Þórdís Kolbrún og Høgni Hoydal funduðu í Færeyjum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Høgni Hoydal utanríkisráðherra Færeyja funduðu í Tórshavn í Færeyjum í síðustu viku.  Meðal þess sem þau ræddu á fundinu var Hoyvíkssáttmálinn, en það er fríverslunarsamningur sem Ísland og Færeyjar gerðu með sér og tók gildi árið 2006.

Hoyvíkursamningurinn er víðtækasti fríverslunarsamningur sem löndin tvö hafa gert og hefur hann lagt grunn að góðu viðskiptasambandi Íslands og Færeyja en það hefur vaxið jafnt og þétt frá gildistöku, bæði hvað varðar vörur og þjónustu. Ráðherrarnir voru sammála um að samningurinn hafi þjónað báðum löndum vel og hafi verið til verulegra hagsbóta.

Ráðherrarnir skipa Hoyvíkurráðið sem kemur reglulega saman til að ræða framkvæmd samningsins en ráðið er auk þess mikilvægur vettvangur til að ræða önnur brýn málefni er varða viðskipti landanna, s.s. um samstarf á sviði sjávarútvegsmála og fiskveiða.

„Í síkvikum heimi er lykilatriði að við styrkjum enn frekar böndin við okkar nánustu nágranna. Heilt yfir fara hagsmunir okkar og Færeyja saman og á þeim grunni þurfum við byggja okkar samskipti. Hoyvíkursamningurinn skapar traustan grunn til þess.  Ég hef fulla trú á því að það séu enn ónýtt tækifæri til að styrkja efnahagssamvinnu landanna enn frekar  og að því vil ég stuðla“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Nánar má lesa um heimsókn Þórdísar til Færeyja hér.