Kópavogur lækkar skatta – aftur

Ásdís Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri í Kópavogi:

Það er áherslumál okkar sem gegnum forystu í Kópavogi að standa vörð um lága skatta. Af þeirri ástæðu hefur núverandi meirihluti lækkað fasteignaskatta í tvígang, eða bæði árin frá því að hann tók til starfa. Á sama tíma hefur lóðaleigan staðið í stað og vatns- og holræsagjöld lækkað. Þessi skattalækkun nemur einum milljarði króna á árinu 2024. Það er þá einn milljarður sem situr eftir í heimilisbókhaldi íbúa bæjarins.

Til að standa vörð um þessar áherslur á lækkun skatta en um leið ábyrgan rekstur höfum við á sama tíma hagrætt í rekstri, tryggt að ekki sé blásið til nýrra óþarfa útgjalda og þannig lagt áherslu á að forgangsraða fjármunum skattgreiðenda í Kópavogi með öðrum hætti. Það hefur tekist vel.

Í samtölum mínum við bæjarbúa heyri ég að fasteignagjöld eru ofarlega á blaði. Fasteignagjöld, þar sem fasteignaskattur er stærsti liður fasteignagjalda, hafa hjá sumum sveitarfélögum hækkað um tugi prósenta samhliða hækkandi fasteignaverði. Því er öðruvísi farið í Kópavogi, sem samfara hækkun fasteignaverðs hefur lækkað fasteignaskatta á móti. Það er að mínu mati sanngjörn og réttmæt leið enda hefur sú þjónusta sem fasteignagjöldin standa undir ekkert með þróun fasteignaverðs að gera.

Fasteignaskattar í Kópavogi eru í dag meðal þeirra lægstu á landsvísu og fasteignagjöld í bæjarfélaginu hafa ekki hækkað að raunvirði undanfarin ár. Byggðastofnun birti nýlega samanburð á fasteignamati og fasteignagjöldum fyrir árið 2024. Í þeim samanburði sést glögglega hvernig fasteignagjöld í Kópavogi eru almennt lægri en í flestum sveitarfélögum að teknu tilliti til fasteignamats.

Á sama tíma og meirihlutinn í Kópavogi hefur kosið með heimilisbókhaldi bæjarbúa hefur minnihlutinn, Viðreisn, Samfylking, Píratar og Vinir Kópavogs, gert hið gagnstæða. Í hvorug skiptin hefur minnihlutinn kosið með skattalækkun og nú síðast höfnuðu allir bæjarfulltrúar minnihlutans því að lækka fasteignaskatta á bæjarbúa. Var meirihlutinn meðal annars gagnrýndur af einstökum bæjarfulltrúum fyrir að „vannýta” tekjustofna bæjarins með lækkun fasteignaskatta.

Þótt pólitískir fulltrúar telji sér trú um að fasteignagjöld séu „auðsóttar tekjur“ til að fjármagna ný verkefni eða frekari útgjöld má aldrei gleyma því að fjármagnið fellur ekki af himnum ofan, heldur er sótt í launaumslag heimilanna. Mikilvægt er að líta ekki á það sem sjálfsagðan hlut að sveitarfélög eða ríki geti gengið óhindrað að því fjármagni sem fólk vinnur sér inn, hvort sem er í gegnum fasteignaskatta eða aðra skatta.