Skollaleikur með skólastarf

Marta Guðjónsdóttir og Helgi Áss Grétarsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur:

Eftir áralanga vanrækslu skólanna þriggja í  Laugardalnum, mótmæli foreldra og skólafólks og fjölmenna undirskriftasöfnun, ákváðu borgaryfirvöld, haustið 2022, að verða við óskum skólasamfélagsins þar, um að byggja við þessa þrjá skóla, í stað fyrri hugmynda um að reisa nýjan og fjölmennan safnskóla unglingadeilda. Borgaryfirvöld stærðu sig þá af íbúalýðræði sínu og kölluðu þessa sátt „þverpólitískt samráð við hagaðila, stjórnendur, starfsmenn, foreldra og börn.“

Íbúarnir sviknir

Nú hafa þessi sömu borgaryfirvöld svikið samkomulagið – og reyndar gott betur: Nú á ekki að reisa einn stóran safnskóla fyrir unglingadeildir Lauganesskóla, Laugarlækjarskóla  og Langholtsskóla, heldur afar fjölmennan unglingaskóla, með því að bæta við unglingum úr Álftamýrarskóla, Vogaskóla og af þéttingarsvæðum á Orkureit og í Skeifunni. Gert er ráð fyrir að eftir nokkur ár verði um þúsund nemendur í þessum safnskóla, en skólahverfi hans mun þá líklega ná frá gatnamótum Kringlumýrar- og Miklubrautar og inn með Sundum.

Furðulegur „forsendubrestur“

Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur reynt að réttlæta svikin við íbúana með tilvísun í forsendubrest. Það er yfirklór þar eð skýrsla síðasta starfshópsins sem fjallaði um málefni Laugardalsskólanna hefur lítt opinberað sem ekki hefur áður komið fram í mörgum skýrslum um sama málefni. Þvert á móti skautar hún fram hjá mikilvægum markmiðum í skólastarfi og skipulagi.  Niðurstaða hennar stuðlar að því að brjóta upp áratuga skólastarf og raska farsællri skólamenningu þriggja grunnskóla. Þess fyrir utan er hún til þess falinn að vinna gegn skipulagsmarkmiðum um sjálfbær hverfi enda munu margir nemendur þurfa að ganga lengur til skóla sem er til þess fallið að draga úr slíkum ferðamáta og auka bílaumferð.

Ólíðandi vinnubrögð

Eitt er að ganga á bak orða sinna, annað að reyna að réttlæta það. En þriðja hliðin á þessum skollaleik er svo vinnubrögðin. Í kjölfar sátta við íbúana samþykkti borgarráð og borgrstjórn, í október 2022, að byggt yrði við skólana í Laugardalnum. Í kjölfarið var svo stofnaður enn einn starfshópurinn. Hann fékk skýrt erindisbréf um það eina hlutverk sitt að skipuleggja þær framkvæmdir sem borgarstjórn hafði samþykkt. En í stað þess að sinna þeim fyrirmælum, gerði hann að engu lýðræðislega samþykkt borgarstjórnar og kúventi málinu, fullkomlega umboðslaus. Þetta þykir meirihluta borgarstjórnar sjálfsögð stjórnsýsla.

Lengi getur svo vont versnað. Þessi  starfshópur embættismanna skilaði skýrslu um kúvendinguna þann 23. nóvember 2023.  Þá var henni stungið ofan í skúffu og haldið leyndri fram til 10. maí nú í vor. Þá fyrst fengu fulltrúar minnihlutans í skóla- og frístundaráði aðgang að efni hennar og fjórum dögum síðar var hún gerð opinber.

Misvísandi svör 

Formaður skóla- og frístundaráðs, sem er borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur ítrekað verið spurð að því hvenær hún fékk aðgang að skýrslunni og hvers vegna henni var haldið leyndri í tæpt hálf ár. Svörin hafa verið óljós og misvísandi.  Á fundi íbúaráðs Laugardals þann 29. maí reyndi hún að fá fólk til að trúa því að borgarstjóraskipti í janúar hefðu tafið birtingu skýrslunnar. Á borgarstjórnarfundi þann 11. júní sl. gaf hún í skyn að hún hefði ekki vitað af skýrslunni fyrr en í maíbyrjun en þegar gengið var á hana var helst á henni að skilja að hún hafi vitað af niðurstöðu skýrslunnar er hún kom út. Svör embættismanna við sömu spurningu eru engu skýrari en véfréttir. Ekkert þeirra virðist treysta sér til að svara þessum tveimur spurningum á skilmerkilegan og heiðarlegan hátt.

Nú má vel vera að þetta góða fólk trúi því að það hafi valið réttu leiðina. En það breytir ekki þeirri staðreynd að skollaleikurinn með skólana í Laugardalnum afhjúpar ólíðandi stjórnsýslu og lítilsvirðingu gagnvart íbúunum þar, borgarfulltrúum og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. júní 2024