Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra undirritaði í vikunni samning við Landsvirkjun um lands- og vindorkuréttindi vegna vindorkugarðs við Vaðöldu norðan Búrfells.
Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegudnar og stórt skref í orkumálum Íslendinga.
„Í vor sögðumst við ætla að setja þrjú mál á oddinn: Áframhaldandi lækkun verðbólgu, að tryggja íslensk landamæri og sækja meiri græna orku fyrir byggðir og atvinnulíf í landinu,“ segir Bjarni á facebook-síðu sinni í dag.
Þá nefnir hann árangurinn af þessum málum. Segir Bjarni að í ríkisreikningi fyrir árið 2023 hafi afkoma ríkissjóðs verið 100 milljörðum betri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum, þriðja árið í röð.
„Þetta er algjört grundvallaratriði þegar kemur að áframhaldandi lækkun verðbólgu og svigrúmi til vaxtalækkana. Verðbólgan hefur þokast niður við á árinu og við gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að svo verði áfram,“ segir Bjarni.
Hann nefnir einnig að á síðasta þingi hafi útlendingalögin verið kláruð sem styrkja landamærin til muna og draga úr aðsókn til landsins. Umsóknum hafi þegar fækkað verulega á milli ára.
„Með lagabreytingum í vor og sameiningum stofnana var skilvirkni í leyfisveitingaferli orkuverkefna aukin og dregið úr yfirbyggingu. Breytingar á þjóðlendulögum tryggðu svo að hægt var að skrifa undir samninginn við Landsvirkjun, en í vindorkunni eigum við tækifæri til að skapa þriðju stoðina í orkukerfi landsins.
Verkefni komandi vetrar eru stór, en við erum á réttri leið,“ segir hann.
Sjá nánar frétt á vef forsætisráðuneytisins hér.