Mikilvægt skref í útlendingamálum

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:

Sam­fé­lag okk­ar er byggt á gild­um sem við þurf­um að vernda. Það er byggt á stoðum lýðræðis, jafn­rétt­is og rétt­læt­is og við höf­um frá alda öðli lifað eft­ir því að með lög­um skal land byggja og ólög­um eyða. Um þetta get­um við öll sam­mælst. Við í Sjálf­stæðis­flokkn­um höf­um staðið vörð um frelsi ein­stak­lings­ins, borg­ara­leg gildi og rétt­ar­ríkið. Lög­un­um er ætlað að hafa vald og slíku valdi get­ur fylgt hætta, eins og margsagt er frá fornu fari. Valdi lag­anna er unnt að beita af geðþótta en með rétt­ar­rík­inu er dregið úr þeirri hættu. Þess vegna er rík­is­valdið bundið og háð lög­um en það á einnig við um ein­stak­linga sem eiga að hlýða rétt­in­um. Við get­um ekki látið geðþótta ráða því hvenær ís­lensk lög gilda og hvenær ekki. Það er mik­il­vægt að hafa í huga að þeir sem heimta al­veg sér­staka málsmeðferð, á svig við lög og regl­ur, gera það ekki í nafni góðmennsku held­ur mis­rétt­is.

Það mikla álag sem hef­ur verið á innviði okk­ar und­an­far­in ár er meira en þeir þola. Það á ekki að vera feimn­is­mál að benda á þá staðreynd að 400 þúsund manna sam­fé­lag get­ur ekki tak­marka­laust opnað faðm sinn fyr­ir öll­um þeim fjölda fólks sem hingað leit­ar. Við vilj­um gera vel, en það get­ur eng­inn stjórn­mála­flokk­ur fært hald­bær rök fyr­ir því að eitt fá­menn­asta ríki í Evr­ópu hafi veik­asta reglu­verkið þegar kem­ur að út­lend­ing­um. Það er risa­vax­in áskor­un fyr­ir fá­menna þjóð þegar fjöldi um­sækj­enda um alþjóðlega vernd hef­ur auk­ist um 3.700% á rétt rúm­um ára­tug eins og raun ber vitni.

Þrátt fyr­ir þetta er því enn haldið fram að þessi mikli fjöldi sé ekk­ert sér­stak­lega mik­ill og jafn­vel hóf­leg­ur – ef dregn­ir eru frá um­sækj­end­ur frá Venesúela og Úkraínu, sem eru tveir stærstu þjóðern­is­hóp­arn­ir meðal um­sækj­enda. Svona mál­flutn­ing­ur er til þess fall­inn að slá ryki í augu fólks. Í raun­veru­leik­an­um breyta leik­ir að töl­um ekki staðreynd­um.

Og staðreynd­in er að Ísland fær hlut­falls­lega lang­flest­ar um­sókn­ir Evr­ópu­ríkja enda er flótta­manna­straum­ur­inn eins og vatn sem finn­ur sér far­veg og renn­ur þangað sem stærstu gluf­urn­ar finn­ast og veik­asta reglu­verkið.

Töl­fræðin sýn­ir hins veg­ar að við erum að ná stjórn á mála­flokkn­um, með þeim mál­um sem við leggj­um fram á þing­inu og með því hvernig við töl­um út á við. Um­sókn­um um alþjóðlega vernd hef­ur fækkað um nær 60% á þessu ári frá sama tíma­bili í fyrra.

Sá gríðarlegi fjöldi sem sótt hef­ur hingað síðastliðin ár hef­ur skapað áskor­an­ir fyr­ir okk­ur sem sam­fé­lag og kerf­in okk­ar. Málsmeðferðar­tíma þarf að stytta um­tals­vert og við þurf­um að ná aukn­um ár­angri í brott­flutn­ingi þeirra sem hafa fengið synj­un um vernd og ber þar af leiðandi að yf­ir­gefa landið.

Það er sjálf­sögð og eðli­leg lág­marks­krafa að þeir sem dvelja hér á landi, hvort sem um er að ræða Íslend­inga eða aðra, fari eft­ir ís­lensk­um lög­um. Þess vegna segi ég skýrt að það er mín skoðun að ef flóttamaður ger­ist upp­vís að al­var­leg­um glæp á Íslandi á að svipta hann dval­ar­leyfi. Það er frum­skylda mín sem ráðherra og stjórn­valda að tryggja ör­yggi borg­ara í þessu landi og vil ég því setja sam­bæri­legt ákvæði í ís­lensk lög og finna má ann­ars staðar á Norður­lönd­um hvað þetta varðar. Það mun verða eitt helsta áherslu­atriði frum­varps um frek­ari breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um sem ég hyggst leggja fram í haust.

Ísland er meðal helstu vel­ferðarríkja heims­ins en það er ekki hægt að tryggja og viðhalda vel­ferð nema að hafa stjórn á þeim fjölda sem til lands­ins kem­ur. Það er brýnt að við gæt­um þess að þau sem hér setj­ist að búi við sömu tæki­færi og við hin til vaxt­ar og far­sæld­ar. Í því sam­hengi er einna mik­il­væg­ast að fólk læri ís­lensku og taki virk­an þátt í sam­fé­lag­inu. Um þetta get­um við öll verið sam­mála.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur talað með ábyrg­um hætti og þorað að taka ákv­arðanir og sett mál á dag­skrá í þess­um mála­flokki. Sag­an sýn­ir að við höf­um ít­rekað lagt mál fyr­ir þingið og haft hug­rekki til þess að tala fyr­ir nauðsyn­leg­um breyt­ing­um og þjóðin get­ur treyst því að við mun­um gera það áfram.

Mál­efni út­lend­inga er viðkvæm­ur mála­flokk­ur sem ber að nálg­ast af virðingu. Hann þarfn­ast stöðugs end­ur­mats og end­ur­skoðunar. Það er eng­um bet­ur treyst­andi en Sjálf­stæðis­flokkn­um að leiða verk­efnið og ég mun hér eft­ir sem hingað til óhikað koma áhersl­um okk­ar í mála­flokkn­um til fram­kvæmda.

Ég fagna því að frum­varp mitt til breyt­inga á út­lend­inga­lög­um var samþykkt í gær. Um er að ræða eina veiga­mestu breyt­ingu á mála­flokkn­um frá upp­hafi. Ég hræðist ekki þá mik­il­vægu veg­ferð sem framund­an er og mun rísa und­ir ábyrgð við áfram­hald­andi um­bæt­ur í þess­um mála­flokki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2024.