Einskonar uppgjör við þinglok

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Það er hægt að gera upp þing­vet­ur­inn með ýms­um hætti en 154. lög­gjaf­arþingi var frestað aðfaranótt síðasta sunnu­dags. Upp­gjörið er mis­mun­andi eft­ir því hver það ger­ir. Marg­ir stjórn­arþing­menn benda sjálfsagt á fjölda mála, á meðan aðrir telja að þingið hafi frem­ur mark­ast af átök­um en ár­angri. Svo eru þeir sem benda á að tvær rík­is­stjórn­ir – rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur og rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­son­ar – hafi setið að völd­um á liðnum þing­vetri.

Í sam­an­tekt skrif­stofu Alþing­is kem­ur fram að 112 frum­vörp voru samþykkt sem lög og 22 til­lög­ur urðu að álykt­un­um. Alls voru 35 skrif­leg­ar skýrsl­ur lagðar fram og 25 beiðnir um skýrsl­ur. Fyr­ir­spurn­ir til munn­legs svars voru 90 og var 58 svarað. Skrif­leg­ar fyr­ir­spurn­ir voru hvorki fleiri né færri en 625 og var 361 þeirra svarað. Yfir 260 skrif­leg­ar fyr­ir­spurn­ir biðu svars er þingi var frestað. Þing­menn virðast því for­vitn­ari en aðrir lands­menn.

Töl­fræði af þessu tagi skipt­ir lík­lega litlu í hug­um kjós­enda fyr­ir utan fjölda frum­varpa sem samþykkt voru sem lög. Alls voru 1.213 þing­mál til meðferðar og var fjöldi þingskjala 2.060.

Málglaðir þing­menn

Eins og áður voru þing­menn mis­jafn­lega málglaðir. Nýr ræðukóng­ur var krýnd­ur; Eyj­ólf­ur Ármanns­son, þingmaður Flokks fólks­ins, sem náði titl­in­um af pírat­an­um Birni Leví Gunn­ars­syni og það nokkuð ör­ugg­lega. Eyj­ólf­ur talaði í einn sól­ar­hring og átta klukku­tím­um og sex­tán mín­út­um bet­ur. Flokk­ur fólks­ins er hreyk­inn af sínu fólki. Á Face­book-síðu flokks­ins er sér­stök at­hygli vak­in á ræðukóng­in­um og að Inga Sæ­land hafi verið ræðudrottn­ing. Hún hafi talað oft­ar og leng­ur en for­menn annarra stjórn­mála­flokka. Í þeirri keppni hafði Inga mikla yf­ir­burði. Mæli­kv­arðarn­ir á ár­ang­ur eru þannig mis­jafn­ir.

Tíu málglöðustu þing­menn­irn­ir komu all­ir úr röðum stjórn­ar­and­stöðunn­ar. Þrír frá Flokki fólks­ins, fjór­ir frá Pír­öt­um, einn frá Miðflokkn­um og tveir úr Viðreisn. Alls töluðu þess­ir tíu þing­menn í liðlega 182 klukku­stund­ir eða í rúm­lega sjö og hálf­an sól­ar­hring. Stjórn­ar­and­stæðing­arn­ir tíu komu alls 3.353 sinn­um í ræðustól þings­ins.

Liðinn þing­vet­ur var vet­ur­inn þegar lagðar voru fram fjór­ar van­traust­stil­lög­ur, en tvær voru dregn­ar til baka. Hægt og bít­andi er grafið und­an til­lög­um um van­traust. Þær breyt­ast í einskon­ar mál­fundaæf­ing­ar fyr­ir stjórn og stjórn­ar­and­stöðu. Hér á hið sama við og um úlf­inn!

Klofn­ing­ur og autt blað

Eins og ég hef margít­rekað er ég ekki hrif­inn af „af­kasta­miklu“ þingi. Í mín­um huga er magn ekki sama og gæði. En ég verð að viður­kenna að fjöldi góðra mála var af­greidd­ur á síðustu dög­um þings­ins (og nokk­ur miður góð). Að þessu leyti rætt­ist hressi­lega úr þing­vetr­in­um.

Breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­un­um eru þýðing­ar­mikl­ar. Lof­orð Bjarna Bene­dikts­son­ar, þegar hann tók við for­sæt­is­ráðuneyt­inu, um að tek­in yrði stjórn á landa­mær­un­um, gekk eft­ir. Sam­fylk­ing­in skilaði hins veg­ar auðu. Aug­ljóst er að flokk­ur­inn er þverklof­inn. Djúp­stæður ágrein­ing­ur inn­an og utan þing­flokks­ins hef­ur þannig gert Sam­fylk­ing­una áhrifa­lausa í mál­efn­um flótta­manna og mark­lausa þegar kem­ur að því að glíma við erfið og viðkvæm mál. Viðreisn fetaði í fót­spor Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Þing­menn flokks­ins sátu hjá.

Það var ánægju­legt að þing­menn skyldu sam­ein­ast um breyt­ing­ar á lög­reglu­lög­un­um fyr­ir utan Pírata sem hafa bar­ist gegn aukn­um heim­ild­um lög­regl­unn­ar í aðgerðum gegn skipu­lagðri glæp­a­starf­semi og tryggja þar með bet­ur ör­yggi borg­ar­anna. Netás­ás á Árvak­ur, út­gáfu­fé­lag Morg­un­blaðsins, und­ir­strik­ar mik­il­vægi þess að samþykkja aukn­ar heim­ild­ir lög­regl­unn­ar til af­brota­varna.

