Hvað hefur virkað og hvað má bæta?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Útflutn­ings­verðmæti í hug­verka- og tækni­geir­an­um hafa á síðastliðnum sjö árum auk­ist um 150 millj­arða króna. Sam­hliða því hef­ur starfs­fólki í grein­un­um fjölgað um nokk­ur þúsund.

Á þess­um tíma hef­ur ný­sköp­un­ar­um­hverfið tekið stakka­skipt­um, en þann ár­ang­ur má að miklu leyti rekja til þess stuðnings­um­hverf­is sem við höf­um lagt áherslu á að skapa.

Þar skipta mestu end­ur­greiðslur vegna rann­sókna og þró­un­ar, sem hef­ur verið eitt mik­il­væg­asta tæki stjórn­valda til að skapa sam­keppn­is­hæft um­hverfi fyr­ir ný­sköp­un og rann­sókn­ir.

Skatt­astuðning­ur vegna rann­sókna og þró­un­ar hef­ur hvetj­andi áhrif á fyr­ir­tæki til frek­ari fjár­fest­inga á því sviði. Þær fjár­fest­ing­ar hafa á síðustu árum fjölgað öfl­ug­um fyr­ir­tækj­um, skapað ný og fjöl­breytt störf og aukið hag­vöxt.

Frá því lög­in tóku gildi hafa verið gerðar á þeim mikl­ar breyt­ing­ar, sú stærsta að hækka end­ur­greiðslu­hlut­fallið upp í 35% hjá smærri fyr­ir­tækj­um en 25% hjá þeim stærri, en þó að há­marki 1,1 millj­arð króna.

Lagt er mat á þetta stuðnings­um­hverfi í ný­legri út­tekt OECD, sem unn­in var að beiðni tveggja ráðherra Sjálf­stæðis­flokks­ins. Þar kem­ur margt já­kvætt fram, en einnig eru lagðar fram til­lög­ur um hvað megi bet­ur fara.

Þær at­huga­semd­ir eru í takti við mark­mið okk­ar um að tryggja að efna­hags­leg áhrif styrkj­anna séu há­mörkuð og komið sé í veg fyr­ir mis­notk­un. Í út­tekt OECD er bent á að skort­ur sé á gögn­um og eft­ir­liti með ný­sköp­un­ar­styrkj­um og að einnig skorti gagn­sæi um viðtak­end­ur styrkj­anna.

Þess­um at­huga­semd­um tök­um við al­var­lega og við þeim verður brugðist. Tryggja þarf eft­ir­lit með fram­kvæmd­inni til að auka skil­virkni kerf­is­ins, gera stuðning­inn mark­viss­ari og draga úr kostnaði. Þá er stefnt að auknu sam­starfi ólíkra stofn­ana, Rannís og Skatts­ins, skerpt á hlut­verki þeirra og gengið úr skugga um að styrk­veit­ing­um sé út­hlutað með vand­virk­um og skil­virk­um hætti.

Stuðnings­kerfið við rann­sókn­ir og þróun hef­ur verið mikið heilla­spor fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og stuðlað að bætt­um lífs­kjör­um, fleiri og öfl­ugri fyr­ir­tækj­um og fjöl­breytt­ari störf­um.

Við þurf­um að standa vörð um það og tryggja að það sé rétt nýtt og að fjár­mun­ir nýt­ist sem best til að skapa áfram­hald­andi vöxt og ný­sköp­un.

Með því ýtum við und­ir fram­sækni og framþróun, við styðjum við at­vinnu­upp­bygg­ingu og auk­um veru­lega við sam­keppn­is­hæfni lands­ins.

Okk­ur verður tíðrætt um alla þessa hluti, en með fyrr­nefnd­um styrkj­um erum við að ýta þeim í fram­kvæmd.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júní 2024.