Er Kópa­vogs­módelið bak­slag í jafn­réttis­bar­áttunni?

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi:

Í Kastljósi í vikunni ræddi ég við framkvæmdastjóra Kvenréttindafélagsins um Kópavogsmódelið og hvort þær breytingar sem við boðuðum í september 2023 séu bakslag í jafnréttisbaráttunni.

Breytingar á leikskólaumhverfi Kópavogs áttu sér ekki stað í tómarúmi heldur var ráðist í breytingar til að bæta þessa mikilvægu þjónustu sem foreldrar treysta á og tryggja fullmannaða leikskóla.

Staðan í leikskólakerfinu var grafalvarleg og það var ábyrgðarhlutverk að horfast í augu við það og grípa til aðgerða þegar deildir voru lokaðar heilu og hálfu dagana sökum manneklu og veikinda. Þá voru ekki allar deildir fullnýttar því ekki tókst að ráða inn starfsfólk og því færri börn sem fengu leikskólapláss. Þessi staðar einskorðast vissulega ekki við Kópavog heldur er þetta staða sem sveitarfélög almennt voru og eru enn sum hver að glíma við.

Eðlilega skapa svona róttækar breytingar viðbrögð og Kópavogsmódelið er ekki hafið yfir gagnrýni. Sú gagnrýni þarf hins vegar að vera á rökum reist.

Mikilvægt er því að bera saman hver staðan er á fyrsta árinu frá því að við innleiddum Kópavogsmódelið við skólaárið þar á undan:

  • Enginn lokunardagur á leikskólum Kópavogs. Eftir innleiðingu breytingana voru engin börn send fyrr heim eða biðlað til foreldra að hafa börnin heima sökum manneklu og veikinda. Til samanburðar voru lokunardagar 212 á skólaárinu þar á undan.
  • Leikskólar Kópavogs eru fullmannaðir. Í fyrsta skipti í mörg ár eru allar deildir fullnýttar og fleiri börn fá því leikskólapláss.
  • Dvalartími barna er styttri. Helmingur foreldra hefur stytt dvalartíma barna sinna. Meðaldvalartími barna hefur farið úr því að vera 8,1 klukkustund í 7,4 klukkustundir.

Kópavogsbær hefur lagt ríka áherslu á að rýna vel hvaða áhrif breytingarnar hafa á ólíka hópa. Foreldrakönnun leiðir í ljós að tekjulægstu heimilin og heimili sem svöruðu könnuninni á ensku eru einna ánægðust með breytingarnar. Sami hópur er líklegastur til að nýta sér aukinn sveigjanleika og styttri dvalartíma.

Kvenréttindafélag á villigötum

Framkvæmdastjóra Kvenréttindafélagsins fullyrti í Kastljósi að Kópavogsmódelið væri ein skýrasta birtingarmynd bakslagsins í jafnréttisbaráttunni síðastliðin ár. Það er auðvelt að tala í fyrirsögnum og órökstuddum fullyrðingum án þess að kynna sér málin.

Leikskólar eru grunnstoð jafnréttis. Með tilkomu leikskóla fyrir áratugum síðan var mikill sigur unninn í jafnréttisbaráttunni og er klárlega meginskýring á því að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er ein sú hæsta í heimi. Með breytingum á leikskólaumhverfi Kópavogs með Kópavogsmódelinu var verið að standa vörð um þetta mikilvæga kerfi sem er lykilbreyta í jafnrétti kynja.

Framkvæmdastjóri Kvenréttindafélagsins virðist horfa framhjá því hvaða áhrif það hefur á jafnrétti þegar hringt er í foreldra án fyrirvara að sækja börn sín fyrr sökum veikinda eða vera heima með börn sín því þau fá ekki úthlutað leikskólapláss sökum manneklu. Miðað við fullyrðingar framkvæmdastjóra hefði slíkt lent einna helst á mæðrum að vera heima með börnin.

Vandinn var ekki skortur á fjármagni þótt Kvenréttindafélagið haldi því fram. Einn mesti stuðningur til barnafjölskyldna er niðurgreiðsla sveitarfélaga á leikskólagjöldum. Kópavogsbær niðurgreiðir ríflega sex milljarða króna árlega til foreldrar leikskólabarna, sem samsvarar ríflega þremur milljónum króna á hvert leikskólabarn.

Þegar ég tók við sem bæjarstjóri setti ég það í forgang að heimsækja alla leikskóla Kópavogs og lauk ég þeim heimsóknum fyrr í sumar. Vandinn var tvíþættur. Annars vegar óviðunandi umhverfi fyrir starfsfólk og leikskólabörn. Hins vegar óstöðugleiki í þjónustu gagnvart foreldrum. Þetta heyrði ég skýrt í samtölum mínum við starfsfólk leikskóla. En það vill svo til að yfir 90% þeirra eru konur.

Þær breytingar sem við fórum í haustið 2023 á leikskólaumhverfi Kópavogs hafa skilað árangri. Þjónustan er faglegri, stöðugri og betri. Ekki ríkir mannekla lengur á leikskólum Kópavogs og foreldrar geta betur treyst því að leikskólar séu ekki að loka sökum veikinda.

Það er holur hljómur í málflutningi framkvæmdastjóra Kvenréttindafélagsins þar sem órökstuddum fullyrðingum er slegið fram sem standast ekki skoðun.

Kópavogsmódelið stendur vörð um leikskólakerfið sem er grunnstoð jafnréttis!

Greinin birtist á visir.is 30. ágúst 2024.