Aldís Hafsteinsdóttir ræðir 30 ára feril í sveitarstjórnarmálum
'}}

Aldís Hafsteinsdóttir sveitarstjóri Hrunamannahrepps, fyrrverandi bæjarstjóri í Hveragerði og fyrrverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í tíunda þætti hlaðvarpsþáttaraðar um samofna 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins og 80 ára sögu lýðveldis. Hljóðútgáfu af þættinum má nálgast hér.

Aldís hóf pólitíska þáttöku á sveitarstjórnarstiginu fyrir 30 árum vorið 1994. Hún var varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Hveragerðis sitt fyrsta kjörtímabil en var síðan aðalbæjarfulltrúi frá 1998-2022. Hún var bæjarstjóri Hveragerðis frá 2006-2022, fyrst kvenna til að gegna þeirri stöðu og eins fyrsti og eini Hvergerðingurinn sem hefur gegnt þeirri stöðu. Hún var formaður Sambands íslensrka sveitarfélaga frá 2018-2022 og hefur frá vorinu 2022 verið sveitarstjóri Hrunamannahrepps.

Aldís er án vafa sú sjálfstæðiskona sem hefur lengst gengt starfi bæjar- og sveitarstjóra í umboði Sjálfstæðisflokksins og ein af reynslumestu sveitarstjórnarmönnum landsins.

„Ég flyt í Hveragerði 1992 aftur eftir að hafa farið í burtu í nám, í vinnu og búið erlendis. Kem aftur til baka í minn heimabæ og fór fljótlega að fylgjast með. Ég er alin upp á pólitísku heimili. Pabbi var forseti bæjarstjórnar, hann var lengi oddviti áður en Hveragerðisbær var bær og var mjög virkur í pólitísku starfi. Þannig að við systkinin erum alin upp við mikla samfélagslega vitund og mikla félagslega þátttöku,“ segir Aldís um upphafið af því að hún fór út í pólitík.

„Ég fór strax að mæta á fundi, fór að taka til máls og ég man rétt eftir að ég flutti aftur í Hveragerði, áður en pabbi dó sem var bráðkvaddur 1993, þá fórum við saman á fund. Það var eini fundurinn sem við náðum að fara saman á. Ég var með skrifaða ræðu. Það var verið að kljást þarna um leikskólamál. Ég fór upp og ég man að pabbi skrifaði á ræðuna: „Vel gert!“. Það eru einu viðbrögðin sem ég á frá honum á mín pólitísku störf. Mér þykir ofboðslega vænt um það,“ segir hún.

Árið 1994 samþykkti hún síðan að taka sæti á D-listanum í Hveragerði sem varamaður. Fjórum árum síðar er hún í framboði fyrir sérframboð sem var e.k. klofningsframboð frá D-listanum.

„Þetta gerðist 1996. Sjálfstæðismenn í kosningunum 1994 fengu mjög góða kosningu. Fengu hreinan meirihluta og þetta var flottur samheldinn hópur fólks sem þar vann saman. Svo gerast bara hlutir eins og fólk þekkir til í sveitarfélögum. Kannski í dag myndi ég segja út af litlu tilefni. Ef ég hefði haft þá reynslu þá sem ég hef í dag og við kannski öll sem þar vorum innan borðs þá er ég ekkert viss um að mál hefðu farið með þeim hætti sem þau gerðu. En 1996 verða vinslit innan meirihluta sjálfstæðismanna. Meirihlutinn klofnar,“ segir hún og í framhaldinu ganga þrír aðalmenn og fyrsti varamaður D-listans til meirihlutasamstarf við þáverandi minnihluta.

„Þetta var sérkennilegur tími og snúinn. Við vorum rekin úr sjálfstæðisfélaginu. Það er svona líka eitthvað sem tíðkaðist ekki á þeim tíma. Það voru sárindi og leiðindi í kringum þetta sem ég myndi ekki óska neinum að upplifa. Með mína reynslu sem ég hef í dag myndi ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að svona lagað gerist ekki. Það er svo erfitt að lækna sárin sem verða til í kjölfarið á svona átökum,“ segir hún.

