Ljósmynd: Ninni Andersson/Regeringskansliet
„Mín sýn er að þessir flokkar eigi að ljúka kjörtímabilinu. Sama hvað skoðanakönnunum líður, sama hvað vaxstastiginu líður. Við erum flokkar með mjög breiðan og styrkan meirihluta á þinginu. Mér finnst augljóst að flokkar sem hafa í tvígang gert með sér stjórnarsáttamála eigi að stefna að því að ljúka kjörtímabilinu,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í viðtali í nýjasta þætti Þjóðmála hjá Gísla Frey Valdórssyni blaðamanni aðspurður um hvort ekki hafi komið til greina að slíta stjórnarsamstarfinu. Hlusta má á þáttinn hér:
Hann sagði að auðvitað hefði ekki verið hægt að útiloka neitt þegar sú staða kom upp að Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra ákvað að segja af sér nýverið, en sér hafi þótt eðilegt að láta reyna á samtal og vilja flokkanna til áframhaldandi samstarfs. Það hafi verið augljós fyrsti valkostur.
Í slíku samtali hafi verið rétt að ræða hvort flokkarnir hefðu erindi til þess að ljúka kjörtímabilinu og forgangsraða málum. Ræða hvað sameini þessa stjórnmálaflokka og gera það þá myndarlega.
„Mér fannst vera grundvöllur fyrir því. Það er ekkert einfalt að sitja í þriggja flokka stjórn og ég veit að það býður upp á allskonar gagnrýni vegna málamiðlana og vegna þess að menn geta ekki verið alveg eins og hreinasta hugmyndafræðilega sýn býður. En mér finnst við hafa skyldu til þess að tryggja ákveðna stjórnfestu og gera eins mikið og hægt er með þau spil sem við höfum á hendi,“ sagði hann.
Hann nefndi að stjórnarflokkarnir hefðu mjög breiðan og stóran meirihluta á þingi, gott traust væri á milli forystumanna flokkanna eftir langt samstarf.
„Lykilforystumenn í flokkunum geta vel leyst úr málum og það er enginn að biðja um að það sé auðvelt og það kallar á erfið samtöl oft en ég lagði upp með það. Ég var ekki fyrst og fremst að leita eftir að komast út úr stjórninni. Ég var að segja við mína kollega: „Erum við ekki sammála um að ljúka kjörtímabilinu?“
Tökum því alvarlega að framkvæma lýðræðið
Ákveðinn pirringur innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins með áframhaldandi samstarf var nefndur og svaraði Bjarni því. Sagði hann að það hefði líka verið pirringur eftir kosningarnar 2017 m.a. með að flokkurinn hefði þurft að gefa frá sér forsætisráðuneytið og að samið hafi verið um það. Eins að flokkurinn færi í þriggja flokka ríkisstjórn og að talað hefði verið um að það yrði erfitt. Sama hafi verið uppi á teningnum 2021 og að ekki hafi allir verið sannfærðir þá um áframhaldandi samstarf.
„Við erum þroskaður stjórnmálaflokkur og við erum með reynslu. Við tökum því mjög alvarlega að framkvæma lýðræðið eins og vel og hægt er. Þetta er niðurstaða kosninganna. Getur þú unnið með þessa niðurstöðu eða getur þú það ekki? Ætlar þú bara að taka þína stefnu og vera með einhvern fægiklút og vera að pússa hana allan daginn og spegla þig í stefnunni, passa að það varpi enginn skugga á hana? Ætlar þú bara að vera í höfuðstöðvum flokksins og halda áfram að dýpka stefnuna og breikka hana og láta aðra stjórna landinu á meðan? Eða ætlar þú að taka þátt í því að stjórna landinu, gera málamiðlanir, koma því sem hægt er að við stjórn landsmálanna af þínum stefnumálum? Sýna hæfilegt tillit til lýðræðislegrar niðurstöðu kosninganna, sem tryggðu öðrum flokkum sæti á þinginu og sæti við ríkisstjórnarborðið og treystir þú þér til þess að vinna úr þessu? Þetta er það sem þetta snýst um,“ sagði Bjarni.
Hann sagði að eðlilega væri ekki hægt að gera málamiðlanir um hvað sem er en að reynt sé að vinna úr stöðunni.
Aldrei verið betra að búa á Íslandi
„Svo hef ég fyrir mig ákveðinn kompás sem horfir alltaf til þess; hvernig miðar okkur fram á við þegar við horfum á niðurstöðuna mælt í lífskjörum fyrir landsmenn?“ sagði hann og þá möguleikum okkar til framtíðar, hvernig stóru málin séu að þróast.
„Ég segi bara fullum fetum að það hefur aldrei verið betra en árið 2024 að búa á Íslandi. Veldu hvaða ár sem er – 2024 er mesta lífskjaraár okkar Íslandssögu,“ sagði hann.
Dýpra samtal leiðir til betri ákvarðanatöku
Bjarni var spurður að því hvort honum þætti ósanngjarnt þegar hægri menn gagnrýni flokkinn fyrir þátttöku í ríkisstjórnarsamstarfinu og að hún væri á kostnað stefnu og hugmyndafræði flokksins.
„Ég fagna opinni lýðræðislegri umræðu og gagnrýni. Við myndum lippast niður og verða að engu ef við fengum ekki neitt aðhald. Ég fagna hugmyndafræðilegri umræðu“ sagði hann.
Hann sagðist hafa áhyggjur af þróun lýðræðislegrar umræðu. Hún sé of mikið í stuttum myndbrotum og á samfélagsmiðlum og einkennist af miklum hraða. Þetta sé alþjóðlegt vandamál og að áhrifin víða séu of mikil skautun umræðunnar. Umræðan þurfi að vera yfirvegaðri þar sem skipst er á skoðunum og að dýpra samtal leiði til betri ákvarðanatöku.