Fyr­ir unga for­eldra skipt­ir miklu að greiðslur í fæðing­ar­or­lofi hafi loks verið hækkaðar.

Hag­ur ör­yrkja og stór­yrði

Flest­ir þing­menn voru sam­stiga um viðamikl­ar breyt­ing­ar á trygg­inga­kerfi ör­yrkja sem mun bæta hag ör­yrkja með já­kvæðum hvöt­um. Flokk­ur fólks­ins ákvað að styðja ekki breyt­ing­arn­ar. Inga Sæ­land var stór­yrt, eins og oft áður, í sam­tali við mbl.is: „Okk­ur þykir þetta hrein og klár aðför að ör­yrkj­um.“

Dóm­ur Ingu vek­ur furðu. Bergþór Heim­ir Þórðar­son, vara­formaður Öryrkja­banda­lags­ins [ÖBÍ], sagði í viðtali við Rík­is­út­varpið að breytt lög mörkuðu þátta­skil. Á heimasíðu ÖBÍ seg­ir að breyt­ing­arn­ar hafi mikla þýðingu fyr­ir ör­orku- og end­ur­hæf­ing­ar­líf­eyr­istaka: „ÖBÍ fagn­ar þess­um mik­il­vægu áföng­um.“

Tveggja manna þing­flokk­ur Miðflokks­ins klofnaði í af­stöðu til kvóta­setn­ing­ar grá­sleppu. Viðreisn sat hjá. Sam­fylk­ing var á móti líkt og Pírat­ar og Flokk­ur fólks­ins.

Líkt og í grá­slepp­unni skilaði Viðreisn auðu þegar kom að heim­ild til að selja hlut rík­is­sjóðs í Íslands­banka, en Sam­fylk­ing var á móti – í liði með Pír­öt­um og Flokki fólks­ins.

Mér var ókleift að styðja breyt­ing­ar á húsa­leigu­lög­um þrátt fyr­ir nokkr­ar breyt­ing­ar sem voru mjög til bóta. Allt frá upp­hafi hef ég varað al­var­lega við laga­setn­ing­unni enda ótt­ast ég að af­leiðing­ar laga­setn­ing­ar­inn­ar verði nei­kvæðar og að staða leigj­enda versni en batni ekki, líkt og er yf­ir­lýst mark­mið. Miðflokk­ur­inn sat hjá af sömu ástæðum. Þing­menn Viðreisn­ar skiluðu einnig auðu en af allt öðrum ástæðum. Viðreisn vill alls­herj­ar-skrán­ing­ar­skyldu á alla einka­rétt­ar­lega leigu­samn­inga og að komið verði á leigu­bremsu. (Um slík­ar hug­mynd­ir hef ég skrifað á þess­um stað. Meira að segja vinst­ris­innaðir hag­fræðing­ar eru sann­færðir um að leigu­bremsa eða leiguþak séu skil­virk­asta leiðin til að eyðileggja borg­ir fyr­ir utan loft­árás­ir.) Það kann að vera skilj­an­legt að Viðreisn geti ekki viður­kennt að vandi á hús­næðismarkaðinum er ekki húsa­leigu­lög – held­ur skort­ur á hús­næði. Skort­ur­inn er heima­til­búið vanda­mál sem hef­ur ekki síst verið hannað af póli­tísk­um arki­tekt­um í Ráðhúsi Reykja­vík­ur; Sam­fylk­ingu, Viðreisn og Pír­öt­um, sem Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ákvað að ganga til liðs við.

Sam­ein­ing stofn­ana á sviði um­hverf­is- og orku­mála mun skipta miklu á kom­andi árum. Fá verk­efni eru mik­il­væg­ari en að tryggja aukna græna orku­fram­leiðslu og þar leik­ur ný Um­hverf­is- og orku­stofn­un lyk­il­hlut­verk. Með sama hætti eiga ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki og frum­kvöðlar eft­ir að njóta sam­ein­ing­ar tveggja fjár­fest­ing­ar­sjóða í einn öfl­ug­an sjóð; Ný­sköp­un­ar­sjóðinn Kríu.

Það er ánægju­legt að taka þátt í því að fækka stofn­un­um rík­is­ins. Ég hef aldrei litið á það sem hlut­verk mitt á þingi að koma nýj­um rík­is­stofn­un­um á fót. Þess vegna gat ég ekki stutt frum­varp um Mann­rétt­inda­stofn­un. Verk­efn­in er hægt að leysa með öðrum og skil­virk­ari hætti.

Þegar litið er til baka get ég ekki kom­ist að ann­arri niður­stöðu en að þrátt fyr­ir allt hafi ræst tölu­vert úr þing­vetr­in­um á loka­sprett­in­um. Stjórn­ar­andstaðan er helst óánægð með að af­greiðslu sam­göngu­áætlun­ar hafi verið frestað fram á næsta haust. Fátt lýs­ir stjórn­ar­and­stöðunni bet­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2024.