Fjórum árum síðar sameinast sjálfstæðismenn á ný og Aldís verður oddviti listans.

„Fyrir kosningarnar 2002 þá lánaðist okkur að sameinast aftur og buðum fram einn lista, D-lista, og eftir það hafa sjálfstæðismenn verið öflugir og sterkir. En við aftur á móti töpuðum kosningunum 2002 og það var kannski vegna þess að það þarf lengri tíma til þess að ná saman hóp heldur en sá stutti tími sem við höfðum frá því að við sameinuðum hópana og fram að kosningum,“ segir hún.

Verður bæjarstjóri 2006

„Ég var náttúrulega búin að vera lengi í sveitarstjórn. Ég var búin að vera viðloðandi sveitarstjórn í 12 ár þegar ég gerist bæjarstjóri þannig að ég þekkti stjórnkerfið út og inn. Ég þekkti það að vera á fundum og hvað þyrfti að gera. Ég þekkti embættismennina allt kerfið. Svo þekkti ég auðvitað líka íbúana og þekkti bæinn. Ég hafði mjög góðan grunn,“ segir hún aðspurð um viðbrigðin við að verða bæjarstjóri eftir kosningarnar 2006 þegar D-listinn nær hreinum meirihluta sem hann hélt í næstu fjögur kjörtímabil þar á eftir.

„Ég ákvað að slá til og hafði til þess stuðning minna samflokksmanna. Ég sé ekki eftir því og ég vona að þau sjái ekki eftir því heldur,“ segir hún.

„Það hefur í mjög mörg ár verið mikill vöxtur og mikið um að vera. Það er ekki einfalt að halda þannig um þræði að íbúar finni að það sé verið að byggja upp á sama tíma og það er gert með skynsamlegum hætti hvað fjármálin varðar. Þarna strax var uppbygging íþróttamannvirkja. Við vorum nýbúin sjálfstæðismenn á tímabilinu 1998-2002 að lyfta grettistaki í fráveitumálum. Það var mjög brýnt. Hveragerði er með mjög viðtækan viðtaka, Varmá. Við vorum langt á undan öðrum sveitarfélögum þegar kom að hreinsun á fráveituvatni. Það var stórt mál það kjörtímabil. Svo þurfti til dæmis að malbika götur. Hveragerði var eitt af þeim sveitarfélögum sem hafði algjörlega setið eftir hvað það varðar,“ segir hún um stærstu málin í bæjarstjórninni eftir að hún tók við en nefnir einnig umhverfismálin.

„Þegar við tökum við þarna 2006 þá var til dæmis líka orðspor Hveragerðis ekkert sérstaklega beisið. Það vita Hvergerðingar sem muna eitthvað aftur í tímann. Það þurfti virkilega ákveðna ímyndarvakningu gagnvart bænum. Það verður ekki nema það sé einhver innistaða á bak við slíkt. Við fórum í gríðarlega mikið átak hvað varðar umhverfi. Við gróðursettum tré og lögðum mikið upp úr því að bærinn liti vel út. Við keyptum ógrynni af sumarblómum, höfðum bæinn litríkan, fallegan og blómlegan. Fórum í þessa vinnu að búa til samfélag sem væri þannig að fólk myndi sækja í að búa þar og myndi svo una vel lífi sínu þar,“ segir Aldís.

Hún segir að þetta hafi verið gert á grundvelli framtíðarsýnar um það hvernig þau vildu sjá Hveragerðisbæ þróast til lengri tíma litið.

