Máttur húmorsins í hugmyndabaráttunni

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Ronald Reag­an Banda­ríkja­for­seti hélt sér­stak­lega mikið upp á skop­sög­ur frá Sov­ét­ríkj­un­um sál­ugu, þar sem stjórn­kerfi komm­ún­ista­flokks­ins var haft að háði og spotti. Reag­an gerði sér alltaf grein fyr­ir áhrifa­mætti húm­ors­ins í póli­tískri hug­mynda­bar­áttu – bar­áttu frels­is gegn ófrelsi, átök­um hins góða við hið illa. Vla­dimír Bú­kovskí, einn þekkt­asti and­ófsmaður Sov­ét­ríkj­anna, sagði í blaðaviðtali skömmu áður en hann lést árið 2019, að í hvert sinn sem hann hefði hitt for­set­ann hefði hann alltaf spurt: „Ertu með ein­hverja nýja brand­ara?“

Saga um mann­inn sem stóð í biðröð á bíla­sölu í Moskvu var í sér­stöku upp­á­haldi hjá Reag­an. Þegar loks kom að mann­in­um rétti hann sölu­mann­in­um um­slag troðfullt af pen­ing­um til að greiða fyr­ir bíl­inn.

„Takk fyr­ir, fé­lagi,“ sagði sölumaður­inn. „Þú get­ur komið eft­ir tíu ár til að ná í nýja bíl­inn.“

Kaup­and­inn spurði bros­andi: „Fyr­ir eða eft­ir há­degi?“

„Hvaða máli skipt­ir það?“

„Jú sjáðu til, píp­ar­inn ætl­ar að koma fyr­ir há­degi.“

Bú­kovskí, sem var 12 ár í sov­éska Gúlag­inu, á sjálf­ur sinn upp­á­halds­brand­ara. Leoníd Brés­nef, sem var aðal­rit­ari komm­ún­ista­flokks Sov­ét­ríkj­anna 1964 til 1982, var aldrei tal­inn vera skarp­asti hníf­ur­inn í skúff­unni. Snemma á fal­leg­um sum­armorgni fer Brés­nef út á sval­ir og horf­ir til him­ins þar sem sól­in skín: „Góðan dag­inn, sól!“

Sól­in seg­ir: „Góðan dag­inn, fé­lagi Brés­nef, aðal­rit­ari Komm­ún­ista­flokks hinna dýr­legu Sov­ét­ríkja!“

Eft­ir há­deg­is­mat fer Brés­nef aft­ur út á sval­ir sín­ar og seg­ir: „Gleðileg­an eft­ir­miðdag, sól!“

Sól­in svar­ar: „Gleðileg­an eft­ir­miðdag, fé­lagi Brés­nef, aðal­rit­ari Komm­ún­ista­flokks hinna miklu og sögu­legu Sov­ét­ríkja!“

Seinna, þegar sól­in er að setj­ast, seg­ir Brés­nef: „Gott kvöld, sól!“

Sól­in seg­ir: „Farðu í rass­gat. Ég er kom­in til Vest­ur­landa.“

Vits­muna­leg­ur veik­leiki Brés­nefs var upp­spretta margra brand­ara á átt­unda ára­tugn­um í Sov­ét­ríkj­un­um. Eldri maður stóð á Rauða torg­inu og hróp­ar há­stöf­um: „Brés­nef er hálf­viti. Brés­nef er hálf­viti.“ Hann var hand­tek­inn og dæmd­ur í 15 ára fang­elsi – fimm ár fyr­ir að móðga leiðtoga Sov­ét­ríkj­anna og 10 ár fyr­ir að upp­lýsa um rík­is­leynd­ar­mál.

Hár­beitt háð

Óend­an­leg­ur fjöldi er til af brönd­ur­um um það ófrelsi sem al­menn­ing­ur í Sov­ét­ríkj­un­um og lepp­ríkj­um þeirra í Aust­ur-Evr­ópu bjó við. Húm­or­inn var hár­beitt­ur, veitti fólki ör­lita birtu í grá­myglu sem um­lék öll sam­fé­lög­in en var um leið vopn al­menn­ings í bar­átt­unni gegn kúg­un komm­ún­ista.

