Þjálfun varnar­við­bragða er dauðans al­vara

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Í breyttri heimsmynd verða skilin milli friðar og ófriðar, hefðbundinna hernaðarátaka, fjölþáttahernaðar og upplýsingastríðs, sífellt óljósari. Rússar ala á tortryggni og sundrung í lýðræðisríkjum. Þeir standa ekki aðeins fyrir svívirðilegri innrás í Úkraínu heldur ógna þeir öðrum ríkjum með tölvuárásum á mikilvæga innviði í Evrópu, siga hópum flóttamanna yfir landamæri ríkja Atlantshafsbandalagsins, hafa ráðið stjórnarandstæðinga af dögum á erlendri grund og valdið upplýsingaóreiðu með dreifingu falsfrétta.

Við Íslendingar þurfum að bregðast við þessum breytta veruleika með því að efla vitund okkar um mikilvægi öryggis- og varnarmála, og standa sómasamlega undir þeim verkefnum sem okkur eru falin í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins.

Í þessari viku hófst varnaræfingin Norður-Víkingur þar sem um tólf hundruð manns, þar af tvö hundruð Íslendingar, æfa varnir Íslands á landi, hafi og í lofti. Æfingin er tvíhliða varnaræfing Bandaríkjanna og Íslands og hefur verið haldin reglulega frá árinu 1982 á grundvelli varnarsamnings ríkjanna. Hún er mikilvægur liður í varnarsamvinnu ríkjanna og með henni sýna bandamenn okkar í verki bæði vilja og getu til að bregðast við ef spennu- eða hættuástand myndast við Ísland.

Megintilgangur æfingarinnar er að æfa varnir sjóleiðanna umhverfis Ísland, fjarskiptakapla og lykilinnviða á landi, svo sem flugvalla, orkuinnviða, hafna og ratsjárstöðva. Af æfingum á landi má nefna sprengjuleit, samhæfingu land- og flughers, viðgerð mikilvægra varnarinnviða og eftirlitsaðgerðir. Á landinu er einnig pólsk hersveit sem hefur meðferðis eldflaugakerfi sem meðal annars geta grandað óvinaskipum á hafi úti. Sveitin er hér til að æfa skilvirkan flutning, uppsetningu og notkun kerfisins með óvirkum skotfærum.

Reglubundnar varnaræfingar eru mikilvægar í sjálfum sér en framferði Rússa undanfarin ár hefur minnt okkur óþyrmilega á þörfina fyrir öflugar varnir og fælingu. Samhæfing og þjálfun varnarviðbragða, líkt og sú sem nú á sér stað hér á landi, er því dauðans alvara.

Eldgosið sem hófst á Reykjanesskaga í síðustu viku minnir okkur einnig á náttúruöflin sem geta valdið tjóni og áföllum. Þegar slíkir viðburðir mæta okkur hefur oft reynst okkur gott að eiga góða vini og bandamenn. Á Norður-Víkingi æfa innlendir viðbragðsaðilar samvinnu við erlendan liðsafla til að tryggja að björgunarstarf við slíkar aðstæður gangi sem best, nú í skugga raunverulegs eldgoss.

Fyrir okkur Íslendinga undirstrikar varnaræfing sem þessi að við erum hluti af bandalagi ríkja sem virða landamæri, fordæma landvinningastríð og sameinast hafa um lýðræðisleg gildi. Varnaræfingin Norður-Víkingur styrkir fælingarmátt, treystir varnir og eflir getu til að verjast árásum og um leið friðinn sem er því miður ekki sjálfgefinn.

Greinin birtist á visir.is 30. ágúst 2024.