Vilhjálmur Egilsson um þingferilinn og áskoranir flokksins fyrr og nú

Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins er gestur Jóns Birgis Eiríkssonar í nítjánda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.

Ferill Vilhjálms í Sjálfstæðisflokknum er langur, en hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1991-2003. Vegferð hans hófst þó í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins á Sauðárkróki og í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Á þeim árum var mikil gróska á hægri væng stjórnmálanna hér á landi og víðar í veröldinni, en Vilhjálmur kom meðal annars að útgáfu ritsins Báknið burt sem hafði stefnumarkandi áhrif á stjórnmálin hér á landi.

Vilhjálmur ræðir um feril sinn í ungliðahreyfingunni, námsárin í Bandaríkjunum, stöðuna á vinnumarkaði á starfsævi sinni þar, þingferilinn og helstu áskoranir Sjálfstæðisflokksins á þeim árum sem að hann sat á þingi sem og áskoranir Sjálfstæðisflokksins og íslensks samfélags til lengri tíma.

Áskoranir á vinnumarkaði í upphafi starfsferilsins

Vilhjálmur hóf sinn starfsferil í vinnumarkaðsmálunum, en á ferli hans sá hann miklar breytingar á þjóðfélagsskipaninni sem hann segir að séu ótrúleg umskipti. „Þetta var mjög skemmtilegur tími, 1982-1987,“ segir Vilhjálmur. „Þetta var komið út í tóma vitleysu, vísitölutenging launa. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins tók við þarna árið 1983, þá var þetta allt tekið úr sambandi og það tók mjög verulega á, að ná verðbólgunni niður og við á vinnumarkaði vorum endalaust að reyna að ná lendingu og friði á vinnumarkaði án þess að verðbólgan færi af stað aftur. Það var mikið reynt að ná þjóðarsátt um þetta sem náðist reyndar um síðir um 1989 og 1990. Þá var ég farinn til Verzlunarráðs,” segir Vilhjálmur.

Hann segir að samstaða hafi verið milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar á þeim árum til að ná verðbólgu niður. „Þetta var líka á þeim árum sem var farið í að lækka verð á bílum til að höggva í vísitöluna. Síðan kom skattlausa árið og það bjargaði mörgum, þótt margir hefðu bölvað því,“ segir hann. „Þetta varð til þess að ótrúlega margir gátu unnið og aflað tekna, borgað niður skuldir og komist út út vandræðum sem þeir komust í árið 1983. Það voru margir sem réttu sig af, en þetta var dálítið skrautlegt líka. Þegar við vorum að gera kjarasamninga vorum við með þjóðhagsspá og það átti að vera heilmikill vandræðagangur í efnahagslífinu. Þegar uppi var staðið minnir mig að landsframleiðsla hafi vaxið um tíu prósent,“ segir Vilhjálmur.

„Sigur frjálshyggjunnar“

Vilhjálmur telur stór skref hafa verið stigin þegar kerfi skömmtunar og kunningjaskapar voru brotin upp á níunda áratugnum. Þessu hafi fylgt spilling og það hafi verið lykilmál að brjóta upp allt slíkt. „Píratar tala um spillingu í dag. Þeir vita ekki hvað þeir eru að tala um. Á þessum tíma var kunningjaþjóðfélagið allsráðandi og mikil pólitísk fyrirgreiðsla og pólitísk stýring á peningum. Þetta gekk bara ekkert upp,“ segir Vilhjálmur, en hann segir að árin á eftir hafi mikill árangur náðst í íslensku þjóðfélagi. Til að mynda hafi tekist vel að afnema einokun á ýmsum sviðum samfélagsins.

„Það urðu ótrúleg umskipti á þessum tíma. Stundum hugsar maður til baka og ef þú tekur þetta tímabil frá árinu 1991, þegar ríkisstjórn Davíðs tekur við, og þangað til núna, þá hefur landsframleiðsla á mann aukist um 75%. Kaupmáttartölur hafa hækkað svipað og við erum í raun nánast tvöfalt sterkari en við vorum árið 1991. Þær breytingar sem þá urðu höfðu svo mikla þýðingu fyrir atvinnulífið og samfélagið. Við þurfum að fara að berja okkur meira á brjóst af því þetta var í raun og veru sigur frjálshyggjunnar,“ segir Vilhjálmur. „Þessi umskipti sem urðu þarna, þegar við frelsuðum fjármagnsmarkaðinn, hlutafélagavæddum ríkisbankana og sjóðirnir runnu inn í Íslandsbanka gegnum fjárfestingarsjóð atvinnulífsins. Við settum lögin um lífeyrissjóðina, kvótakerfið og allt í einu gat sjávarútvegurinn farið að mynda fjármagn o.s.frv. Við uppfærðum fjármálalöggjöfina tvisvar eða þrisvar sinnum á þessum tíma. Allt þetta gerði það að verkum að það fór af stað alveg rosaleg hagvaxtarmaskína,“ segir hann.

„Sama hvaða mælikvarða þú notar, þá erum við í dag velsældar- og velferðarþjóðfélag í fremstu röð,“ segir Vilhjálmur.

Aukin samkeppni í stóru kerfunum sé næsta verkefni

Til næstu áratuga telur Vilhjálmur mikilvægt að huga að þeim stóru kerfum sem rekin séu hér á landi í heilbrigðis- og menntamálum.  „Það þarf að ná vel utan um rekstur þessara stóru kerfa; heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Þar finnst mér að það vanti meiri samkeppni. Öll kerfi þurfa samkeppni, ekki bara atvinnulífið. Sú samkeppni sem kom til í háskólakerfinu með HR og það tókst þegar Björn [Bjarnason] var ráðherra. Breytingin sem varð á ákveðnum greinum í HÍ við samkeppnina var alveg ótrúleg,“ segir Vilhjálmur.

„Það er þokkaleg samkeppni milli framhaldsskóla, en á grunnskólastiginu vantar samkeppni. Það er lykilatriði til að ná betri árangri á því skólastigi. Varðandi heilbrigðiskerfið, þá vantar mikla samkeppni þar. Ég tel að það hafi verið mikil mistök að sameina Borgarspítalann og Landspítalann á sínum tíma. Það var búið til eitt stórt batterí sem hefur engan samanburð við annað en sjálft sig,“ segir Vilhjálmur.

Hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar segist Vilhjálmur myndu kjósa eitt borgaralegt afl á hægri vængnum frekar en dreifingu hægrimanna í fleiri flokka. „Það gengur ekki að hafa Sjálfstæðimenn í þremur flokkum. Það þarf að sameina Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Miðflokkinn og búa til þetta stóra borgaralega afl sem Sjálfstæðisflokkurinn var. Flokkurinn var ekki bara flokkur allra stétta, heldur flokkur allra skoðana. Mér finnst vont að vita af gömlum samherjum mínum svona dreifðum. Ég vil sjá það að við sameinumst á ný,“ segir Vilhjálmur.

Þáttinn á Spotify má finna hér.