Góð uppskera við þinglok

Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Þing­vet­ur­inn sem lauk aðfaranótt sunnu­dags var í senn viðburðarík­ur og af­kasta­mik­ill. Elds­um­brot á Reykja­nesi settu einna mest­an svip á þing­störf og samþykkti Alþingi fjöl­marg­ar stuðningsaðgerðir við fólk og fyr­ir­tæki vegna ástands­ins í Grinda­vík. Stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur verið og verður áfram að tryggja ör­yggi fólks og fyr­ir­sjá­an­leika fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki í Grinda­vík eft­ir fremsta megni. Síðastliðið ár hef­ur enn og aft­ur minnt okk­ur á að nátt­úr­an ræður hérna á Íslandi.

Á vor­mánuðum náðust lang­tíma­kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði. Stöðug­leiki á vinnu­markaði er hag­ur þjóðar­inn­ar allr­ar. Á meðal aðgerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar til stuðnings kjara­samn­ing­um var hækk­un há­marks­greiðslna úr fæðing­ar­or­lofs­sjóði, sem að frum­kvæði Sjálf­stæðis­flokks­ins mun ná til allra þeirra sem eiga rétt á greiðslum vegna fæðing­ar­or­lofs. Á næstu þrem­ur árum verða há­marks­greiðslur úr fæðing­ar­or­lofs­sjóði þannig hækkaðar um helm­ing. Um er að ræða mik­il­vægt mál sem er til þess fallið að styðja við nýja for­eldra og stuðla að auk­inni fæðing­artíðni sem hef­ur aldrei verið lægri á Íslandi.

End­ur­nýjaðar áhersl­ur

Rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir sam­einuðust um til­tek­in for­gangs­mál í apríl þegar Bjarni Bene­dikts­son formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins tók við embætti for­sæt­is­ráðherra. Um­rædd for­gangs­mál voru einkum að ná sam­an um skil­virk­ari út­lend­inga­lög­gjöf, græna orku­öfl­un og ná tök­um á vöxt­um og verðbólgu með ábyrgri efna­hags­stjórn. Það var því sér­stak­lega ánægju­legt þegar ný út­lend­inga­lög­gjöf var samþykkt á Alþingi í júní. Ný út­lend­inga­lög munu auka skil­virkni í kerf­inu, stytta málsmeðferðar­tíma um­sækj­enda um alþjóðlega vernd og eru til þess fall­in að fækka um­sókn­um um vernd hér á landi, sér í lagi meðal þeirra sem þegar hafa fengið hæli í ör­uggu landi. Kostnaður vegna mála­flokks­ins hef­ur auk­ist gíf­ur­lega á síðustu árum og álagið á fé­lags­lega innviði hef­ur verið of mikið. Samþykkt nýrr­ar út­lend­inga­lög­gjaf­ar er mótsvar við því ástandi sem skap­ast hef­ur og afrakst­ur ára­langr­ar bar­áttu Sjálf­stæðis­flokks­ins fyr­ir skil­virk­ari stjórn á mála­flokkn­um.

Sam­hliða samþykkt nýrra út­lend­ingalaga eru lík­ur á því að ár­sverðbólga fari niður fyr­ir 6% í júní­mánuði. Það er því til­efni til að vera bjart­sýn á vaxta­lækk­an­ir á haust­mánuðum sem heim­il­in í land­inu munu njóta góðs af. Það er ánægju­legt og hags­muna­mál allra að staða efna­hags­mála á Íslandi er áfram góð á alla helstu mæli­kv­arða. Kaup­mátt­ur er mik­ill, laun eru há og þjóðfé­lags­leg­ur jöfnuður er einna mest­ur hér á landi. Það er verk að vinna að stuðla að áfram­hald­andi lækk­un verðbólgu og þar mun­um við í Sjálf­stæðis­flokkn­um áfram tala fyr­ir ábyrgri for­gangs­röðun út­gjalda í stað hærri skatta á fólk og fyr­ir­tæki. Okk­ar stef er og verður alltaf að skatta­hækk­an­ir séu aldrei eina rétta svarið eins og öðrum flokk­um verður tíðrætt um.

Mál­in segja sög­una

Á meðal annarra mála sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur lagt áherslu á eru ný lög­reglu­lög sem veita lög­reglu til­tekn­ar og skil­yrt­ar heim­ild­ir í breytt­um og harðnandi heimi til eft­ir­lits með ein­stak­ling­um vegna gruns um skipu­lagða brot­a­starf­semi eða ógn við ör­yggi rík­is­ins, lög um heim­ild til sölu á eign­ar­hluta rík­is­ins í Íslands­banka, sam­ein­ing stofn­ana á sviði um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­mála til að auka meðal ann­ars skil­virkni í leyf­is­veit­ing­um, lang­tímastuðning­ur við Úkraínu vegna inn­rás­ar Rúss­lands og loks veiga­mik­il og tíma­bær end­ur­skoðun á ör­orku­kerf­inu. Það er af mörgu að taka – mál­in hafa verið mörg og fjöl­breytt og taka mið af marg­breyti­leika sam­fé­lags­ins.

Nýtt ár­ang­ur­s­tengt fjár­mögn­un­ar­lík­an há­skól­anna var þannig kynnt, tveir ný­sköp­un­ar­sjóðir voru sam­einaðir í einn und­ir hatti Kríu og kvóta­setn­ingu á grá­sleppu varð loks komið á. Hús­næðis­bæt­ur og barna­bæt­ur voru hækkaðar veru­lega ásamt því að dregið var úr tekju­skerðing­um svo fleiri fjöl­skyld­ur fái notið stuðnings í formi barna­bóta. Við fylgd­um for­dæmi ríkja Evr­ópu með stofn­un Mann­rétt­inda­stofn­un­ar og stóðum þar við alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar sem við und­ir­geng­umst árið 2016 um rétt­indi fatlaðs fólks. Fjár­fest­inga­heim­ild­ir líf­eyr­is­sjóðanna til að fjár­festa í fyr­ir­tækj­um á leigu­markaði voru aukn­ar og lista­manna­laun voru hækkuð í fyrsta sinn í 15 ár án nýrra út­gjalda á mál­efna­sviðinu. Þá var það ákaf­lega ánægju­legt að all­ir þing­menn allra flokka á Alþingi sam­einuðust um for­dæm­ingu á átök­un­um fyr­ir botni Miðjarðar­hafs.

Á skömm­um tíma hef­ur rík­is­stjórn­in, nú und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins, sýnt að hún læt­ur verk­in tala. Við höf­um sýnt ábyrgð í verki og orði, sýnt yf­ir­veg­un í okk­ar mál­flutn­ingi og fylgt okk­ar mál­um úr hlaði af festu. Það dug­ar nefni­lega skammt að koma fram með lof­orð um gull og græna skóga án þess að nokk­ur inni­stæða sé fyr­ir þeim. Árang­ur kost­ar auðvitað mála­miðlan­ir á milli þriggja ólíkra flokka, en þegar upp er staðið er það starf okk­ar stjórn­mála­manna sem vilja taka hlut­verk sitt al­var­lega að axla þá ábyrgð. Verk­efnið er ein­fald­lega að standa vörð um hags­muni þjóðar­inn­ar allr­ar nú og til framtíðar. Það hlut­verk okk­ar höf­um við leyst af hendi á liðnum þing­vetri.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. júní 2024.