Kosningavetur gengur í garð
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Það er greini­legt að stjórn­mála­flokk­arn­ir eru farn­ir að huga að kosn­ing­um, sem verða í síðasta lagi haustið 2025. Þing­vet­ur­inn sem er nýhaf­inn mun bera þessa þegar merki. Eng­inn sem fylg­ist sæmi­lega með ís­lensk­um stjórn­mál­um þarf á flókn­um út­skýr­ing­um stjórn­mála­fræðipró­fess­ora eða skoðunum álits­gjafa að halda til að átta sig á því að þeir flokk­ar sem standa að rík­is­stjórn­inni spanna hið póli­tíska lit­róf. All­ir hafa þeir, hver með sín­um hætti, þurft að gera mála­miðlan­ir sem hafa reynt á þanþol stjórn­arþing­manna og ráðherra. Og eft­ir því sem nær dreg­ur kosn­ing­um verður lang­lund­ar­geðið minna gagn­vart and­stæðum sjón­ar­miðum.

Stjórn­ar­andstaðan hef­ur verið að brýna kut­ana. Þar er ekk­ert nýtt. Göm­ul hand­rit hafa verið upp­færð og inni­halds­laus slag­orð sett í nýj­an bún­ing. Vinstri­flokk­arn­ir eru í kapp­hlaupi hver við ann­an í skatta- og út­gjalda­mál­um. Draum­ur­inn um nýja vinstri­stjórn lif­ir. Reykja­vík­ur­mód­elið und­ir stjórn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar er framtíðar­sýn­in. Vara­dekk­in bíða á hliðarlín­unni, reiðubú­in til að hlýða kall­inu af sömu ákefð og í borg­ar­stjórn.

Aðeins sterk­ur og öfl­ug­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur get­ur komið í veg fyr­ir nýja vinstri­stjórn. Hindrað að leik­ur­inn frá 2009 til 2013 end­ur­taki sig. Tryggt að forskrift­in frá meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar – aukn­ar álög­ur og verri þjón­usta – verði ekki yf­ir­færð á sam­fé­lagið allt. Flokk­ur sem ým­ist kenn­ir sig við miðju stjórn­mál­anna eða ger­ir til­kall til þess að vera hægri­flokk­ur verður létt­væg fyr­ir­staða gagn­vart vinstri­stjórn. Flokk­ur sem ger­ir eig­in stefnu­mál að auka­atriði en aðal­atriðið að hnýta í Sjálf­stæðis­flokk­inn verður veik­b­urða fyr­ir­staða gagn­vart hug­mynd­um vinstrimanna.

Of mik­il sátt­fýsi

Ég hef í ræðu og riti haldið því óhikað fram að rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sókn­ar­flokks og Vinstri-grænna hafi skilað góðum ár­angri í mörgu. Skatt­ar hafa í heild lækkað og lífs­kjör batnað, þrátt fyr­ir áföll; kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn, stríð í Evr­ópu og elds­um­brot á Reykja­nesi. Tek­ist hef­ur að sigla í gegn um efna­hags­lega ágjöf og skakka­föll og ár­ang­ur er að nást í bar­áttu við verðbólgu.

En eng­in rík­is­stjórn er haf­in yfir gagn­rýni. Ráðdeild í rík­is­rekstri hef­ur ekki verið nægj­an­lega mik­il og út­gjöld hafa vaxið um of. Stofn­an­ir eru enn of marg­ar þrátt fyr­ir að ráðherr­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafi náð markverðum ár­angri við sam­ein­ing­ar. Eft­ir­lit­s­kerfið er of íþyngj­andi og kostnaður­inn óviðun­andi. Ekki hef­ur tek­ist að draga ríkið út úr sam­keppn­is­rekstri (t.d. á fjöl­miðlamarkaði) og ár­ang­ur við út­vist­un verk­efna og hagræðingu hefði getað verið meiri.

