Flokksráðsfundur og nýr biskup Íslands

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Liðin helgi var annasöm og viðburðarík. Sjálfstæðisflokkurinn hélt sinn stærsta flokksráðsfund hingað til þar sem 370 trúnaðarmenn flokksins funduðu saman í Reykjavík. Enginn annar flokkur býr yfir viðlíka krafti og mannauði. Á meðan aðrir flokkar rembast við að halda lögleg prófkjör með tilliti til fjölda (jafnvel þótt þau séu aðgengileg á netinu) státar Sjálfstæðisflokkurinn af þúsundum virkra flokksmanna sem vilja halda sjálfstæðisstefnunni á lofti. Vinna að henni og verja og eyða í það miklum tíma og kröftum. Það er skiljanlegt, en ekki sjálfsagt. Sjálfstæðisstefnan er enda undirstaða velsældar og framfara. Það er auðvitað helsta ástæða þess að Sjálfstæðisflokknum hefur verið treyst ítrekað til forystu á Íslandi í bráðum 100 ár. Forystumenn flokksins og við kjörnir fulltrúar þurfum að hlúa að þessu merkilega starfi sem þar á sér stað. Hlusta á fólkið okkar og vera í stöðugu og nánu sambandi við það. Flokksráðsfundur var góð byrjun á haustinu, og skilaboð og hvatning þeirra sem þar töluðu eru góðs viti. Við sjálfstæðismenn hlökkum til verkefna komandi vetrar; hlökkum til að halda áfram að vinna góð verk í þágu íslensks samfélags.

Þessa sömu helgi var séra Guðrún Karls Helgudóttir vígð til biskups Íslands við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju. Athöfnin var mikið sjónarspil og upplifun og var magnað að fylgjast með þátttöku biskupa sem komu víða að. Nýi biskupinn okkar var klædd í bláa biskupskápu, þá fyrstu sem er saumuð á þessari öld og sú fyrsta sem er saumuð sérstaklega á konu. Biskupinn líktist helst fjallkonu þar sem hún sat við vígsluna, umvafin heilagleika og stöku sólargeisla sem kom inn um kirkjugluggana. Fráfarandi biskup, frú Agnes M. Sigurðardóttir, minnti á að starf biskups væri Guðs starf og hvatti frú Guðrúnu til að vera óhrædd. Skilaboð nývígðs biskups um að hún vilji ekki breyta kirkjunni en gera starf hennar sýnilegra eru góð skilaboð til okkar. Í vígsluræðu sinni fór hún yfir að þjóðkirkjan hefði lagt sig fram um að þjóna Guði og fólki en þagað yfir því starfi. Starfið í þjóðkirkjunni væri eitt best geymda leyndarmál á Íslandi. Það eru orð að sönnu.

Einhverjum gæti þótt þessir viðburðir vera óskyldir. Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi tekur það hlutverk alvarlegar en Sjálfstæðisflokkurinn að styðja og vernda þjóðkirkjuna eins og skylt er samkvæmt stjórnarskrá. Sjálfstæðismenn hafa sömuleiðis verið öflugustu talsmenn trúfrelsis, sem er líka frelsi til að iðka trú sína. Kristin trú er auðvitað fyrirferðarmikil í íslensku samfélagi, enda mikill meirihluti landsmanna kristinnar trúar. Aðrir flokkar hafa jafnvel beinlínis beitt sér gegn iðkun kristinnar trúar, eins og við höfum dæmi um í Reykjavíkurborg undir forystu Samfylkingarinnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2024