Ljósleiðaravæðingin klárist innan þriggja ára

„Jafnt aðgengi að háhraðanetsambandi er undirstaða nútíma búsetugæða, atvinnulífs og samkeppnishæfni byggða. Við höfum staðið okkur vel í þessum efnum á undanförnum árum en ef við viljum leysa krafta landsmanna almennilega úr læðingi þurfum við að tryggja að þeir geti allir gengið að öflugu netsambandi og öllum þeim tækifærum sem því fylgir. Að klára ljósleiðaravæðinguna að fullu á svo skömmum tíma mun ekki aðeins styrkja byggðir landsins heldur jafnframt auka samkeppnishæfni landsins svo um munar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem kynnti í morgun áform um að klára ljósleiðaravæðingu landsins.

Opinbert markmið stjórnvalda um aðgengi að ljósleiðara hefur verið að allir þéttbýlisstaðir og byggðakjarnar á landinu nái a.m.k. 80% hlutfalli tengdra lögheimila fyrir árslok 2028. Nýju áformunum sem kynnt voru í dag er aftur á móti ætlað að stuðla að 100% aðgengi fyrir árslok 2026, á grundvelli samvinnu íbúa, sveitarfélaga, fjarskiptafyrirtækja og ríkisins. Um er að ræða langþráða heildstæða uppfærslu fjarskipta gagnvart þúsundum heimila um land allt og einstakan árangur á heimsvísu.

Áformin eru framhald af verkefninu Ísland ljóstengt hvers markmið var að koma ljósleiðaratengingu í dreifbýlið þar sem markaðsforsendur væru ekki fyrir hendi. Fjarskiptasjóður studdi þar 57 sveitarfélög til að leggja ljósleiðaranet í dreifbýli sínu og er nú svo komið að um 82% lögheimila í dreifbýli hafa aðgang að ljósleiðara. Góðan árangur í verkefninu má ekki síst þakka almennri þátttöku, greiðsluvilja og staðfestu sveitarstjórna.

Sjá nánar frétt á vef ráðuneytisins hér.