Sjálfstæðisflokkurinn 95 ára

Í dag fagnar Sjálfstæðisflokkurinn 95 ára afmæli. Allar götur frá stofnun hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið burðarás í íslenskum stjórnmálum. Eftir rúmar þrjár vikur fagnar Lýðveldið Ísland jafnframt 80 ára stórafmæli sínu. Ekki er hægt að líta til annars áfangans án þess að líta til hins, enda var flokkurinn stofnaður utan um þá meginstefnu að Ísland öðlaðist fullt sjálfstæði.

Síðan þeim áfanga var náð hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í fleiri ríkisstjórnum en nokkur annar stjórnmálaflokkur hér á landi og haft gríðarleg áhrif á íslenskt þjóðfélag og efnahagslíf. Stefna Sjálfstæðisflokksins spilaði lykilhlutverk í því að Ísland fátæktar og fábreytni hefur orðið að einu þróaðasta velferðarríki heims. Ísland hefur náð gríðarlegum árangri þegar kemur að lýðræði, jafnrétti og hamingju íbúa, og segja má að Ísland standi í mörgu tilliti fremst meðal þjóða. Samofin saga flokksins og lýðveldisins er því afar farsæl.

Til að fagna þessum stóra áfanga mun Sjálfstæðisflokkurinn senda reglulega út hlaðvarpsþætti þar sem tekin eru viðtöl við fyrrverandi og núverandi forystufólk í flokknum, þingmenn, sveitarstjórnarfólk, fyrrum starfsfólk og fólk sem starfað hefur lengi í innra starfi flokksins á ólíkum tímum, auk fræðimanna. Með því vill flokkurinn gera sögunni skil og koma henni á framfæri með skemmtilegum hætti í minningabrotum fjölmargra þeirra sem hafa mótað hana með mismunandi hætti. Þættirnir verða aðgengilegir á öllum helstu hlaðvarpsveitum undir „Hægri hliðin“, á YouTube, xd.is og á samfélagsmiðlum.

Í dag ritaði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra grein í Morgunblaðið. Greinina má finna hér.

Í fyrsta hlaðvarpsþætti sem birtist í dag er viðtal við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur varaformann Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra. Þar er m.a. rætt um þingferil hennar og pólitíska þátttöku almennt, þau mál sem eru henni ofarlega í huga á þing- og ráðherraferli hennar. Þórdís Kolbrún svarar því hvers vegna hún telji Sjálfstæðisflokkinn eiga svo langa sögu og hún ræðir einnig um framtíð hans. Þáttinn má nálgast hér og í spilara hér fyrir neðan. Í næstu viku birtast svo fleiri viðtöl og í hverri viku alveg fram á haust.