„Mér var mjög brugðið að koma á Litla-Hraun. Aðalbyggingin þar var byggð 1929 og hún var ekki byggð sem fangelsi. Hún var byggð sem sjúkrahús fyrir Sunnlendinga en var aldrei tekin í notkun sem slíkt,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í vitali á visi.is. Hún segist hafa miklar áhyggjur af stöðu fangavarða og aðstöðunni sem föngum, fangavörðum og aðstandendum sé boðið upp á. Segir hún að byggt hafi verið níu sinnum við húsið og að húsakostur sé nær allur óviðunandi og lélegur. Þess vegna hafi hún ákveðið að byggja nýtt fangelsi.
Hún segir erfitt að tryggja öryggi fanga og fangavarða eins og staðan sé í dag auk þess sem aðstaða fyrir aðstandendur sé óviðunandi. Nú sé þarfagreiningu lokið og það séu komin drög að teikningum.
„Ég vil að þetta verði byggt hratt upp,“ segir hún.
Varðandi þá stöðu að stór hluti fanga eigi við geðrænan vanda segir Guðrún að það hafi verið brugðist við með því að efla geðheilbrigðisteymi fangelsisins.
„Hins vegar verður að tryggja þeim starfsmönnum viðunandi starfsumhverfi í fangelsinu svo að fólk fáist í þessi störf,“ segir hún. Auk þess verði að vera hægt að tryggja öryggi þeirra. Það hafi þó verið erfitt og því sé stoðþjónustan í gámum og verði þar til nýtt fangelsi rís. Segir Gurðún alveg ljóst að starfsaðstæður fangavarða í fangelsunum sé óviðunandi og því verði að koma betra skikki á þennan málaflokk. Hann hafi ekki verið í nægilegum fókus og við það verði ekki búið lengur.
„Ég mun gera allt sem ég get til þess að tryggja öryggi þeirra starfsmanna og öryggi þeirra sem þarna þurfa að dvelja á hverjum tíma,“ segir hún og einnig: „Það verður að tryggja að þeir sem þarna starfi þeir slasist ekki í störfum sínum og komi heilir heim.“
Þeir sem brjóta alverlega af sér verði sviptir vernd
Guðrún segist hafa hug á að gera þá breytingu á íslenskum lögum að ef sá sem hér hefur fengið vernd gerist sekur um alvarleg brot þá sé hægt að svipta viðkomandi verndinni. Segir hún önnur lönd vera að fara þessa leið og eðlilegt að við gerum það einnig. Boðar hún frumvörp þess efnis á næsta þingi.
„Þetta er flókið og það er alvarlegt að ætla að afturkalla vernd hjá einstaklingi sem hefur fengið vernd og það þarf að vanda mjög til breytinga á löggjöfinni á þá veru,“ segir hún en að ráðuneytið hafi í sumar unnið að frumvörpum þess efnis. Hér er átt við brot eins og manndráp, mansal og alvarleg ofbeldisbrot.
Komið verði upp aðstöðu í nágrenni flugvallarins
Þá boðar Guðrún jafnframt frumvarp um brottfararbúðir. Hún segir Ísland eina ríkið í Schengen-samstarfinu sem ekki sé með slíkar búðir. Spretthópur á vegum hennar, félagsmálaráðherra og forsætisráðherra sé að ljúka störfum á næstunni. Hópurinn skoði allt ferlið frá því fólk kemur og þar til það fer.
Segir Guðrún að eins og staðan sé í dag fari fólk í mótttökumiðstöð í Domus á Barónsstíg þegar það óskar eftir vend á Keflavíkurflugvelli.
„Ég er á þeirri skoðun að fólk eigi ekkert að fara inn í íslenskt samfélag fyrr en það er búið að yfirfara umsóknir þeirra,“ segir Guðrún. Til þess þurfi að útbúa móttökumiðstöð nálægt Keflavíkurflugvelli. Þar starfi sérfræðingar, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk Útlendingastofnunar.
Markmiðið sé að umsóknarferli taki ekki lengur en 90 daga en að fólk dvelji ekki lengur í mótttökumiðstöðunni en fimm til sjö daga. Þar fái það heilsufarsskoðun og umsókn verði tekin til fyrstu skoðunar.
Þá sé oft hægt að sjá á fyrstu sólarhringunum að umsókn sé tilhæfulaus og fólki sé þá snúið strax við. Þeir sem fari lengra í umsóknarferli fari í annað búsetuúrræði og ef að niðurstaðan þar verði sú að það fái ekki vernd þá fari það í brottfararbúðir.
„Það er á ábyrgð okkar, íslenskra stjórnvalda, að sjá til þess að þeir sem ekki fá vernd hér á landi, að þeir yfirgefi þá Schengen-svæðið. Þess vegna verðum við að vita hvar fólk er,“ segir hún og að slíkar búðir gefi tækifæri á að vinna betur með fólki.
Frétt úr viðtalinu á visir.is má finna hér.