Óli Björn Kárason alþingismaður:
Það er greinilegt að stjórnmálaflokkarnir eru farnir að huga að kosningum, sem verða í síðasta lagi haustið 2025. Þingveturinn sem er nýhafinn mun bera þessa þegar merki. Enginn sem fylgist sæmilega með íslenskum stjórnmálum þarf á flóknum útskýringum stjórnmálafræðiprófessora eða skoðunum álitsgjafa að halda til að átta sig á því að þeir flokkar sem standa að ríkisstjórninni spanna hið pólitíska litróf. Allir hafa þeir, hver með sínum hætti, þurft að gera málamiðlanir sem hafa reynt á þanþol stjórnarþingmanna og ráðherra. Og eftir því sem nær dregur kosningum verður langlundargeðið minna gagnvart andstæðum sjónarmiðum.
Stjórnarandstaðan hefur verið að brýna kutana. Þar er ekkert nýtt. Gömul handrit hafa verið uppfærð og innihaldslaus slagorð sett í nýjan búning. Vinstriflokkarnir eru í kapphlaupi hver við annan í skatta- og útgjaldamálum. Draumurinn um nýja vinstristjórn lifir. Reykjavíkurmódelið undir stjórn Samfylkingarinnar er framtíðarsýnin. Varadekkin bíða á hliðarlínunni, reiðubúin til að hlýða kallinu af sömu ákefð og í borgarstjórn.
Aðeins sterkur og öflugur Sjálfstæðisflokkur getur komið í veg fyrir nýja vinstristjórn. Hindrað að leikurinn frá 2009 til 2013 endurtaki sig. Tryggt að forskriftin frá meirihluta borgarstjórnar – auknar álögur og verri þjónusta – verði ekki yfirfærð á samfélagið allt. Flokkur sem ýmist kennir sig við miðju stjórnmálanna eða gerir tilkall til þess að vera hægriflokkur verður léttvæg fyrirstaða gagnvart vinstristjórn. Flokkur sem gerir eigin stefnumál að aukaatriði en aðalatriðið að hnýta í Sjálfstæðisflokkinn verður veikburða fyrirstaða gagnvart hugmyndum vinstrimanna.
Of mikil sáttfýsi
Ég hef í ræðu og riti haldið því óhikað fram að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna hafi skilað góðum árangri í mörgu. Skattar hafa í heild lækkað og lífskjör batnað, þrátt fyrir áföll; kórónuveirufaraldurinn, stríð í Evrópu og eldsumbrot á Reykjanesi. Tekist hefur að sigla í gegn um efnahagslega ágjöf og skakkaföll og árangur er að nást í baráttu við verðbólgu.
En engin ríkisstjórn er hafin yfir gagnrýni. Ráðdeild í ríkisrekstri hefur ekki verið nægjanlega mikil og útgjöld hafa vaxið um of. Stofnanir eru enn of margar þrátt fyrir að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi náð markverðum árangri við sameiningar. Eftirlitskerfið er of íþyngjandi og kostnaðurinn óviðunandi. Ekki hefur tekist að draga ríkið út úr samkeppnisrekstri (t.d. á fjölmiðlamarkaði) og árangur við útvistun verkefna og hagræðingu hefði getað verið meiri.
Við sem skipum þingflokk Sjálfstæðisflokksins finnum vel að kjósendur gera meiri kröfur til Sjálfstæðisflokksins en annarra flokka. Við höfum ekki náð að sannfæra þá um að þrátt fyrir málamiðlanir hafi mörg mikilvæg baráttumál þokast áfram. Og ég er sammála félögum mínum sem harðast gagnrýna samstarfið í ríkisstjórninni að málamiðlanir sem gerðar hafa verið hafa ekki alltaf endurspeglað þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn er fjölmennasti þingflokkurinn á Alþingi og í ríkisstjórn. Á mælikvarða þingstyrks er sanngjarnt að halda því fram að sáttfýsi okkar í ríkisstjórn hafi verið meiri en efni standa til.
Þegar ríkisstjórnarflokkarnir þrír tóku fyrst höndum saman árið 2017 benti ég á að forsenda þess að samstarf ólíkra stjórnarmálaflokka yrði árangursríkt væri að trúnaður og traust væri á milli ráðherra og stjórnarþingmanna. En um leið skilningur á ólíkum skoðunum og umburðarlyndi fyrir því að stjórnarþingmenn héldu á lofti hugmyndafræði sem þeir berðust fyrir.
Ofstjórnar- og forræðistillögur
Það hefur aldrei truflað mig þegar þingmenn VG leggja fram hverja ofstjórnar- og forræðistillöguna á fætur annarri. Mér finnst gott að fá reglulega staðfestingu á því hversu litla samleið við hægrimenn eigum með vinstrimönnum. Þingsályktun um að banna „auglýsingar á jarðefnaeldsneyti“ og „vöru og þjónustu sem nýtir þessa orkugjafa í miklum mæli, t.d. bílum, flugferðum og ferðum með skemmtiferðaskipum“ opinberar hugmyndafræði sem byggist á því að stjórna daglegu lífi fólks. Á sama tíma er staðið í vegi fyrir aukinni grænni orkuöflun, með öllum tiltækum ráðum. Atvinnulíf og lífskjör eru aldrei ofarlega á blaði. Millifærslur og hærri skattar eru sameiginlegt áhugamál allra vinstrimanna í öllum flokkum.
Réttur þingmanna VG til að leggja fram þingsályktanir og frumvörp á grunni forræðishyggju og aukinna ríkisafskipta er óskoraður. En ráðherra hefur engan rétt til að ganga gegn stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum eins og matvælaráðherra gerði síðasta sumar þegar hvalveiðar voru stöðvaðar. Ráðherrann, sem tekur við sem formaður VG um komandi helgi, kastaði með því blautri tusku í andlit allra þingmanna samstarfsflokka ríkisstjórnarinnar.
Í byrjun júlí á síðasta ári skrifaði ég hér vegna þessa:
„Framganga matvælaráðherra er vatn á myllu þeirra sem efast hafa um réttmæti þess að halda áfram samstarfi við flokk sem er lengst til vinstri. Flokk sem fagnar þegar ekki er hægt að nýta sjálfbærar orkuauðlindir, flokk sem ekki er tilbúinn til að horfast í augu við vanda vegna flóttamanna, flokk sem telur betra að auka álögur á fyrirtæki og launafólk en að nýta sameiginlega fjármuni betur, flokk sem er sannfærður um að biðraðir séu betri en að nýta einkaframtakið í heilbrigðisþjónustu.“
Rétt áður en sest er formlega í stól formanns lýsir ráðherrann því yfir að VG muni standa í vegi fyrir frekari breytingum á útlendingalögum. Andstaða við græna orkuöflun liggur fyrir. Um leið hefur verðandi formaður tekið ákvörðun um stytta kjörtímabilið með því að „boða“ til kosninga næsta vor.
Er nema von að spurt sé hvort ástæða sé til að bíða svo lengi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. október 2024.