Reynslan af fyrirtækjarekstri gagnast í starfi bæjarstjóra

Spurð að því hvort það hafi nýst henni í starfi að hafa starfað lengi við fjölskyldufyrirtækið Kjörís segir hún: „Þegar ég verð bæjarstjóri er ég búin að vera 13 ár sem innkaupastjóri í fjölskyldufyrirtækinu. Það er griðarleg reynsla fólgin í því að reka fyrirtæki, að hafa fólk í vinnu og þurfa að sjá til þess að fyrirtækið gangi og vita það að til þess að það komi inn peningar þá verði eitthvað að gerast. Þú verður að framleiða eitthvað, búa til eitthvað eða selja eitthvað sem fólk hefur hug á að kaupa. Þessi grundvallarhugsun í rekstri er eitthvað sem hefur nýst mér mjög vel í mínum störfum, hvort sem er hjá Hveragerðisbæ eða hreinlega núna hjá Hrunamannahreppi.“

Hún segir stóran hluta af starfi sínu í gegnum tíðina snúast um rekstur.

„Fólk heldur alltaf að sveitarstjórarnir, oft talað um okkur af því að við erum andlitið út á við, að við séum mestmegnis að lesa stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Þetta er bara rekstur á stóru fyrirtæki með fjölda starfsmanna sem þarf að halda utan um þannig að það gangi. Sveitarfélag er í grunninn líka eins og húsfélag. Þú kýst formann í húsfélaginu og hann á að sjá til þess ásamt stjórninni að þetta sé í lagi. Fólkið í blokkinni setur ákveðna peninga í húsfélagið og það þarf að reka dæmið fyrir það. Nákvæmlega eins eru skatttekjurnar sem koma inn úr vösum bæjarbúa með einum eða öðrum hætti, hvort sem það eru þjónustugjöld, útsvar eða fasteignagjöld, það er peninguinn sem sveitarstjórnin hefur til þess að reka sveitararfélagið, leikskólann, grunnskólann, gera götur, starf eldri borgara, félagsaðstoð, málefni fatlaðs fólks og annnað slíkt. Það er ekki í aðra sjóði að sækja nema jöfnunarsjóðinn svo ég haldi þessum fjórum stoðum til haga. Þetta er það sem við höfum til að vinna með,“ segir hún.

Hún segir að það skipti öllu máli að reksturinn sé í lagi og segir að fólk sem veljist í sveitarstjórn hafi oft ekki nægilegan áhuga á rekstri. Það sama eigi við um íbúana almennt. Þeir treysti því bara að málin séu í lagi.

Jarðskjálftinn 2008 stórt verkefni

„Ég var ný orðinn bæjarstjóri þegar jarðskjálftinn ríður yfir Hveragerði 2008, búinn að vera í tæp tvö ár. Ég var þá stödd erlendis þegar jarðskjálftinn ríður yfir. Ég fæ símtal og mér er sagt hvernig þetta er og svo er mér sagt: „En þetta er allt í lagi – haltu bara áfram með fríið þitt. Við sjáum um þetta. Þetta er allt í góðum höndum.“ Eftir tvo daga uppgvötva ég sem ég hef vitað síðan að þegar svona hlutur gerist þá pilla ég mig heim strax. Ég hafði ekki gert mér neina grein fyrir því að það væri beðið eftir mér, að ég hefði hlutverk í svona löguðu. Það var almannavarnarnefnd, það voru öll hlutverk vel skipuð. En það vantaði að bæjarstjórinn kæmi heim og tæki utan um hópinn sinn. Ég kom heim um leið og kveikti á þessu tveimur dögum seinna. Þá fann ég svo vel þetta hlutverk sem er það að halda samfélaginu saman sem heild,“ segir hún um áskoranir og eftirminnileg atvik í tíð sinni sem bæjarstjóri.

„Það er ekki bara að jarðskjálfinn hafi verið áskorun. Þetta var gríðarlegt verkefni. Það voru 40 húseignir dæmdar ónýtar í Hveragerði. Það var tjón á hverju einasta heimili. Þetta var mikil vinna í 2-3 ár. Við fórum síðan með háskólanum, við hjá Hveragerðisbæ og Árborg, að vinna verkefni um endureisn samfélaga eftir áföll sem var stórt og mikið verkefni sem hefur verið notað víða síðan. Það notuðum við síðan í svínaflensunni, ef einhver man eftir því. Það varð ákveðið fár í landinu yfir yfirvofandi svínaflensu. Síðan var efnahagshrunið 2008 líka. Svo Covid – þannig að það vantaði ekkert áskoranir,“ segir Aldís.

