Hugmyndabaráttan aftur í forgang

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er í mótvindi og það ekki í fyrsta skipti. Í póli­tísk­um mótvindi reyn­ir á for­ystu og kjörna full­trúa en einnig á al­menna flokks­menn sem bera uppi starfið um allt land. And­streymi er prófraun fyr­ir póli­tísk­an karakt­er stjórn­mála­manna. Þeir geta hlaup­ist und­an ábyrgð og varpað henni á aðra eða snúið bök­um sam­an, yddað sam­eig­in­leg skila­boð og hug­mynda­fræðina sem á ræt­ur í ís­lensk­um jarðvegi. Frelsi, sjálf­stæði og jöfn tæki­færi. Eng­inn ann­ar stjórn­mála­flokk­ur hef­ur burði og sögu til að vinna að fjár­hags­legu sjálf­stæði ein­stak­ling­anna sem borg­ara­legt sam­fé­lag hvíl­ir á.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur verið sam­fleytt í rík­is­stjórn frá ár­inu 2013. Árang­ur­inn er aug­ljós þó marg­ir eigi erfitt með að viður­kenna það sem vel hef­ur verið gert. Skatt­ar hafa verið lækkaðar, lífs­kjör hafa aldrei verið betri, trygg­inga­kerfi ör­yrkja eflt, fjöl­breytt­ari stoðum hef­ur verið skotið und­ir at­vinnu­lífið með því að ryðja veg­inn til að gera Ísland að besta landi fyr­ir ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki. Þrátt fyr­ir al­var­leg­ar nátt­úru­ham­far­ir og heims­far­ald­ur stend­ur Ísland sterkt í alþjóðleg­um sam­an­b­urði.

Auðvitað hef­ur ekki allt gengið eft­ir eins og von­ast var. Stefnu­mál­in hafa ekki öll náð fram að ganga. Það ger­ist ekki í sam­steypu­stjórn­um. Í sam­starfi við aðra höf­um við þurft að koma til móts við ólík sjón­ar­mið án þess að missa sjón­ar á hug­sjón­um. Sam­steypu­stjórn verður óstjórn án mála­miðlana.

Hug­mynda­fræði og trú­verðug­leiki

Í ræðu á lands­fundi Sjálf­stæðis­flokks­ins árið 1948 fjallaði Bjarni Bene­dikts­son, (eldri) þá ut­an­rík­is­ráðherra, um mála­miðlan­ir:

„Við vit­um, að á meðan Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur ekki einn hrein­an meiri hluta í þessu landi, þá hlýt­ur ætíð að fara ver en skyldi. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn einn hef­ur inn­an sinna vé­banda sam­einað all­ar stétt­ir þjóðfé­lags­ins og hef­ur einn allra flokka haft þroska til að setja þjóðar­heill öll­um sér­sjón­ar­miðum ofar. Það hlýt­ur ætíð að vera vanda­samt verk og vanþakk­látt fyr­ir for­ystu­menn flokks okk­ar, að vinna með full­trú­um sér­hags­muna­flokk­anna og slá svo af stefnu­mál­um flokks­ins, sem nauðsyn­legt er til að slík sam­vinna geti hald­ist. En ef skap­leg­ur hátt­ur á að hald­ast um stjórn lands­ins þangað til að við ein­ir verðum svo sterk­ir, að við fáum meiri hluta, verður slík sam­stjórn eigi um flú­in.“

Öllum Sjálf­stæðismönn­um var það ljóst þegar tekið var hönd­um sam­an við Fram­sókn­ar­flokk og Vinstri græna í rík­is­stjórn árið 2017, yrði það áskor­un. Það er alltaf áskor­un fyr­ir stjórn­mála­flokk sem bygg­ir á skýrri hug­mynda­fræði að taka þátt í sam­steypu­stjórn. Halda þarf trú­verðug­leika gagn­vart kjós­end­um og al­menn­um flokks­mönn­um. Sann­færa þá um, að þrátt fyr­ir mála­miðlan­ir sem oft eru erfiðar, þok­ist bar­áttu­mál­in áfram. En eft­ir því sem árin verða fleiri og mála­miðlan­ir fleiri verður flókn­ara að halda trú­verðug­leik­an­um – ekki síst þegar ráðherr­ar sam­starfs­flokks ganga frek­lega gegn lög­um og stjórn­ar­skrár­vörðum rétt­ind­um. Við, sem skip­um þinglið Sjálf­stæðis­flokks­ins kom­umst ekki hjá því að líta í eig­in barm og viður­kenna að í mörgu hafa okk­ur verið mislagðar hend­ur við að tala fyr­ir stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins og halda því til haga sem vel hef­ur verið gert og tryggja að bar­áttu­mál kom­ist á dag­skrá.