Kostar svakalega baráttu að draga úr ríkisumsvifum
Hann biður þá sem tali fyrir því að fylgja hreinni hugmyndafræði um að líta aðeins upp úr hugmyndafræðilegum leiðarvísi sínum, horfa í kringum sig og spyrja:
„Hvar erum við stödd lífskjaralega séð. Er fólk með vinnu? Hvernig er kaupmáttur heimilanna? Er einhver kraftur í atvinnulífinu? Er ríkissjóður á leiðinni fram af hengiflugi eða getur verið að það sé allt í þokkalegu lagi? Erum við með stærri gjaldeyrisvaraforða en nokkru sinni fyrr? Er staða Íslands í útlöndum betri en nokkru sinni áður?“
Nefnir hann að við höfum aldrei fyrr átt jafn mikið af eignum í útlöndum á móti erlendum skuldum. Við séum í sterkri stöðu. Nýjar atvinnugreinar séu í vexti á Íslandi og nefndi hann Alvotech og Kerecis sem dæmi um ný fyrirtæki á Íslandi sem séu komin í flokk stærstu fyrirtækja landsins og týna megi fleiri til. Slík fyrirtæki hafi sprottið upp úr þeim farvegi sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið að síðastliðinn áratug með setu í ríkisstjórn. Segir Bjarni listann vera langan af dæmum um það sem sé að ganga vel.
„Það eru auðvitað áskoranir og hugmyndafræðilega séð myndi ég vilja gera margt öðruvísi. Ég er talsmaður þess að vilja draga úr ríkisumsvifum. Það kostar svakaklega baráttu að ná árangri þar. Salan á Íslandsbanka er dæmi um að draga úr ríkisumsvifum. Þú finnur ekkert betra nýlegt dæmi heldur en það. Að lækka skatta, tolla og vörugjöld er eitthvað sem við höfum verið að gera á síðustu tíu árum og er ætlað til þess að halda aftur af umsvifum þess opinbera og skilja eftir meira svigrúm bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki til þess að blómstra,“ segir Bjarni.
Hann segir að við höfum náð góðum árangri í mörgu en vissulega sé hægt að gagnrýna flokkinn fyrir ýmislegt. Það hafi þurft að gera málamiðlanir.
„Svona er lífið í þessari pólitík“
Sagði hann að frá sjónarhóli Sjálfstæðisflokksins og með hliðsjón af grundvallarstefnu flokksins megi alveg segja að við hefðum viljað ná fleiru fram. En að hinir stjórnarflokkarnir væru í sömu stöðu. Það sé eðli samsteypustjórna.
„Svona er lífið í þessari pólitík. Við höfum ekki áður séð ríkisstjórn sem hefur setið svona lengi samfellt sem þriggja flokka stjórn. En það er ástæða fyrir því, af þvi að þetta er krefjandi, þetta er erfitt, þetta er ekkert auðvelt,“ sagði Bjarni.
Útlendingalöggjöfin verður kláruð
Spurður út í málin fram að næstu kosninum sem að óbreyttu verða haustið 2025 segir Bjarni allt kapp lagt á að ljúka þeim málum sem hafa verið til meðferðar á Alþingi í vetur.
„Mér sýnist það fara ágætlega af stað. Það eru ekki mörg mál sem ég hef verulegar áhyggjur af. Við erum í nefndum þingsins að reyna að leiða þau til lykta. Ég nefni hælisleitendamálin. Breytingar á útlendingalöggjöfinni er eitt af grundvallaratriðum þessa þings. Það verður klárað,“ sagði hann.
Þá nefndi hann verðbólguna og er bjartsýnn á að skilyrði skapist til vaxtalækkana á þessu ári. Aðspurður um hvernig hægt verði að tryggja það nefndi hann fjármálaáætlunina sem liggur fyrir þinginu og sagði að miðað við þær yfirlýsingar sem fylgdu síðustu ákvörðun Seðlabankans væri hún ekki að halda aftur af vaxtalækkun heldur undirliggjandi spenna í hagkerfinu. Aðhaldsstigið í fjármálaáætluninni sé talið mátulegt og líklegt til að ná árangri. Þá nefndi hann að markaðir væru byrjaðir að spila með, þ.e.a.s. ávöxtunarkrafa á markaði og að hún endurspegli að menn hafi trú á því að verðbólgan muni lækka.
„Þetta er eitt af málunum sem við munum fylgja eftir,“ sagði hann.
Eins nefndi hann mál sem snúi að einföldun regluverks varðandi nýtingu á grænni orku og öryggis- og varnarmál sem þurfi að fá meiri vigt í umræðunni hér heima fyrir og sé mjög vaxandi í alþjóðlegri umræðu.
„Ég horfi á það sem mikilvægan prófstein á stjórnarsamstarfið að ljúka þessu þingi vel. Klára mál, sýna að við getum skilað árangri í samstarfi okkar. Síðan kemur sumarhlé og þá kemur þessi síðasti heili þingvetur. Það koma fjárlög og það verða ýmsar áskoranir sem við þurfum að fást við í millitíðinni sem við sjáum ekki allar fyrir í dag en á haustþinginu verður áfram unnið að þessum stærri verkefnum,“ sagði hann.
Auk ofangreinds var rætt um stöðuna í stjórnmálunum, útlendingamálin, orkumál, fylgi Sjálfstæðisflokksins, ríkisútgjöldin, tækifærin í hagkerfinu, hinn sístækkandi eftirlitsiðnað, hvort hægt sé að segja að Sjálfstæðisflokkurinn styðji við atvinnulífið og margt fleira.
Þáttinn í heild má nálgast hér fyrir neðan: