Fjölskylduparadís Samfylkingarinnar í Reykjavík?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Um þessar mundir heyrast háværar raddir fjölskyldufólks sem telja samfélagið okkar ekki endurspegla veruleika þar sem flestir foreldrar eru útivinnandi. Aðstæður þessa hóps séu síst hvetjandi til fólksfjölgunar. Þar fara umkvartanir foreldra vegna mikils skorts á dagvistunarúrræðum langhæst. Þótt löggjafinn hafi tekið af skarið nýlega og lengt lögbundinn rétt foreldra til fæðingarorlofs úr samtals níu mánuðum í tólf, hefur framlag sveitarfélaga verið æði misjafnt.

Þannig er meðalaldur barna í Reykjavík við inntöku á leikskóla sá hæsti á höfuðborgarsvæðinu. Það er í hróplegu ósamræmi við þá staðreynd að börnum á leikskólaaldri hefur fækkað umtalsvert í Reykjavík á undanförnum áratug. Á sama tíma hefur börnum fjölgað í nágrannasveitarfélögunum. Fjölskyldufólk virðist, skiljanlega, velja búsetu utan Reykjavíkurborgar. Þrátt fyrir það eykst dagvistunarvandinn í Reykjavík.

Það er því grátbroslegt að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýna að fæðingarorlofsgreiðslur muni ekki hækka nógu hratt eftir að Alþingi samþykkti nú umtalsverða hækkun þeirra. Samfylkingunni þykir ríkisstjórnin og meirihluti Alþingi ekki byggja hér upp nógu barnvænt samfélag. Margur heldur mig sig.

Það er gott að langþreyttir foreldrar láti í sér heyra og haldi okkur stjórnmálamönnunum við efnið. Og þótt mikilvæg skref hafi verið stigin má áfram gera betur. Það væri hins vegar óskandi að Samfylkingin, sem hefur stýrt Reykjavíkurborg næstum óslitið í 30 ár, myndi hlusta. Langstærsta áhyggjuefni ungbarnaforeldra snúa enda að dagvistunarmálum. Og það er ekki á dagskrá að setja á fót ríkisleikskóla Íslands í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á Vísi 23. júní 2024