Öll mál eru fjöl­skyldu­mál

Eft­ir sjö ára rík­is­stjórn­ar­sam­starf, þvert yfir hið póli­tíska lit­róf, bend­ir margt til þess að hug­mynd­ir kjós­enda um Sjálf­stæðis­flokk­inn séu ekki eins skýr­ar og áður. Ekki síst þess vegna er það eitt stærsta (en um leið skemmti­leg­asta) verk­efni okk­ar hægri manna að setja hug­mynda­bar­átt­una aft­ur í for­gang; sjálf­stæði lands­ins og full­veldi, at­vinnu­frelsi, frjáls ut­an­rík­is­viðskipti, lægri skatta, öfl­ugt og skil­virkt vel­ferðar­kerfi og frelsi ein­stak­lings­ins. Við þurf­um að herða bar­átt­una fyr­ir opnu sam­fé­lagi og gegn­sæi í allri op­in­berri stjórn­sýslu. Hefja sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ann aft­ur til vegs og virðing­ar og standa að end­ur­reisn grunn­skól­ans.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur alla tíð verið flokk­ur fjöl­skyld­unn­ar í öll­um sín­um fjöl­breyti­leika. Fjöl­skyld­an er horn­steinn sam­fé­lags­ins og öll mál eru fjöl­skyldu­mál. Í nýrri sókn hug­mynda­fræðinn­ar eig­um við hægri menn að taka okk­ur stöðu með fjöl­skyld­unni. Góðar, greiðar og ör­ugg­ar sam­göng­ur eru fjöl­skyldu­mál. Traust og góð heil­brigðisþjón­usta er mik­il­væg fyr­ir alla; afa, ömmu, mömmu, pabba og börn­in. Al­manna­trygg­ing­ar eru fjöl­skyldu­mál – spurn­ing­in hvernig við styðjum hvert við annað þegar þess er þörf. Öflugt mennta­kerfi er spurn­ing um jöfn tæki­færi allra til að rækta eig­in hæfi­leika og grípa tæki­færi framtíðar­inn­ar. Leik­skóli skipt­ir ekki aðeins okk­ar yngstu borg­ara miklu held­ur er styður við heil­brigðan vinnu­markað og jafn­rétti. Fjöl­breytt og sterkt at­vinnu­líf er spurn­ing um af­komu fjöl­skyld­unn­ar. Fjöl­skyld­an treyst­ir því að hóf­semd­ar sé gætt í skött­um og álög­um, að farið sé vel með al­manna­fé og aðhald sé í rekstri hins op­in­bera. Og þannig má lengi telja. Fjöl­skyld­an þarf að bera byrðar ef sveit­ar­fé­lög sinna ekki þeirri skyldu sinni að tryggja nægj­an­legt fram­boð af hag­stæðum lóðum und­ir íbúðir. Heima­til­bú­inn skort­ur á íbúðahús­næði hef­ur komið illa við alla.

Þá er spurn­ing­in vit­laus

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn á að tefla fram hug­mynda­fræði sinni gegn póli­tísk­um and­stæðing­um sem trúa því enn að hægt sé að fara í fræðak­istil fé­lags­hyggj­unn­ar til að finna úrræði, líkt og Davíð Odds­son, þá borg­ar­stjóri, sagði í ræðu á 60 ára af­mæli Sjálf­stæðis­flokks­ins árið 1989: „Þeir virðast enn trúa því að fé­lags­hyggj­an búi yfir töfr­aráðum, sem séu bet­ur fær um að leysa vanda í hverri lífs­gátu en ein­stak­ling­arn­ir og fyr­ir­tæk­in geta gert, ef al­mennu skil­yrðin eru í lagi og af­skipta­semi hins op­in­bera í lág­marki.“

Íslend­ing­ar þekkja inni­hald „fræðak­istils­ins“ af dap­ur­legri reynslu. Auk­in rík­is­um­svif, minna at­hafna­frelsi, hærri skatt­ar og lak­ari lífs­kjör. Gegn þess­ari hug­mynda­fræði get­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn einn staðið.

Ronald Reag­an, for­seti Banda­ríkj­anna, orðaði þetta ágæt­lega: Ef svarið er; auk­in rík­is­um­svif, þá er spurn­ing­in heimsku­leg.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst 2024.