Skelfileg skuldabyrði Reykjavíkurborgar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Heild­ar­skuld­ir Reykja­vík­ur­borg­ar hækkuðu um fimm­tíu millj­arða króna árið 2023 og námu 495 millj­örðum í lok þess. Þar af hækkuðu skuld­ir borg­ar­sjóðs um 24 millj­arða króna og námu skuld­ir hans 198 millj­örðum króna í árs­lok.

Ýmsir eiga erfitt með að átta sig á fjár­hags­stöðu Reykja­vík­ur­borg­ar þar sem rekstri henn­ar er skipt í A- og B-hluta.

A-hluti (borg­ar­sjóður) sam­an­stend­ur af aðalsjóði, eigna­sjóði og bíla­stæðasjóði. Rekst­ur A-hluta er að mestu leyti fjár­magnaður með skatt­tekj­um. Til B-hluta telj­ast hins veg­ar fyr­ir­tæki, sem eru a.m.k. í helm­ingseigu borg­ar­inn­ar.

Borg­ar­sjóður eða sam­stæðan?

Við umræður um árs­reikn­ing Reykja­vík­ur­borg­ar leggja full­trú­ar meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks, Pírata og Viðreisn­ar áherslu á að fjalla um A-hlut­ann, ekki síst þegar um er að ræða sam­an­b­urð við fjár­hag annarra sveit­ar­fé­laga. Slík­ur sam­an­b­urður get­ur þó verið vill­andi.

Þeir, sem ein­blína á stöðu A-hluta þegar rætt er um fjár­mál Reykja­vík­ur­borg­ar, halda því gjarn­an fram að und­ir B-hlut­an­um séu borg­ar­fyr­ir­tæki, sem séu fjár­hags­lega sjálf­stæð, sem afli sjálf tekna og muni þannig sjálf standa und­ir lán­um sín­um. Þess vegna sé eðli­legra að horfa aðallega til A-hluta þegar farið sé yfir rekst­ur og skulda­stöðu borg­ar­inn­ar. Með því að ein­blína á skuld­ir borg­ar­sjóðs en horfa mark­visst fram hjá rúm­lega 300 millj­arða skuld­um borg­ar­fyr­ir­tækja, er auðveld­ara en ella að halda því fram að ekki þurfi að hafa áhyggj­ur af skulda­stöðunni.

Staðreynd­in er hins veg­ar sú að fjár­hag­ur borg­ar­sjóðs og borg­ar­fyr­ir­tækja er svo ná­tengd­ur að sam­stæðureikn­ing­ur Reykja­vík­ur­borg­ar sýn­ir raun­hæf­asta yf­ir­litið yfir fjár­hag henn­ar. Borg­ar­sjóður ber á end­an­um ábyrgð á skuld­um borg­ar­fyr­ir­tækja og sum þeirra eru rek­in með bein­um fjár­fram­lög­um úr hon­um.

Mikl­ar skuld­ir Fé­lags­bú­staða

Í gegn­um tíðina hafa mikl­ir fjár­mun­ir verið færðir frá ýms­um fyr­ir­tækj­um borg­ar­inn­ar til að sýna betri stöðu borg­ar­sjóðs. Að mestu leyti með arðgreiðslum en einnig með til­færslu eigna.

Með stofn­un Fé­lags­bú­staða hf. á sín­um tíma, seldi borg­in sjálfri sér t.d. fjölda leigu­íbúða og fékk þannig háar fjár­hæðir inn í borg­ar­sjóð. B-hluta-fyr­ir­tækið var skuld­sett fyr­ir kaup­verðinu og borg­ar­sjóður „græddi“.

Skuld­ir Fé­lags­bú­staða hf. hafa vaxið mikið á und­an­förn­um árum. Námu þær um 63 millj­örðum króna um síðustu ára­mót og hækkuðu um sex millj­arða á milli ára. Ljóst er að fé­lagið á erfitt um vik með að greiða af skuld­um sín­um. Í end­ur­skoðun­ar­skýrslu með árs­reikn­ingi borg­ar­inn­ar er bent á að fé­lagið muni ekki geta staðið und­ir greiðslu­byrði lána næstu tíu ára að öllu óbreyttu.

Vax­andi skuld­ir OR

Skuld­ir Orku­veitu Reykja­vík­ur (OR) námu rúm­lega 222 millj­örðum króna um síðustu ára­mót og hækkuðu þær um 18 millj­arða á milli ára. Veru­leg­ur hluti þess­ara skulda er til­kom­inn vegna póli­tískra ákv­arðana um fjár­fest­ing­ar OR utan kjarn­a­starf­semi. T.d. hef­ur OR lagt a.m.k. 27 millj­arða króna í fjar­skipta­rekst­ur á sam­keppn­ismarkaði, rekst­ur sem átti upp­haf­lega að standa und­ir sér og vera sjálf­bær.

Í áður­nefndri end­ur­skoðun­ar­skýrslu eru gerðar at­huga­semd­ir við rekstr­ar­hæfi Ljós­leiðarans, fjar­skipta­fyr­ir­tæk­is OR. Bent er á að fyr­ir­tækið sé mjög skuld­sett og lán þess með íþyngj­andi skil­mál­um. „Miðað við nú­ver­andi rekstr­ar-, efna­hags­reikn­ing og sjóðstreym­is­yf­ir­lit er ekki séð að fé­lagið geti staðið við skamm­tíma­skuld­bind­ing­ar sín­ar með hand­bæru fé frá rekstri,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Íþyngj­andi arðgreiðslur

Nú­ver­andi borg­ar­stjórn­ar­meiri­hluti legg­ur mikla áherslu á að kreista sem mesta fjár­muni út úr Orku­veit­unni til að bæta rekst­ur borg­ar­sjóðs. Er ætl­un­in að OR greiði eig­end­um sín­um sex millj­arða króna arð vegna árs­ins 2023 en sú upp­hæð nem­ur nær öll­um hagnaði fyr­ir­tæk­is­ins á því ári. Ljóst er að svo há arðgreiðsla bind­ur hend­ur OR og ger­ir því óhægt um vik að greiða niður skuld­ir og fjár­magna viðhald veitu­kerfa eins og þörf er á.

Allt borg­ar­kerfið er ná­tengt fjár­hags­lega, hvort sem um er að ræða borg­ar­sjóð eða borg­ar­fyr­ir­tæki. Til að átta sig á rekstri og skuld­um A- og B-hluta er því best að skoða heild­ar­mynd­ina, þ.e. sam­stæðureikn­ing borg­ar­inn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2024.