Glundroðatillaga gegn sterkri stöðu

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Veg­ir stjórn­ar­and­stöðunn­ar eru svo sann­an­lega oft órann­sak­an­leg­ir. Að minnsta kosti átti ég erfitt með að átta mig á til­gangi Flokks fólks­ins og Pírata með því að leggja fram van­traust­stil­lögu á rík­is­stjórn­ina í liðinni viku. Inga Sæ­land, fyrsti flutn­ings­maður, var skýr í fram­sögu sinni með til­gangs­leysið: „Ber­sýni­lega mun þessi van­traust­stil­laga ekki ná fram að ganga, jafn­vel þótt hún njóti stuðnings allra stjórn­ar­and­stöðuþing­manna, sem ég vona að hún geri.“

Mark­mið til­lög­unn­ar var sem sagt ekki að fella rík­is­stjórn­ina eða láta reyna á hvort hún hefði stuðning meiri­hluta þings­ins (sem eng­inn efaðist um) og boða til kosn­inga. Til­gang­ur­inn virðist fyrst og síðast hafa verið tvíþætt­ur: Ann­ars veg­ar að efna til mál­fundaæf­ing­ar í þingsal (og raun­ar end­ur­vinnslu á göml­um skamm­ar­ræðum um rík­is­stjórn­ir síðustu ára). Og hins veg­ar að kom­ast í frétt­ir fjöl­miðla, ekki síst ljósvaka. Fjöl­miðlar brugðust ekki Flokki fólks­ins og Pír­öt­um sem gátu baðað sig í sviðsljós­inu í einn eða tvo sól­ar­hringa án gagn­rýni eða áleit­inna spurn­inga fjöl­miðlunga.

Fyr­ir áhuga­fólk um stjórn­mál er það at­hygl­is­vert að Flokk­ur fólks­ins og Pírat­ar hafi tekið hönd­um sam­an um van­traust­stil­lögu á rík­is­stjórn. Aðrir flokk­ar stjórn­ar­and­stöðunn­ar tóku ekki þátt í leikn­um en gátu illa gert annað en greiða henni at­kvæði. Þeir lögðu nafn sitt hins veg­ar ekki við til­lög­una.

Rétt­ur­inn til að leggja fram þings­álykt­un um van­traust á rík­is­stjórn eða á ein­staka ráðherra er ótví­ræður og mik­il­væg­ur. En rétt­inn ber að nýta var­lega, án póli­tískr­ar léttúðar eða til stiga­söfn­un­ar í dæg­urþrasi stjórn­mála. Stjórn­ar­andstaðan í öll­um lönd­um veit að hún hef­ur skyld­ur til að sýna ábyrgð. Það eru og á að gera kröf­ur til henn­ar með sama hætti og gerðar eru kröf­ur til rík­is­stjórn­ar. Hvorki Flokk­ur fólks­ins né Pírat­ar risu und­ir þess­um kröf­um í liðinni viku.

Á sama tíma og efnt er til upp­hlaups á þingi – í hreinu til­gangs­leysi að mati flutn­ings­manna sjálfra – bíða af­greiðslu fjöl­mörg mál sem skipta al­menn­ing miklu. Frum­vörp sem styðja við ný­gerða lang­tíma­samn­inga á vinnu­markaði, ekki síst hækk­un barna- og vaxta­bóta. Frum­vörp um ein­föld­un á reglu­verki orku­mála, nauðsyn­leg­ar breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um og lög­reglu­lög­um, heild­ar­lög­gjöf um fisk­eldi og síðast en ekki síst frum­varp til breyt­inga á trygg­inga­kerfi ör­yrkja sem mun bæta hag þeirra og inn­leiða í kerfið heil­brigða hvata í stað refs­inga. Öllu þessu voru þing­menn Flokks fólks­ins og Pírata til­bún­ir til að tefla í hættu með því sem Bjarni Bene­dikts­son kallaði með réttu glundroðatil­lögu.

Að nokkru er hægt að hafa samúð með fram­göngu hins nýja banda­lags Pírata og Flokks fólks­ins. Hvor­ug­ur flokk­ur­inn hef­ur náð ár­angri í stjórn­ar­and­stöðu – það hef­ur frem­ur sigið á ógæfu­hliðina. Ekki síst hjá Pír­öt­um sem hafa misst tæp­lega ann­an hvern kjós­anda frá kosn­ing­un­um 2016.

