Óli Björn Kárason alþingismaður:
Sjálfstæðisflokkurinn er í mótvindi og það ekki í fyrsta skipti. Í pólitískum mótvindi reynir á forystu og kjörna fulltrúa en einnig á almenna flokksmenn sem bera uppi starfið um allt land. Andstreymi er prófraun fyrir pólitískan karakter stjórnmálamanna. Þeir geta hlaupist undan ábyrgð og varpað henni á aðra eða snúið bökum saman, yddað sameiginleg skilaboð og hugmyndafræðina sem á rætur í íslenskum jarðvegi. Frelsi, sjálfstæði og jöfn tækifæri. Enginn annar stjórnmálaflokkur hefur burði og sögu til að vinna að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinganna sem borgaralegt samfélag hvílir á.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið samfleytt í ríkisstjórn frá árinu 2013. Árangurinn er augljós þó margir eigi erfitt með að viðurkenna það sem vel hefur verið gert. Skattar hafa verið lækkaðar, lífskjör hafa aldrei verið betri, tryggingakerfi öryrkja eflt, fjölbreyttari stoðum hefur verið skotið undir atvinnulífið með því að ryðja veginn til að gera Ísland að besta landi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Þrátt fyrir alvarlegar náttúruhamfarir og heimsfaraldur stendur Ísland sterkt í alþjóðlegum samanburði.
Auðvitað hefur ekki allt gengið eftir eins og vonast var. Stefnumálin hafa ekki öll náð fram að ganga. Það gerist ekki í samsteypustjórnum. Í samstarfi við aðra höfum við þurft að koma til móts við ólík sjónarmið án þess að missa sjónar á hugsjónum. Samsteypustjórn verður óstjórn án málamiðlana.
Hugmyndafræði og trúverðugleiki
Í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1948 fjallaði Bjarni Benediktsson, (eldri) þá utanríkisráðherra, um málamiðlanir:
„Við vitum, að á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki einn hreinan meiri hluta í þessu landi, þá hlýtur ætíð að fara ver en skyldi. Sjálfstæðisflokkurinn einn hefur innan sinna vébanda sameinað allar stéttir þjóðfélagsins og hefur einn allra flokka haft þroska til að setja þjóðarheill öllum sérsjónarmiðum ofar. Það hlýtur ætíð að vera vandasamt verk og vanþakklátt fyrir forystumenn flokks okkar, að vinna með fulltrúum sérhagsmunaflokkanna og slá svo af stefnumálum flokksins, sem nauðsynlegt er til að slík samvinna geti haldist. En ef skaplegur háttur á að haldast um stjórn landsins þangað til að við einir verðum svo sterkir, að við fáum meiri hluta, verður slík samstjórn eigi um flúin.“
Öllum Sjálfstæðismönnum var það ljóst þegar tekið var höndum saman við Framsóknarflokk og Vinstri græna í ríkisstjórn árið 2017, yrði það áskorun. Það er alltaf áskorun fyrir stjórnmálaflokk sem byggir á skýrri hugmyndafræði að taka þátt í samsteypustjórn. Halda þarf trúverðugleika gagnvart kjósendum og almennum flokksmönnum. Sannfæra þá um, að þrátt fyrir málamiðlanir sem oft eru erfiðar, þokist baráttumálin áfram. En eftir því sem árin verða fleiri og málamiðlanir fleiri verður flóknara að halda trúverðugleikanum – ekki síst þegar ráðherrar samstarfsflokks ganga freklega gegn lögum og stjórnarskrárvörðum réttindum. Við, sem skipum þinglið Sjálfstæðisflokksins komumst ekki hjá því að líta í eigin barm og viðurkenna að í mörgu hafa okkur verið mislagðar hendur við að tala fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins og halda því til haga sem vel hefur verið gert og tryggja að baráttumál komist á dagskrá.
Öll mál eru fjölskyldumál
Eftir sjö ára ríkisstjórnarsamstarf, þvert yfir hið pólitíska litróf, bendir margt til þess að hugmyndir kjósenda um Sjálfstæðisflokkinn séu ekki eins skýrar og áður. Ekki síst þess vegna er það eitt stærsta (en um leið skemmtilegasta) verkefni okkar hægri manna að setja hugmyndabaráttuna aftur í forgang; sjálfstæði landsins og fullveldi, atvinnufrelsi, frjáls utanríkisviðskipti, lægri skatta, öflugt og skilvirkt velferðarkerfi og frelsi einstaklingsins. Við þurfum að herða baráttuna fyrir opnu samfélagi og gegnsæi í allri opinberri stjórnsýslu. Hefja sjálfstæða atvinnurekandann aftur til vegs og virðingar og standa að endurreisn grunnskólans.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið flokkur fjölskyldunnar í öllum sínum fjölbreytileika. Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og öll mál eru fjölskyldumál. Í nýrri sókn hugmyndafræðinnar eigum við hægri menn að taka okkur stöðu með fjölskyldunni. Góðar, greiðar og öruggar samgöngur eru fjölskyldumál. Traust og góð heilbrigðisþjónusta er mikilvæg fyrir alla; afa, ömmu, mömmu, pabba og börnin. Almannatryggingar eru fjölskyldumál – spurningin hvernig við styðjum hvert við annað þegar þess er þörf. Öflugt menntakerfi er spurning um jöfn tækifæri allra til að rækta eigin hæfileika og grípa tækifæri framtíðarinnar. Leikskóli skiptir ekki aðeins okkar yngstu borgara miklu heldur er styður við heilbrigðan vinnumarkað og jafnrétti. Fjölbreytt og sterkt atvinnulíf er spurning um afkomu fjölskyldunnar. Fjölskyldan treystir því að hófsemdar sé gætt í sköttum og álögum, að farið sé vel með almannafé og aðhald sé í rekstri hins opinbera. Og þannig má lengi telja. Fjölskyldan þarf að bera byrðar ef sveitarfélög sinna ekki þeirri skyldu sinni að tryggja nægjanlegt framboð af hagstæðum lóðum undir íbúðir. Heimatilbúinn skortur á íbúðahúsnæði hefur komið illa við alla.
Þá er spurningin vitlaus
Sjálfstæðisflokkurinn á að tefla fram hugmyndafræði sinni gegn pólitískum andstæðingum sem trúa því enn að hægt sé að fara í fræðakistil félagshyggjunnar til að finna úrræði, líkt og Davíð Oddsson, þá borgarstjóri, sagði í ræðu á 60 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins árið 1989: „Þeir virðast enn trúa því að félagshyggjan búi yfir töfraráðum, sem séu betur fær um að leysa vanda í hverri lífsgátu en einstaklingarnir og fyrirtækin geta gert, ef almennu skilyrðin eru í lagi og afskiptasemi hins opinbera í lágmarki.“
Íslendingar þekkja innihald „fræðakistilsins“ af dapurlegri reynslu. Aukin ríkisumsvif, minna athafnafrelsi, hærri skattar og lakari lífskjör. Gegn þessari hugmyndafræði getur Sjálfstæðisflokkurinn einn staðið.
Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, orðaði þetta ágætlega: Ef svarið er; aukin ríkisumsvif, þá er spurningin heimskuleg.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst 2024.