Mikil uppbygging íþróttamannvirkja

„Það var mikil umræða í Hveragerði á sínum tíma um að það vantaði betri íþróttamannvirki. Það var búið að fara í þarfagreiningu með íþróttafélaginu og notendum. Við vissum hvað það var sem fólki vantaði og hvað fólki langaði í. En íþróttamannvirki eru gríðarlega dýr. Eins og við höfum séð þar sem sveitarfélög eru að byggja til dæmis yfirbyggða gervigrasvelli. Þetta kostar hátt í tvo milljarða. Þetta er algjörlega ofviða af sveitarfélagi að þeirri stærðargráðu sem Hveragerði er. Þannig að við vorum að leita leiða hvernig við gætum bætt aðstöðuna. Þá fengum við ábendingu innan úr KSÍ um svona byggingu,“ segir Aldís um tilurð þess að Hveragerðisbær byggði loftborna Hamarshöll.

„Reyndist gríðarlega vel. Var mjög mikil lyftistöng fyrir íþróttalífið í Hveragerði,“ segir hún um Hamarshöllina.

„Við þurftum að gera eitthvað til að auka tímafjöldann. Í samfélögum í dag vill fólk fá einhverja fjölbreytni. Fólk vill iðka allskonar íþróttir. Við gátum boðið það með þessu húsi sem kostaði brotabrot af því sem tilsvarandi hús hefði kostað úr öðruvísi efnum,“ segir hún.

Fyrst kvenna kjörin formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Aldís var kjörin formaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga árið 2018. Hún var fyrsta konan sem var kjörin formaður sambandsins.

„Það er nú eins og með margt í manns lífi. Ætli það séu ekki mest megnis einhverjar tilviljanir sem gera að verkum að maður lendir þar sem maður lendir. Ég var auðvitað búin að vera mjög lengi í stjórn sambandsins. Þegar kom að þessum kosningum, þegar Halldór Halldórsson hætti, þá var hreinlega skorað á mig að bjóða mig fram. Ætli það hafi ekki bara verið það að fólk horfði á hverjir hefðu reynslu af því að vera í stjórninni. Ég ákvað að taka þeirri áskorun, bauð mig fram og hlaut kosningu. Var afskaplega ánægð með það,“ segir hún um aðdragandann að því að hún bauð sig fram.

Verður sveitarstjóri Hrunamannahrepps 2022

„Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt. Ég er alin upp í Hveragerði. Þegar við flytjum í Hveragerði fjölskyldan, ég er rétt rúmlega 1 árs, ætli það hafi ekki búið um 600 manns þar. Maður labbaði út á garðyrkjustöð og gat fengið gallaðar gúrkur. Farið í haugana fyrir utan rósastöðina. Týnt ónýtar rósir og gefið mömmu á kvöldin. Það voru lömb í húsagörðum og hestar í bílskúrum. Þetta var svona krúttlegt sveitaþorp. Nú mega Hrunamenn ekki móðgast þegar ég segi þetta – mér fannst ég pínulítið vera komin aftur í þetta. Þegar ég kem að Flúðum banka ég á hurðina hjá rósabóndanum og hann stekkur út um næstu hurð og selur mér rósir í fötu. Ég get farið í litlu bændabúðina og þar er annar flokkur af gúrkum. Svo er þetta svo samheldið samfélag. Ég er búin að vera að stúdera þetta og velta þessu fyrir mér hvað það er sem gerir Hrunamenn svona sérstaka – af því að það er svo gaman þarna,“ segir hún um viðbrigðin við að fara úr starfi bæjarstjóra Hveragerðisbæjar í starf sveitarstjóra Hrunamannahrepps.

