Forsendur sveitarfélaga margbrostnar

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi:

Eitt brýn­asta hags­muna­mál heim­ila í dag er að verðbólga hjaðni og vext­ir lækki. Það tekst ekki nema jafn­vægi ná­ist á hús­næðismarkaði. Öll gögn benda til þess að íbúðaskort­ur á höfuðborg­ar­svæðinu sé enn að aukast, sem eyk­ur á vanda sem er ær­inn fyr­ir. Í dag hef­ur það verið metið að byggja þurfi 5.000 nýj­ar íbúðir á ári en til sam­an­b­urðar hafa ár­lega verið byggðar ríf­lega 1.280 nýj­ar íbúðir á síðustu fimmtán árum. Því miður hafa end­ur­tek­in áform um metnaðarfulla íbúðaupp­bygg­ingu ekki orðið að veru­leika.

Íbúðaskort­ur­inn er að valda fimm­falt meiri raun­hækk­un á verði fast­eigna hér á landi en í ná­granna­lönd­um okk­ar með mikl­um ruðnings­áhrif­um á efna­hag þjóðar­inn­ar, stór­auk­inni verðbólgu og viðvar­andi háum vöxt­um. Ungt barna­fólk með meðal­tekj­ur á margt hvert ekki mögu­leika á að eign­ast þak yfir höfuðið, fólk á miðjum aldri nær jafn­vel ekki að stækka við sig og eldra fólk sit­ur fast í of stór­um eign­um því úrræði sem hent­ar því eru ekki í boði. Þetta eru aðstæður sem eng­inn vill sjá.

Árið 2015 voru hin svo­kölluðu vaxt­ar­mörk höfuðborg­ar­svæðis­ins sett, en þá var póli­tísk samstaða meðal sveit­ar­fé­laga um að heim­ila ein­göngu upp­bygg­ingu inn­an þess­ara marka fram til árs­ins 2040. Á þeim tíma var gert ráð fyr­ir að ár­leg fólks­fjölg­un yrði 1,1% en raun­in er að ár­leg fjölg­un hef­ur verið að meðaltali 1,9%. Á sama tíma var ekki gert ráð fyr­ir breyttri ald­urs­sam­setn­ingu þjóðar en hlut­fall barna­fjöl­skyldna hef­ur farið úr því að vera 39% í 27% frá ár­inu 2015.

Til að mæta vax­andi íbúðaþörf á höfuðborg­ar­svæðinu þarf Kópa­vog­ur að byggja 15 þúsund íbúðir á næstu 15 árum. Inn­an nú­ver­andi vaxt­ar­marka get­ur Kópa­vog­ur ein­ung­is byggt 5.000 íbúðir fram til árs­ins 2040. Þetta er sorg­leg staðreynd, einkum þegar horft er til þess að Kópa­vog­ur hef­ur bæði innviði og burði til að vaxa sem sveit­ar­fé­lag byggt á sterk­um tekju­grunni sveit­ar­fé­lags­ins.

Á þess­um for­send­um hef ég bent á að ef jafn­vægi á að nást á hús­næðismarkaði þarf að end­ur­skoða vaxt­ar­mörk höfuðborg­ar­svæðis­ins þannig að unnt sé að byggja á stærra svæði hraðar og hag­kvæm­ar. Öll sveit­ar­fé­lög þurfa hins veg­ar að samþykkja slíka end­ur­skoðun, en Reykja­vík hef­ur staðið fast við þétt­ing­ar­stefnu sína und­an­far­in ár. Kjós­end­ur gera þó kröf­ur til póli­tískra full­trúa um að koma fram með lausn­ir til að mæta áskor­un­um. Ábyrgð okk­ar sveit­ar­fé­lag­anna er mik­il og við blas­ir að for­send­ur frá 2015 eru marg­brostn­ar. Við hús­næðis­vand­an­um þarf að bregðast og ljóst er að áfram­hald­andi þétt­ing inn­an nú­ver­andi vaxt­ar­marka mun ekki leysa þann vanda, þó að ein­hverj­ir kunni að hafa talið sér trú um slíkt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. september 2024.