Við sem skip­um þing­flokk Sjálf­stæðis­flokks­ins finn­um vel að kjós­end­ur gera meiri kröf­ur til Sjálf­stæðis­flokks­ins en annarra flokka. Við höf­um ekki náð að sann­færa þá um að þrátt fyr­ir mála­miðlan­ir hafi mörg mik­il­væg bar­áttu­mál þokast áfram. Og ég er sam­mála fé­lög­um mín­um sem harðast gagn­rýna sam­starfið í rík­is­stjórn­inni að mála­miðlan­ir sem gerðar hafa verið hafa ekki alltaf end­ur­speglað þá staðreynd að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er fjöl­menn­asti þing­flokk­ur­inn á Alþingi og í rík­is­stjórn. Á mæli­kv­arða þingstyrks er sann­gjarnt að halda því fram að sátt­fýsi okk­ar í rík­is­stjórn hafi verið meiri en efni standa til.

Þegar rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir þrír tóku fyrst hönd­um sam­an árið 2017 benti ég á að for­senda þess að sam­starf ólíkra stjórn­ar­mála­flokka yrði ár­ang­urs­ríkt væri að trúnaður og traust væri á milli ráðherra og stjórn­arþing­manna. En um leið skiln­ing­ur á ólík­um skoðunum og umb­urðarlyndi fyr­ir því að stjórn­arþing­menn héldu á lofti hug­mynda­fræði sem þeir berðust fyr­ir.

Of­stjórn­ar- og for­ræðistil­lög­ur

Það hef­ur aldrei truflað mig þegar þing­menn VG leggja fram hverja of­stjórn­ar- og for­ræðistil­lög­una á fæt­ur ann­arri. Mér finnst gott að fá reglu­lega staðfest­ingu á því hversu litla sam­leið við hægri­menn eig­um með vinstri­mönn­um. Þings­álykt­un um að banna „aug­lýs­ing­ar á jarðefna­eldsneyti“ og „vöru og þjón­ustu sem nýt­ir þessa orku­gjafa í mikl­um mæli, t.d. bíl­um, flug­ferðum og ferðum með skemmti­ferðaskip­um“ op­in­ber­ar hug­mynda­fræði sem bygg­ist á því að stjórna dag­legu lífi fólks. Á sama tíma er staðið í vegi fyr­ir auk­inni grænni orku­öfl­un, með öll­um til­tæk­um ráðum. At­vinnu­líf og lífs­kjör eru aldrei of­ar­lega á blaði. Milli­færsl­ur og hærri skatt­ar eru sam­eig­in­legt áhuga­mál allra vinstrimanna í öll­um flokk­um.

Rétt­ur þing­manna VG til að leggja fram þings­álykt­an­ir og frum­vörp á grunni for­ræðis­hyggju og auk­inna rík­is­af­skipta er óskoraður. En ráðherra hef­ur eng­an rétt til að ganga gegn stjórn­ar­skrár­vörðum at­vinnu­rétt­ind­um eins og mat­vælaráðherra gerði síðasta sum­ar þegar hval­veiðar voru stöðvaðar. Ráðherr­ann, sem tek­ur við sem formaður VG um kom­andi helgi, kastaði með því blautri tusku í and­lit allra þing­manna sam­starfs­flokka rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Í byrj­un júlí á síðasta ári skrifaði ég hér vegna þessa:

„Fram­ganga mat­vælaráðherra er vatn á myllu þeirra sem ef­ast hafa um rétt­mæti þess að halda áfram sam­starfi við flokk sem er lengst til vinstri. Flokk sem fagn­ar þegar ekki er hægt að nýta sjálf­bær­ar orku­auðlind­ir, flokk sem ekki er til­bú­inn til að horf­ast í augu við vanda vegna flótta­manna, flokk sem tel­ur betra að auka álög­ur á fyr­ir­tæki og launa­fólk en að nýta sam­eig­in­lega fjár­muni bet­ur, flokk sem er sann­færður um að biðraðir séu betri en að nýta einkafram­takið í heil­brigðisþjón­ustu.“

Rétt áður en sest er form­lega í stól for­manns lýs­ir ráðherr­ann því yfir að VG muni standa í vegi fyr­ir frek­ari breyt­ing­um á út­lend­inga­lög­um. Andstaða við græna orku­öfl­un ligg­ur fyr­ir. Um leið hef­ur verðandi formaður tekið ákvörðun um stytta kjör­tíma­bilið með því að „boða“ til kosn­inga næsta vor.

Er nema von að spurt sé hvort ástæða sé til að bíða svo lengi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. október 2024.