„Við síðustu kosningar fékk listi sjálfstæðismanna hreinan meirihluta. Mig langar að segja að þetta sé besta kosning flokksins á landsvísu í síðustu kosningum. Það eru forréttindi að fá að starfa með þessum hópi og sveitarstjórninni allri, ég vil ekki undanskilja neinn þar. Það verður að segja sveitarstjórninni það til hróss að þau vinna svo vel saman,“ segir hún um starfið sem sveitarstjóri.

Mikilvægt að hafa bakland

„Það er dýrmætt fyrir fólk alveg sama hver flokkurinn er eða hvert baklandið er, að eiga bakland. Mér hefur þótt það mjög gott í gegnum tíðina að tilheyra Sjálfstæðisflokknum, tilheyra þessum félagsskap fólks sem ég hef átt mjög mikið saman að sælda við í öll þessi ár. Ég er ekkert alltaf sammála – en það er kannski hægt að orða þetta þannig að ég held að það sé mannlegt að vilja tilheyra, hvort sem þú tilheyrir í sveitarfélaginu þínu, tilheyrir fjölskyldu eða  þú tilheyrir einhverjum flokki,“ segir hún varðandi flokkspólitíska lista í kjöri til sveitarstjórnar.

„Ég sé alveg, af því að ég hef alveg fylgst með stjórnmálum í mjög langan tíma og sveitarstjórnarmálum sérstaklega, að það skiptir svo miklu máli bara það að hafa þennan ramma – þó það sé ekkert annað. Að hafa ramma utan um félagsstarfið og flokksstarfið í viðkomandi sveitarfélagi. Það er alveg góðra gjalda vert þegar fólk kemur saman á listum eða í óhlutbundnum kosningum en þá er ekkert bakland. Það er ekki að neinum að halla sér þegar eitthvað er sem maður þarf að sækja í. Það vantar þennan grunn. Mér hefur þótt það dýrmætt,“ segir hún.

Þeir sem hyggja þá þátttöku þurfa að sýna áhuga

„Ég myndi segja að fólk verður að byrja að gera sig gildandi. Sýna áhuga, mæta. Það sem mér finnst vanta núna er almenn samfélagslega þátttaka. Ég er að sjá svo mikinn mun bara þegar er verið að kalla eftir sjálfboðaliðum. Það er plokkdagur, gróðursetning og allskonar. Fólk þarf að láta sig samfélagið varða með einum eða öðrum hætti. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í sveitarstjórnarmálum þá verður þú að hafa áhuga á samfélaginu. Það sýniru ekki þremur mánuðum fyrir kjördag fyrst,“ segir Aldís aðspurð að því hvaða ráð hún myndi gefa fólki sem hefur áhuga á að gefa kost á sér í sveitarstjórnarmálin.

Það gerir enginn neitt einn

„Ég er stolt af mjög mörgu. Ég er mjög stolt af að við skyldum hafa verið í fararbroddi hvað varðar fráveitumál. Við vorum líka eitt af fyrstu sveitarfélögunum til að fara í það sem maður kallar raunverulega flokkun lífræns úrgangs. Þegar við settum upp dagdvöl aldraðra, frístundamálin í Hveragerði þegar þeim var komið í betra horf. Svo er ég afskaplega stolt af því sem er að gerast upp í Hrunamannahreppi. Fyrst og síðast er ég stoltust af fjölskyldu minni fyrir að umbera þetta stjórnmálavafstur mitt í öll þessi ár. Það er líka eitt það gerir enginn neitt einn. Ég hef verið svo ótrúlega lánssöm með að hann Lárus minn er svo skilningsríkur og finnst svo gaman af fólki. Svo hafa þau sem ég hef unnið með í gegnum tíðina verið alveg stórkostlegt fólk,“ segir Aldís spurð að því hverju hún sé stoltust af á sínum ferli.

Viðtalið á Spotify má finna hér.