Stoðir velmegunar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins:

Í amstri dags­ins og dæg­urþrasi gleym­um við stund­um stóra sam­hengi hlut­anna. Það er eðli­legt og mann­legt enda af nægu að taka í lífi og starfi okk­ar allra. Það má oft­ar minna á þær fram­far­ir sem ís­lenskt sam­fé­lag hef­ur gengið í gegn­um á ríf­lega einni öld. Fæst ríki heims­ins hafa upp­lifað viðlíka fram­far­ir í ein­stak­lings­frelsi, lífs­kjör­um, heilsu og svo tæki­fær­um. Þessi ár­ang­ur er ekki til­vilj­un og það væri ákaf­lega mis­ráðið að taka hon­um sem sjálf­gefn­um hlut.

Árið 1929, árið sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn var stofnaður, var lands­fram­leiðsla á mann svipuð og nú er í Níg­er­íu. Fá­tækt var út­breidd, tíðni ung­barnadauða 2,5% (eitt af 40 fædd­um börn­um lifði ekki til eins árs ald­urs), vænt ævi­lengd 61 ár og ef und­an er skil­inn kostnaður vegna hús­næðis fóru 59% heim­ilistekna í mat.

Við vor­um fá­tæk þjóð en búum í dag við ein­hver bestu lífs­kjör sem finn­ast á jörðinni. Ísland er eitt ör­ugg­asta land í heimi. Lands­fram­leiðsla á mann er með því hæsta, kaup­mátt­ur launa er sá hæsti meðal OECD-ríkja, við lif­um lengi og hlut­falls­leg fá­tækt er sú minnsta meðal sam­an­b­urðarríkja og hér er ein­hver mesti jöfnuður sem fyr­ir­finnst og fé­lags­leg­ur hreyf­an­leiki sömu­leiðis sem þýðir á manna­máli að á Íslandi eru jöfn­ust tæki­færi.

Það er efni í marga og langa pistla að tí­unda allt það sem hef­ur gert okk­ur kleift að byggja upp gott, sterkt og öfl­ugt sam­fé­lag með mik­inn viðnámsþrótt. Ísland náði að nýta sér og taka þátt í hröðum fram­förum í tækni, lækna­vís­ind­um og iðnaði sem var ekki sjálfsagt og verður aldrei sjálfsagt. Það þurfti, og þarf enn, að sá í jarðveg­inn þannig að fram­tak­samt fólk gæti ræktað hann og nýtt tæki­fær­in. Til að það gerðist þurfti tvennt.

Árang­urs­rík ut­an­rík­is­stefna
Ann­ars veg­ar hef­ur Ísland ræktað sam­skipti við aðrar þjóðir með mark­viss­um hætti frá því að við feng­um full­veldi. Við höf­um búið við ör­yggi í skjóli Atlants­hafs­banda­lags­ins, nokkuð sem herlaus þjóð, sem hef­ur aldrei kynnst vopnuðum átök­um, átt­ar sig kannski ekki alltaf á. Við höf­um líka lagt rækt við að efla viðskipti við önn­ur lönd en án þeirra væru fyrr­nefnd­ar fram­far­ir óhugs­andi. Stærsti áfang­inn var inn­ganga okk­ar í EES árið 1994. Fyr­ir utan ómæl­an­legt virði í því ein­stak­lings­frelsi sem samn­ing­ur­inn hef­ur veitt okk­ur er hið efna­hags­lega óyggj­andi. Frá inn­göngu okk­ar í EES hef­ur út­flutn­ing­ur t.a.m. vaxið hraðar held­ur en árin 30 á und­an. Vel að merkja, hraðar en á 30 árum þar sem meðal ann­ars við færðum út land­helg­ina. Það er eng­in til­vilj­un. Í dag erum við enn að sækja fram og í síðasta mánuði var ritað und­ir fríversl­un­ar­samn­ing við Ind­land, fjöl­menn­asta ríki heims.

Sjálf­stæðis­stefn­an í for­grunni
Hins veg­ar hef­ur stjórn­mála­stefn­an sem hef­ur fengið mest fylgi og hef­ur verið í önd­vegi í flest­um rík­is­stjórn­um skapað þenn­an jarðveg; sjálf­stæðis­stefn­an: Að hér búi frjáls og sjálf­stæð þjóð þar sem við auk­um frjálsa versl­un, ein­stak­lings­frelsi og frjálst fram­tak al­mennt. Þar sem lögð er áhersla á að hjálpa þeim og lyfta upp sem eiga und­ir högg að sækja með þéttu ör­ygg­is­neti. Að vera tals­menn upp­bygg­ing­ar og verðmæta­sköp­un­ar. Að byggja upp og rækta alþjóðleg ut­an­rík­is­viðskipti og sam­starf. Þessi stefna hef­ur í grund­vall­ar­atriðum lítið breyst á þeirri tæpu öld sem liðin frá því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn var stofnaður og ástæðan fyr­ir því er ein­föld: Stefn­an virk­ar – meira að segja mjög vel.

Það er aldrei sjálf­gefið að Íslend­ing­ar geti nýtt sér öll mögu­leg tæki­færi til að bæta sín lífs­kjör. Við þurf­um að halda áfram á þeirri braut sem hef­ur skilað okk­ur þess­um ár­angri í hart­nær 100 ár, með breyt­ing­um í takt við hraðar sam­fé­lags­breyt­ing­ar, en grunn­stefn­an stend­ur.

Leiðin áfram
Fyrri dyr­um standa ýms­ar áskor­an­ir og ógn­ir sem við þurf­um að tak­ast á við af festu. Því kerfi alþjóðalaga, sem ör­yggi okk­ar og efna­hags­leg vel­meg­un bygg­ist á, er ógnað með inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Rúss­ar stoppa ekki nema þeir verði stöðvaðir og tak­ist þeim ætl­un­ar­verk sitt, sjá­um við fram á að mörg­um okk­ar mik­il­væg­ustu viðskipta­lönd­um og vinaþjóðum verði raun­veru­lega ógnað. Við erum ekki ónæm fyr­ir þess­ari þróun, þó ekki væri nema út frá lífs­kjör­um okk­ar. Þess vegna skipt­ir máli að Ísland sé al­vöru þátt­tak­andi í sam­fé­lagi þjóðanna og verðugur bandamaður – fyr­ir okk­ur öll.

Greinin birtist fyrst í Sunnudagsmogganum 28. apríl 2024