Hrein torg – fögur borg

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisfl0kksins í Reykjavík:

Borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins vilja auka gatnaþrif í Reykja­vík í því skyni að bæta hrein­læti og draga úr svifryks­meng­un í borg­inni. Stofn­braut­ir og tengigöt­ur verði þvegn­ar a.m.k. nokkr­um sinn­um á ári til viðbót­ar hefðbund­inni götu­sóp­un.

Kjöraðstæður fyr­ir ryk­mynd­un

Mik­il óhrein­indi eru að jafnaði á göt­um Reykja­vík­ur í lok vetr­ar. Kjöraðstæður hafa skap­ast fyr­ir ryk­mynd­un í borg­inni þar sem mars og apríl hafa verið mjög þurrviðrasam­ir. Ryk þyrlast upp af göt­um borg­ar­inn­ar og þung öku­tæki hverfa jafn­vel í ryk­mökk­inn.

Í ryk­mekk­in­um er svifryk sem er ekki heilsu­sam­legt og get­ur bein­lín­is verið hættu­legt. Þess vegna er mik­il­vægt að standa vel að þrif­um gatna, göngu­leiða og hjóla­stíga í borg­inni. Ljóst er að með aukn­um þrif­um mætti draga veru­lega úr mynd­un ryks og annarra óhrein­inda. Einnig mætti huga bet­ur að gæðum mal­biks og skoða jafn­vel notk­un steypu við götu­lagn­ir í því skyni að draga úr svifryks­meng­un.

Marg­ar er­lend­ar borg­ir leggja mik­inn metnað í götuþrif. Í ná­granna­lönd­um okk­ar er al­gengt að göt­ur borga séu vatnsþvegn­ar mánaðarlega og sópaðar tvisvar í mánuði.

Í Reykja­vík er meg­in­regl­an sú að stofn­braut­ir og tengigöt­ur séu þvegn­ar einu sinni á ári og sópaðar þris­var, þ.e. vor, sum­ar og haust. Stíg­ar eru sópaðir eft­ir sama kerfi. Húsa­göt­ur eru þvegn­ar einu sinni og sópaðar tvisvar.

Byrjað er á hreins­un helstu göngu- og hjóla­stíga, sem og stofn­brauta, tengi­brauta og gatna og stíga við þær. Síðan hefst hreins­un og þvott­ur húsagatna, stétta og stíga við þær. Að lok­um eru stofn- og tengi­braut­ir þvegn­ar.

Sér­stök áhersla er lögð á miðborg­ina og þar eru göt­ur og gang­stétt­ir þvegn­ar og hreinsaðar mun oft­ar en í öðrum hverf­um.

Á ár­inu 2023 nam kostnaður við þrif gatna, gang­stétta og stíga í hverf­um borg­ar­inn­ar (að miðborg und­an­skil­inni) liðlega 100 millj­ón­um króna. Í miðborg­inni nam þessi kostnaður 133 millj­ón­um króna til viðbót­ar.

Árlegt bað er ekki nóg

Unnt er að stór­bæta gatnaþrif í Reykja­vík með því að leggja meiri áherslu á þau en nú er gert. Einn vatnsþvott­ur á ári dug­ir skammt í bar­átt­unni við rykið. Mestu máli skipt­ir að auka vatnsþvott­inn þannig að göt­urn­ar séu bæði vatnsþvegn­ar og sópaðar a.m.k. nokkr­um sinn­um á ári. Fram­far­ir í hreinsi­tækni gera það að verk­um að vel er hægt að tak­ast á við göturykið og hreinsa það burtu áður en það fer á flug um borg­ina í stór­um og ill­viðráðan­leg­um ryk­mekki.

Und­ir­ritaður lagði fram til­lögu Sjálf­stæðis­flokks­ins um málið á fundi borg­ar­stjórn­ar sl. þriðju­dag. Til­lög­unni var vel tekið og þeir borg­ar­full­trú­ar sem tjáðu sig um hana voru sam­mála um að fara þyrfti yfir fyr­ir­komu­lag gatnaþrifa í borg­inni og skoða leiðir til úr­bóta. Var til­lög­unni vísað til um­hverf­is- og skipu­lags­sviðs, sem hef­ur þrif gatna, göngu­leiða og hjóla­stíga borg­ar­inn­ar með hönd­um. Von­andi verður sú skoðun til þess að gatnaþrif verði auk­in svo borg­in okk­ar verði hreinni og snyrti­legri.

Gleðilegt sum­ar!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. apríl 2024.