Erich Ho­necker var aðal­rit­ari komm­ún­ista­flokks Aust­ur-Þýska­lands frá 1971 og þar til Berlín­ar­múr­inn féll árið 1989. Berlín­ar­múr­inn var merki um kúg­un, lít­ilsvirðingu gagn­vart rétt­ind­um ein­stak­linga og mann­rétt­ind­um. Múr­inn var ör­vænt­ing­ar­full til­raun til að koma í veg fyr­ir að fólk gæti tekið til fót­anna og yf­ir­gefið landið – kom­ist und­an eymd og ógn­ar­stjórn. Um 3,5 millj­ón­ir Aust­ur-Þjóðverja höfðu flúið land. Múrn­um, sem var reist­ur árið 1961, var ætlað að stöðva blóðtök­una.

Ho­necker var yfir sig ást­fang­inn af nýju ást­kon­unni og sagðist gera hvað sem er fyr­ir hana.

„Hvað sem er?“ spurði ást­kon­an.

„Já hvað sem er, bara nefndu það.“

Ástkon­an horfði beint í aug­un á aðal­rit­ar­an­um og sagði: „Allt í lagi. Ég vil að þú ríf­ir Berlín­ar­múr­inn.“

Ho­necker hugs­ar sig um nokkra stund og svo kvikn­ar ljósið og hann bros­ir út að eyr­um: „Ó, ég skil. Þú vilt vera ein með mér!“

Stalín týndi upp­á­hald­s­píp­unni sinni. Nokkr­um dög­um síðar kom Bería, yf­ir­maður ör­ygg­is­lög­regl­unn­ar og ná­inn sam­verkamaður Stalíns, til aðal­rit­ar­ans. „Hef­ur píp­an fund­ist?“

Stalín var kát­ur og svaraði: „Já, ég fann hana und­ir sóf­an­um.“

„Ég trúi þessu ekki,“ seg­ir Bería for­viða. „Við erum bún­ir að hand­taka þrjá menn og þeir eru all­ir bún­ir að játa á sig þjófnað!“

Fimm rúss­nesk boðorð:

Ekki hugsa.
Ef þú hugs­ar, ekki tala.
Ef þú hugs­ar og tal­ar, ekki skrifa.
Ef þú hugs­ar, tal­ar og skrif­ar, ekki skrifa und­ir.
Ef þú hugs­ar, tal­ar, skrif­ar og skrif­ar und­ir, ekki vera hissa þegar ör­ygg­is­lög­regl­an bank­ar upp á.

End­ur­nýj­un lífdaga

Húm­or var án efa eitt út­breidd­asta form póli­tískra mót­mæla gegn harðstjórn komm­ún­ista í Sov­ét­ríkj­un­um og í Aust­ur-Evr­ópu. Stutt­ir brand­ar­ar – skop­sög­ur – voru mót­vægi gegn áróðri yf­ir­valda og harðneskju­leg­um aðferðum til að skapa sam­fé­lag ótta og und­ir­gefni. Skopið varpaði ljósi á hug­mynda­fræði sem leiddi af sér ör­birgð og skort þar sem líf ein­stak­linga var einskis virði. Um leið voru ráðamenn tætt­ir sund­ur og sam­an í háði.

Sag­an um mann­inn sem kom inn í búð og spurði af­greiðslu­mann­inn hvort hann ætti kíló af nauta­kjöti lýs­ir ágæt­lega þjóðfé­lagi skorts og biðraða. „Nei því miður, fé­lagi: Þetta er fisk­búð og hér fæst ekki fisk­ur. En hinum meg­in við göt­una er kjöt­búð þar sem ekki er til kjöt,“ svaraði kaupmaður­inn.

Nú eru það ekki leng­ur Lenín, Stalín og Brés­nef sem eru í skotlín­unni held­ur Vla­dímír Pútín for­seti Rúss­lands, sem greini­lega er „verðugur“ arftaki fyrr­ver­andi leiðtoga Sov­ét­ríkj­anna. Brand­ar­arn­ir eru marg­ir tíma­laus­ir og ganga í end­ur­nýj­un lífdaga í Rússlandi Pútíns.

Stalín birt­ist Pútín í draumi. „Ég ætla að gefa þér tvö ráð. Þú átt að koma öll­um póli­tísk­um and­stæðing­um fyr­ir katt­ar­nef og þú átt að mála Kremlín bláa.“

Pútín spyr hissa: „Af hverju bláa?“

„Ég vissi að þú hefðir ekk­ert við fyrra ráðið að at­huga,“ sagði Stalín.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. maí 2024.