Fyr­ir stjórn­ar­and­stöðu sem hjakk­ar í sama far­inu, er föst í forms­atriðum eða göml­um skamm­ar­ræðum með full­yrðing­um sem sum­ar ganga gegn staðreynd­um er erfitt að ná fót­festu þegar litið er á stöðu efna­hags­mála, sem þrátt fyr­ir allt er góð þótt mæta þurfi ýms­um áskor­un­um. Raun­ar er það tölu­vert af­rek að hafa náð að sigla í gegn­um efna­hagsþreng­ing­ar vegna kór­ónu­veirunn­ar, stríðsins í Úkraínu og nátt­úru­ham­fara í Grinda­vík með þeim hætti sem gert hef­ur verið.

Sterk staða

Sam­kvæmt vel­sæld­ar­vísi­tölu Sam­einuðu þjóðanna er Ísland eitt mesta vel­meg­un­ar­ríki heims. Ísland sit­ur í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem best er að búa. Aðeins Sviss og Nor­eg­ur eru ofar. Vel­sæld­ar­vísi­tal­an sýn­ir allt aðra og já­kvæðari mynd af Íslandi en stjórn­ar­andstaðan reyn­ir að draga upp. Dep­urð, eymd og von­leysi er boðskap­ur þeirra sem sjá glasið aldrei hálf­fullt held­ur alltaf hálf­tómt. Svart­sýni blind­ar og menn skynja ekki tæki­fær­in til sókn­ar.

Verðbólga, sem er á niður­leið, og hátt vaxta­stig valda mörg­um heim­il­um og fyr­ir­tækj­um erfiðleik­um. Fátt skaðar hag launa­fólks meira en verðbólga. Eitt mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­valda er að tryggja stöðug­leika og að verðbólga haldi áfram að lækka. Það verður aðeins gert með skyn­samri stefnu í rík­is­fjár­mál­um en ekki glundroðatil­lög­um á Alþingi.

Þrátt fyr­ir al­var­leg áföll og erfiðar ytri aðstæður höf­um við Íslend­ing­ar notið meiri hag­vaxt­ar á síðustu árum en flest­ar ná­grannaþjóðir okk­ar. Staða heim­ila er sterk. Skuld­ir hafa sjald­an á und­an­förn­um ára­tug­um verið lægri í hlut­falli við ráðstöf­un­ar­tekj­ur eða eign­ir. Eins og sést á meðfylgj­andi mynd eru skuld­ir heim­il­anna þær lægstu á Norður­lönd­un­um í hlut­falli af ráðstöf­un­ar­tekj­um. Eigið fé hef­ur auk­ist gríðarlega á síðustu árum.

Í nýrri fjár­mála­áætl­un kem­ur fram að laun á hverja vinnu­stund hafi hækkað um fjórðung á þrem­ur árum. Þetta er mun meiri vöxt­ur en í ná­granna­ríkj­um. Að meðaltali var kaup­mátt­ur launa á vinnu­stund í járn­um árið 2023 en hækkaði þó tals­vert áfram hjá þeim tekju­lægri. Þannig er jöfnuður að aukast hér á landi, ólíkt því sem stjórn­ar­and­stæðing­ar halda fram þegar böl­hyggj­an ræður för.

Kaup­mátt­ur launa hef­ur auk­ist marg­falt hér á landi miðað við önn­ur lönd, eins og glögg­lega sést á meðfylgj­andi mynd. Aukn­ing­in er yfir 50% hér frá ár­inu 2013 en um og und­ir 6% í lönd­um Evr­ópu­sam­bands­ins og á Norður­lönd­un­um.

Heim­ili og fyr­ir­tæki eru í mörgu bet­ur í stakk búin til að mæta efna­hags­leg­um áföll­um en hið op­in­bera, eins og viður­kennt er í fjár­mála­áætl­un: „Fjár­hags­leg staða hins op­in­bera er veik­ari en oft áður og ábyrgðar­hluti að úr því verði bætt eins og lagt er upp með í þess­ari áætl­un.“

Í fjár­mála­áætl­un­inni sem ligg­ur til af­greiðslu á þingi er stigið mik­il­vægt skref í að auka viðnámsþrótt rík­is­ins. Áætl­un­in ber þess hins veg­ar merki að vera sam­starfs­verk­efni þriggja flokka. Verk­efni þings­ins er fyrst og síðast að auka aðhald í rík­is­fjár­mál­um, ekki með því að auka álög­ur á heim­ili og fyr­ir­tæki eða leita að „út­gjalda­tæki­fær­um“ held­ur með lækk­un út­gjalda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2024.