Mynstur gjafagjörninga

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Á dög­un­um birt­ist í Kast­ljósi Rík­is­út­varps­ins vönduð um­fjöll­un Maríu Sigrún­ar Hilm­ars­dótt­ur um um­deilda samn­inga Reykja­vík­ur­borg­ar við olíu­fé­lög­in. Varpaði um­fjöll­un­in ljósi á þau um­fangs­miklu verðmæti sem borg­in færði olíu­fé­lög­un­um þegar þeim voru veitt­ar ríf­leg­ar upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir á verðmæt­um lóðum, án hefðbund­ins end­ur­gjalds.

Velt­um við hverj­um steini

For­sögu máls­ins má rekja aft­ur til árs­ins 2019 þegar þver­póli­tísk sátt náðist í borg­ar­ráði um það mark­mið að fækka bens­ín­stöðvum í borg­ar­land­inu um helm­ing. Ekk­ert heyrðist svo af fram­gangi máls­ins fyrr en tveim­ur árum síðar, þegar meiri­hlut­inn lagði upp­bygg­ing­ar­samn­inga við olíu­fé­lög­in fyr­ir borg­ar­ráð, í sum­ar­leyfi borg­ar­stjórn­ar. Hafði meiri­hlut­inn þá þegar boðið olíu­fé­lög­un­um um­fangs­mikl­ar upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir á lóðum bens­ín­stöðvanna, án þess að fyr­ir upp­bygg­ing­una yrðu greidd hefðbund­in bygg­ing­ar­rétt­ar­gjöld eða innviðagjöld.

Full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks samþykktu samn­ing­ana ekki á neinu stigi máls­ins, enda um að ræða frá­leitt framsal á verðmæt­um borg­ar­inn­ar án end­ur­gjalds. Ekki síst eru var­huga­verðir þeir samn­ing­ar sem veittu olíu­fé­lög­um gjald­frjáls­ar upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir á lóðum með þegar út­runn­um lóðarleigu­samn­ing­um. Sam­kvæmt um­fjöll­un Kast­ljóss nam verðmæti upp­bygg­ing­ar­heim­ild­anna allra sam­an­lagt um 10 millj­örðum króna!

Til­laga um út­tekt innri end­ur­skoðunar á samn­ing­un­um var felld vorið 2022 af meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar. Full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks fluttu til­lög­una aft­ur á dög­un­um í kjöl­far um­fjöll­un­ar Kast­ljóss. Átti þá meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar engra annarra kosta völ en að samþykkja út­tekt­ina, enda kom­in fram skýr krafa frá al­menn­ingi um rann­sókn máls­ins. Við þá at­hug­un verður mik­il­vægt að velta við hverj­um steini, kryfja aðdrag­and­ann og inni­hald samn­ing­anna. Skal þar ekk­ert und­an­skilið.

Fúskað í þágu RÚV

En samn­ing­arn­ir við olíu­fé­lög­in eru því miður ekk­ert eins­dæmi. Árið 2015, snemma í borg­ar­stjóratíð Dags B. Eggerts­son­ar, veitti Reykja­vík­ur­borg Rík­is­út­varp­inu um­fangs­mikl­ar upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir fyr­ir íbúðar­hús­næði í Efsta­leiti án þess að greidd yrðu hefðbund­in gjöld fyr­ir. Skilaði lóðasal­an RÚV tæp­um 2,2 millj­örðum króna að nú­v­irði sem segja má að hafi bjargað rík­is­miðlin­um frá greiðsluþroti.

Árið 2019 gerði Rík­is­end­ur­skoðun at­huga­semd­ir við þenn­an gjafa­gjörn­ing borg­ar­inn­ar og varpaði því fram hvort með gjöf­inni hefði Reykja­vík­ur­borg veitt Rík­is­út­varp­inu ólög­mæta op­in­bera aðstoð. Í ljósi þeirra tak­mark­ana sem rík­isaðstoðarregl­ur setja á fjár­mögn­un rík­is­styrktra fjöl­miðla er at­b­urðarás­in bæði at­hygl­is­verð og var­huga­verð. Þær tekjutu­sk­ur sem rík­is­miðill­inn vind­ur eru nægi­lega marg­ar, svo ekki þurfi sam­hliða að ganga á verðmæti í eigu borg­ar­inn­ar.

Degi eft­ir út­gáfu skýrsl­unn­ar lagði und­ir­rituð til við borg­ar­ráð að lóðasamn­ingn­um yrði vísað til innri end­ur­skoðunar. Ærin ástæða væri til að fara ofan í saum­ana á mál­inu. Það tók meiri­hlut­ann tvö ár að taka til­lög­una til af­greiðslu og fella hana.

Dæm­in hrann­ast upp

Það er morg­un­ljóst að hér hef­ur málast upp mynstur gjafa­gjörn­inga við út­hlut­un upp­bygg­ing­ar­heim­ilda í borg­inni. Dæm­in hrann­ast upp – og verður það áfram hlut­verk okk­ar sjálf­stæðismanna að draga fram mynstrið og gæta þess að mál­in fái um­fangs­mikla og óháða skoðun.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2024.