðning ef tilefni er til. Núverandi námsmat, sem byggist á lita- eða bókstafakerfum, er ekki skiljanlegt.
– Við viljum taka aftur upp samræmd próf. Þau varpa ljósi á hvernig nemendum hefur tekist að tileinka sér flesta þætti aðalnámskrár. Prófin eru hvetjandi, bæði fyrir skólana og nemendur, og stuðla að jafnræði og gagnsæi.
– Til þess að börnin geti einbeitt sér að náminu þurfa þau að losna undan áreiti snjallsíma. Snjallsímar draga úr félagsfærni og ýta undir einmanaleika, depurð og kvíða. Áreiti frá símum gerir kennurum erfiðara fyrir að sinna störfum sínum. Þess vegna viljum við að grunnskólinn sé símalaus.
– Við viljum stórbæta og þróa ný og betri námsgögn. Betri námsgögn leiða til betri árangurs og auðvelda kennurum að einbeita sér að kennslu.
– Við viljum auka valfrelsi barna og foreldra í menntakerfinu og nýta kosti einkaframtaksins samhliða opinberum rekstri. Slíkt valfrelsi er ekki síður jákvætt fyrir kennara, enda fjölgar það starfsmöguleikum þeirra og veitir skólastjórnendum tækifæri til að umbuna kennurum í samræmi við árangur þeirra í starfi.
– Við viljum endurskilgreina hugmyndina um skóla án aðgreiningar og með því tryggja að allir þeir nemendur sem þurfa aukinn stuðning í skólanum fái hann.
Aðgerðir án tafar
Þessar umbótatillögur eru aðeins hluti þeirra sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram í menntamálum fyrir þessar kosningar.
Nauðsynlegt er að þeim verði komið til framkvæmda án tafar til þess að menntakerfið okkar skili ásættanlegum árangri og veiti börnunum okkar þá grunnmenntun sem þau eiga skilið.