Úr hafinu til heimsins
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Sjómannadagurinn er sérstakur dagur í hjarta Íslendinga. Þann dag helgum við þeim sem vinna á sjó og minnumst þeirra sem hafa fært hina æðstu fórn við að tryggja okkur lífsviðurværi úr hafinu. Sjómannadagurinn er ekki bara hátíð heldur einnig áminning um mikilvægi sjávarútvegsins fyrir íslenskt samfélag og efnahag.

Þrátt fyrir sólarleysið naut ég þess að sækja hátíð hafsins heim í Reykjavík. Þar var fjölbreytt dagskrá, allt frá heiðrun sjómanna til skemmtidagskrár fyrir fjölskyldur. Það var gaman að sjá það stolt, samhug og virðingu sem þjóðin ber fyrir sjómönnum þessa lands og sjávarútveginum.

Íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær í fjárhagslegu og líffræðilegu tilliti og nýsköpun innan greinarinnar hefur leitt til betri nýtingar auðlindanna og lagt grunn að mörgum af öflugustu nýsköpunarfyrirtækjum landsins. Íslenskur sjávarútvegur hefur sýnt fram á það hvernig hægt er að nýta auðlindir hafsins með hagkvæmum og sjálfbærum hætti. Nýjar vörur eru unnar úr sjávarfangi, eins og snyrtivörur, bætiefni og plástrar. Með nýjustu tækni er hægt að vinna verðmætar vörur úr einhverju sem áður flokkaðist undir úrgang. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir efnahaginn heldur einnig fyrir umhverfið. Það er ótrúlegt hvað auðlindir hafsins geta þjónað fjölbreyttum þörfum samfélagsins, frá næringu til lækninga.

Sjálfbærni í sjávarútvegi er lykilatriði. Við Íslendingar höfum tekið þá stefnu að nýta auðlindir hafsins á þann hátt að þær haldist til framtíðar. Við fylgjum vísindalegum ráðleggingum við veiðar og stjórnun fiskistofna. Umhverfisáhrif eru lágmörkuð með nýrri tækni og betra vinnsluferli. Orkan er nýtt á hagkvæman hátt, við höfum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og hliðarafurðirnar eru sem fyrr segir nýttar vandlega. Á sama tíma höfum við borið gæfu til að velja okkur þá leið sem skilar okkur mestum ávinningi af auðlindinni en um leið náð að tryggja vel launuð störf við vinnslu, ólíkt helstu samkeppnisþjóðum okkar sem kjósa að flytja aflann óunninn til láglaunasvæða.

Með áframhaldandi nýsköpun getum við tryggt að sjávarútvegurinn verði áfram ein af stoðum íslensks efnahagslífs. Við verðum að halda áfram að fjárfesta í rannsóknum og þróun og stuðla að samstarfi milli fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnana og við verðum að tryggja það að greinin haldi áfram að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið

Sjómannadagurinn minnir okkur á mikilvægi verðmætasköpunar. Ég er stolt af því að tilheyra flokki sem stendur með verðmætasköpun og vill þannig tryggja frekari hagsæld hér á landi. Okkur hefur tekist að skapa traust rekstrarumhverfi sem getur af sér enn sterkari og sjálfbærari sjávarútveg til framtíðar. Að öllu óbreyttu er framtíðin í íslenskum sjávarútvegi því björt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júní 2024.