Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins:
Á morgun er eitt ár síðan hátt í fjögur þúsund íbúar Grindavíkur þurftu að pakka saman í snarhasti að kvöldlagi og yfirgefa heimili sín í óvissu um framtíðina. Á ellefta tímanum þann 10. nóvember 2023 upplýsti Veðurstofa Íslands Almannavarnir um að kvikugangur gæti náð alla leið til bæjarins. Flestir landsmenn voru að ganga til náða á heimilum sínum þegar annar veruleiki tók við hjá Grindvíkingum.
Dagana á undan hafði verið unnið að frumvarpi um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi, en það má segja að í lok októbermánaðar hafi orðið kaflaskil í því umbrotatímabili sem hófst í desember 2019. Þá varð kvikusöfnunar vart á Svartsengissvæðinu sem byggði upp þrýsting til að hleypa af stað kvikugangi undir Sundhnúksgígaröð og Grindavík. Afleiðingin var rýming heimila um 1% þjóðarinnar og eldgos, en þau eru nú orðin sex talsins og enn hleðst í það næsta.
Stærsta áskorun á lýðveldistímanum
Við Íslendingar erum ekki ókunn duttlungum náttúrunnar, en fljótt varð ljóst að við stæðum frammi fyrir stærstu áskorunum vegna náttúruhamfara á lýðveldistímanum. Lengd atburðarins, óvissa um framvinduna og endurtekið hættuástand hafa kallað á seiglu hjá öllum sem að málinu koma. Hér hefur styrkleiki okkar Íslendinga reynst vel, að ganga hreint til verks og nýta sveigjanleikann sem felst í smæðinni. Samtakamáttur þjóðarinnar við slíkar aðstæður er líka einstakur eins og við sáum þegar allir lögðust á eitt við að tryggja Grindvíkingum húsnæði og aðstoð af ýmsum toga.
Starf stjórnvalda fólst fyrst um sinn helst í að hlúa að bæjarbúum, finna lausnir á húsnæðisþörf þeirra og tryggja afkomu. Heilt yfir gengu aðgerðirnar vel þó víða hefði eflaust mátt gera ýmislegt betur, og það lærdómsferli stendur enn yfir. Stærsta einstaka aðgerðin fólst í að kaupa stærstan hluta íbúðarhúsnæðis í bænum og gera íbúum þannig kleift að koma sér upp heimili annars staðar. Sömuleiðis má nefna greiðslu launa, niðurfellingu vaxta og verðbóta af húsnæðislánum og sértækan húsnæðisstuðning. Fyrir vikið hafa tekjur Grindvíkinga almennt haldist stöðugar og atvinnuleysi ekki aukist svo nokkru nemi.
Ætla má að aðgerðir stjórnvalda á svæðinu hafi kostað fast að 100 milljörðum króna. Það er ekki tapað fé, heldur ákvörðun grundvölluð á þeirri staðföstu trú að blómlegt samfélag geti þrifist í Grindavík á ný þegar yfir lýkur. Bærinn hefur ekki aðeins verið heimili um 1% landsmanna, heldur sömuleiðis miðstöð fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Atvinnulífið hefur sýnt mikinn styrk á þessum tíma og á fundum með forsvarsfólki fyrirtækja hef ég skynjað einbeittan vilja til að halda áfram þegar þar að kemur.
Lærum af reynslunni
Tímabundin úrræði til að létta undir með rekstraraðilum hafa verið fjölbreytt, en eftir standa stuðningslán og afurðatryggingar til að hjálpa fyrirtækjum að aðlagast breyttum aðstæðum. Stjórnvöld hafa einnig tryggt að ýmis félagsleg úrræði séu í boði sem og sálrænn stuðningur, auk þess að leggja sérstaka áherslu á að hlúa að börnum og ungmennum. Eftir stendur auðvitað fjöldi áskorana, ekki síst tengt því að takast á við áföll og félagslegar afleiðingar þeirra. Það er langtímaverkefni sem verður seint vanmetið.
Í krafti samstöðunnar með Grindvíkingum hefur nokkur einhugur ríkt um aðgerðir í þeirra þágu á Alþingi, sem hefur greitt mjög fyrir vinnunni. Þetta er ágætlega rakið í nýrri skýrslu um helstu verkefni og mat á framtíðarhorfum á Reykjanesi, sem gefin var út opinberlega í gær. Við þurfum áfram á þeirri samstöðu að halda þegar við blasir að jarðhræringar geta ógnað frekari byggð og innviðum á svæðinu.
Við erum reynslunni ríkari eftir síðastliðið ár og verkefnið nú er að styrkja enn betur áfallaþol og viðbragðsgetu á svæðinu öllu. Markmiðið er alltaf það sama, að tryggja öryggi fólks, orkuinnviði og samgöngur. Að búa dýrmætt íbúa- og atvinnusvæði á Suðurnesjum enn betur undir þær áskoranir sem framtíðin kann að bera í skauti sér.